23.01.1928
Neðri deild: 4. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í C-deild Alþingistíðinda. (1549)

18. mál, dýralæknar

Ólafur Thors:

Jeg skal játa, að jeg er enginn sjerfræðingur til þess að dæma um rjettmæti þessa máls, sem hjer liggur fyrir að ræða, enda er það heldur ekki nauðsynlegt.

Ef það er rjett, að gagn það, sem hægt er að hafa af dýralæknum, sje aðeins í því fólgið, að leita símleiðis ráða þeirra, þá er auðsætt, að einn dýralæknir nægir öllu landinu, ef hann þá er í símasambandi. En ef dýralæknir kemur að meira gagni þeim, sem nærri honum búa, og geta vitjað hans, og það tel jeg að muni vera, þá skilst mjer, að betra muni að hafa þá fleiri en færri, eða t. d. að 7 dýralæknar komi bændum að betra gagni heldur en 4 eða aðeins 2, eins og frv. fer fram á. Þess vegna get jeg ekki orða bundist um það, að mjer þykir þessi till., sem er fyrsta sparnaðartill. hæstv. stjórnar, koma úr hörðustu átt. Og hefði stjórnin í fyrra flutt þessa till., er jeg ekki í vafa um, að þá hefði núverandi hæstv. atvmrh. kallað það hnefahögg í andlit bænda, Enda verður því ekki neitað, með neinum skynsamlegum rökum, að þetta frv., um fækkun dýralækna, er hnefahögg til bænda. —

Hæstv. forseti hefir sýnt háttv. þdm. mikið frjálslyndi við umr. þessa máls. Vænti jeg einnig að verða hins sama frjálslyndis aðnjótandi, og vil þá nota tækifærið til þess að minna á, að hæstv. forsrh. hefir rekið fleirum en bændum hnefahögg þessa dagana. Þegar hann beitti sjer gegn því, að kosning hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) væri tekin gild, rak hann rjettlætinu hnefahögg. Því hvað sem fækkun eða fjölgun dýralækna líður, þá er mjer áhugamál, að rjettilega kjörnum þm. þessarar hv. deildar verði fjölgað með því, að Alþingi samþ. tafarlaust kosningu hv. þm. N.-Ísf. Síðast, þegar spurt var um þetta mál, voru þau svör gefin, að beðið væri eftir einhverjum skjölum, er upplýsa ættu málið. Nú vil jeg spyrja: Eru þessi skjöl komin? — og, ef svo er, hvers efnis eru þau? Þessu beini jeg til hv. form. kjörbrjefanefndar (SvÓ) og vænti þess, að hann svari nú þegar, hvar komið sje störfum nefndarinnar og hvenær vænta megi endanlegs úrskurðar hennar.