10.03.1928
Neðri deild: 44. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 774 í B-deild Alþingistíðinda. (156)

1. mál, fjárlög 1929

Jörundur Brynjólfsson:

Það eru fáein orð um brtt. á þskj. 435 um að hækka styrkinn til ferjunnar á Hrosshyl upp í 250 kr. Eins og hv. þdm. muna, þá afgreiddi þessi hv. deild í fyrra þennan lið með 300 kr. styrk, og ætla jeg, að það hafi verið samþykt með eitthvað um 20 atkv. Jeg hefi þegar tvisvar sinnum lýst hjer í þessari hv. deild aðstöðunni við þessa ferju og skal ekki þreyta menn á að endurtaka það. Hefir enginn með rjettu getað hnekt þeim ástæðum. En hv. Ed. sá það ráð til viðreisnar fjárhagsins að lækka þann styrk niður í 150 kr. Var það meðal annara helstu bjargráða, sem sú deild sá í fyrra til hjálpar fjárhag landsins. En nú ætla jeg, að fjárhag landsins hafi farnast svo vel síðan í fyrra, að jeg taldi mjer óhætt að fara fram á, að styrkurinn yrði hækkaður um 100 kr. Jeg vogaði ekki að fara fram á 300 kr., eins og þessi hv. deild veitti í fyrra. Verður það að teljast hart, ef fátækur barnamaður, sem gerir það af greiðasemi að gegna tafsömum ferjustörfum um hásláttinn, á að gjalda þess, að hv. Alþingi sýnir sig svo smásálarlegt að telja eftir þennan litla styrk. — Þótt hann fengi þessar 300 kr., væri honum vissulega betra að sinna engri ferju, ef hann lítur aðeins á eiginn hag. En hann er svo mikill drengskaparmaður, að jeg er viss um, að hann heldur áfram að sinna ferjunni, þótt hann fái ekki einn einasta eyri. Og þá hefir Alþingi maklegan sóma af því, að níðst sje á þessum fátæka bónda.

Jeg ætla ekki að minnast á fleiri af þeim brtt., er hjer liggja fyrir, en þarf þó að geta um eina, sem enn er ekki útbýtt, en bráðlega má teljast von á í deildina. Jeg er meðflm. að henni ásamt hv. þm. Ísaf. (HG), og er hún þess efnis, að Einari Markússyni verði bætt nokkuð laun þau, er hann hefir. Förum við fram á 1000 kr. hækkun, en nú eru launin 4500 kr. Þeir, sem til þekkja í Reykjavík og vita, hvað fjölskylda þarf sjer til viðurværis, fara nærri um, hve skamt þetta hrekkur. Við þetta bætist svo, að hann er búinn að vinna fyrir landið síðan fyrir aldamót, — jeg hygg, að hann hafi fyrst komið í þjónustu þess nálægt 1892. Síðan 1910 hefir hann unnið í stjórnarráðinu og hjá ríkisfjehirði. Hann er svo lágt launaður, að hann hefir margoft sagt mjer, að hann treysti sjer engan veginn til að bjargast við það. Þætti mjer mikil sanngirni í því, ef hv. þd. sæi sjer fært að verða við þessari litlu hækkun á launum hans.