20.02.1928
Neðri deild: 27. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 199 í C-deild Alþingistíðinda. (1559)

18. mál, dýralæknar

Pjetur Ottesen:

Jeg vona, að hæstv. forseti vaki vel yfir þeim fáu sálum, sem enn eru í deildinni, svo að ræðumenn geti að minsta kosti nokkurn veginn heyrt til sjálfra sín fyrir skvaldrinu.

Við 1. umr. gat jeg þess, að þótt mjer virtist byrjað á öfugum enda um embættismannafækkunina í þessu frv., þá mundi jeg þó greiða því atkv. mitt.

Jafnframt bar jeg fram brýningu til hæstv. stjórnar, um að bera fram tillögur um fækkun á fleiri embættum og sýslunum. Skoraði jeg á hana að láta nú hendur standa fram úr ermum og bera víðar niður. En það hefir alt verið til einskis mælt, að því er sjeð verður. Það er alment viðurkent, að bein not af dýralæknum til almennrar lækningastarfsemi — nema þegar sjerstaklega stendur á — sje tiltölulega lítil, sökum — þess, hve dreifðir þeir eru. Ef því á að láta þá halda sömu tölu og hingað til hefir verið, verður að leggja aðaláhersluna á fræðslustarfsemi þeirra. Hv. landbn. vill í dagskrá sinni sveigja nokkuð inn á þessa braut, en ef svo á að fella frv., sem nú eru allar horfur á, þá vil jeg að athugað sje, hvort ekki er tiltækilegt að færa verksvið dýralæknanna ennþá lengra út. Vill ekki hæstv. landsstjórn taka til athugunar, hvort dýralæknarnir geta eigi tekið að sjer ýms þau störf, sem Búnaðarfjelag Íslands hefir nú með höndum, t. d. eftirlitið með kynbótum nautgripa, sauðfjenaðar og hrossa? Starf þetta er m. a. í því fólgið, að veita forstöðu sýningum víðsvegar um landið og ráðleggja um gripaval. Sýnist mjer, að það gæti vel samrýmst starfi dýralæknanna, að stjórna þessum sýningum og gefa leiðbeiningar. Þarna gætu þeir jafnframt komið fram sem leiðbeinendur um meðferð sjúkdóma og slysa á skepnum, þannig, að þeir, sem sæktu sýningarnar, yrðu aðnjótandi almennrar fræðslu um þessi atriði. Mjer finst því fullkomlega þess vert, úr því að það eru litlar sem engar horfur á að málið fái að ganga fram, að reyna að gera það besta í málinu, sem kostur er á, þannig, að tilgangi frv. um sparnað á ríkisfje verði að einhverju leyti náð. Jeg vildi því, að hæstv. stjórn væri falið að taka til athugunar, hvort ekki væri hægt að samrýma þessa grein af starfsemi Búnaðarfjelags Íslands við starfsemi dýralækna. Við það mætti fækka ráðunautum Búnaðarfjelagsins, og er það vitanlega sparnaður á ríkisfje; því, eins og kunnugt er, byggist starfsemi Búnaðarfjelagsins einungis á fjárframlagi úr ríkissjóði. Það hefir a. m. k. einn dýralæknir látið það í ljós, að hann áliti þetta mjög vel geta farið saman. Einnig vil jeg benda á, að þegar stofnað verður til þeirra rannsókna. á alidýrasjúkdómum, sem fyrirhugaðar eru; og gert er ráð fyrir að veita fje til í fjárlögum 1929, væri sjálfsagt að nota starfskrafta dýralækna til þeirra þarfa að vetrarlagi, þegar þeir eru ekki á ferðalögum.

Jeg vil því hjer með, sökum þess, sem jeg áður sagði, að mjer virðist sýnt, að ekki verði hægt að koma þessari fækkun fram, bera fram rökstudda dagskrá, sem breytingu við hina rökstuddu dagskrá nefndarinnar, og hún hljóðar svo:

„Í því trausti, að atvinnumálaráðuneytið setji dýralæknum nýtt erindisbrjef, þar sem meðal annars sje ákveðið, að þeim sje skylt að veita almenningi fræðslu um eðli algengustu alidýrasjúkdóma og meðferð þeirra, með fyrirlestrum og námskeiðum og á annan hátt, og að ráðuneytið taki ennfremur til athugunar, hvort ekki sje unt að færa svo út starfssvið dýralækna, að þeir hafi einnig á hendi þá grein starfsemi Búnaðarfjelags Íslands, sem lýtur að hrossa-, nautgripa- og sauðfjárrækt, svo að þar megi fækka ráðunautum, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“