30.01.1928
Neðri deild: 9. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í C-deild Alþingistíðinda. (1573)

47. mál, þingsköp Alþingis

Flm. (Hjeðinn Valdimarsson):

Utanríkismálin eru, eins og kunnugt er, að litlu leyti í höndum okkar Íslendinga sjálfra. Þetta frv. er borið fram í því skyni, að eitthvað megi lagast frá því, sem verið hefir um meðferð þeirra mála.

Hingað til hafa utanríkismálin aðeins átt heima í stjórnarráðinu, en þingið fengið mjög lítið um það að vita, hvað þar hefir gerst. Stundum eru kallaðir saman leynifundir í þinginu, eða leynifundir þingmanna innbyrðis, og leitað álits þingmanna á þann hátt um það, sem fyrir kann að hafa komið. En þetta er auðvitað mjög fjarri því, að þingið hafi beina íhlutun um það, sem gerist í þessum málum. Því hefir okkur Alþýðuflokksmönnum komið í hug, að rjett væri að gera þær umbætur, sem frv. þetta ræðir um, til þess að þingið geti fylgst með. Þetta ætti reyndar ekki að þurfa að vera neitt flokksmál. Það er víst, að væri föst utanríkismálanefnd, þá ætti að geta orðið meiri festa í málunum. Er það styrkur fyrir stjórnina að hafa slíka nefnd á bak við sig, ekki aðeins um þingtímann, heldur einnig utan þinga.

Ef einhverntíma á að hugsa til þess, að Ísland fái sjálft meðferð utanríkismálanna í sínar hendur, þá verður eitthvað að gera ráð fyrir því, að það sjeu fleiri en sá eini maður, sem forsæti skipar í stjórninni, eða tveir menn, sinn úr hvorum flokki, sem þekki þau mál. Það verður að ala upp menn í þinginu, sem fylgjast með þeim og geti gert um þau tillögur. Þess má líka vænta, að nefndin stuðlaði að því, að utanríkismálunum yrði meira sínt og reynt meira að draga áhrifin á stjórn þeirra hingað inn í landið. Sjerstaklega vil jeg minnast á það, að nauðsyn er til, að slík nefnd hafi starfað í nokkur ár og haft nauðsynlegan undirbúning áður en kemur til sambandsslita við Dani árið 1940.

Jeg vænti þess, að hv. deild taki vel þessu litla frv. og vísi því til 2. umr. og allshn.