10.03.1928
Neðri deild: 44. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 773 í B-deild Alþingistíðinda. (155)

1. mál, fjárlög 1929

Haraldur Guðmundsson:

Jeg á eina litla brtt. á þskj. 435, V. till., um að veita Unni Ólafsdóttur dálítinn styrk til að leita sjer bóta erlendis við andlitsskemdum. Jeg vildi biðja hv. þm. að sýna þessari till. velvild og skal nú greina frá ástæðum til þess, að hún er komin fram. Þessi kona mun vera fyrsti sjúklingurinn, sem radiumlækningar hafa verið reyndar á í Kaupmannahöfn.

Hún hafði valbrá í andliti, fjekk ekki bætur, en hlaut í þess stað slæm brunasár, sem ekki hefir tekist að lækna til þessa. Hún hefir farið utan margsinnis og lagt mikið fje í kostnað. En nú eru þessar lækningar komnar á það stig, að læknar hjer fullyrða, að ef hún færi utan, myndi hún nú fá fullkominn bata. Þar sem svona sjerstaklega stendur á, vona jeg, að hv. þm. greiði þessari till. atkv. sitt. Á þessari stúlku hafa verið gerðar tilraunir, hún hefir verið nokkurskonar tilraunadýr — eins og annar hv. þm. komst að orði í öðru sambandi — á þessu sviði. Hún hefir varið öllum sínum efnum í þetta, svo að ekki eru líkur til þess, að hún komist utan, ef henni verður synjað um styrkinn. Læknarnir Gunnlaugur Claessen og Maggi Júlíusson Magnús mæla mjög með þessari styrkbeiðni hennar og telja fullar horfur á, að hún læknist alveg. En ef ekki verður undinn bráður bugur að þessu, ágerast skemdirnar, svo vonlaust er um bata síðar. —

Jeg vænti velvilja hv. þdm. til þessarar till. og ætla ekki að þreyta menn með lengri ræðu.