20.02.1928
Neðri deild: 27. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í C-deild Alþingistíðinda. (1556)

18. mál, dýralæknar

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Það er vafalaust tilgangslaust að fjölyrða um þetta mál. Það, sem hjer er að gerast, er hið sama og oft áður hefir gerst. Þegar bornar eru fram tillögur um að fækka opinberum starfsmönnum, og þótt viðurkent sje, að það sje rjettmætur sparnaður, fara hlutaðeigendur ávalt af stað með svo sterka „agitation“, að þetta verður mjög erfitt. Jeg spáði því við 1. umr., að erfitt mundi verða að koma þessu máli fram, og mjer sýnist sú ætla að verða raunin á. Og jeg segi það hispurslaust, að það, hve linlega háttv. landbn. hefir tekið á málinu, stafar af undanlátssemi hennar við utanaðkomandi „agitation“, sem ekki á við rök að styðjast. Það er ekki fyrst og fremst reynt að mótmæla fækkun dýralæknanna með því að segja, að dýralæknaembættin á Reyðarfirði og í Stykkishólmi hafi reynst nauðsynleg á undanförnum árum. Nei, hv. landbn. dettur ekki í hug að bera það fram, heldur kemur hún með það, að kanske megi hafa gagn af þeim á komandi tímum, láta þá kenna á námsskeiðum o. s. frv. En jeg vil ekki halda við embættum upp á svo loftkenda hluti. — Jeg taldi það skyldu mína, að bera fram þetta frv., af því að jeg taldi embættin ekki nauðsynleg. Og mjer þykir vænt um, að hv. form. milliþinganefndarinnar í landbúnaðarmálum (JörB) stendur þó með mjer í þessu máli, einn hv. landbn.-manna.

Það er ekki rjett hjá hv. frsm., að sparnaðurinn af fækkun dýralækna verði mjög óverulegur. Hann verður nálægt 10 þús. kr. á ári, og það eru þó 5% vextir af 200 þús. kr. höfuðstól.

Jeg álit þýðingarlaust að ræða þetta mál frekar, en vil aðeins endurtaka það, að jeg álít óverjandi, að halda þá menn á opinberan kostnað, sem ekki fæst full eftirtekja af.