30.01.1928
Neðri deild: 9. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 211 í C-deild Alþingistíðinda. (1575)

47. mál, þingsköp Alþingis

Pjetur Ottesen:

Með þessu frv. leggur hv. flm. til að kjósa 7 manna nefnd í sameinuðu þingi, sem sje vísað til öllum utanríkismálum, sem sameinað þing hefir til meðferðar, og auk þess starfi þessi nefnd milli þinga að slíkum málum, ásamt stjórninni. Það hafa ekki komið neinar tillögur um skipun slíkrar nefndar fyr en nú. Það mætti því ef til vill draga þá ályktun út frá þessu, að hv. flm. líti svo á, að núverandi stjórn væri þannig skipuð, að ástæða væri að gera sjerstakar ráðstafanir um eftirlit með gerðum hennar í þessum málum.

Eins og kunnugt er, eru utanríkismálin oft og tíðum ákaflega viðkvæm mál, og landsmenn eiga ákaflega mikið undir því, hvernig tekst um meðferð þeirra. En heppileg úrslit og afgreiðsla þeirra mála byggist vitanlega á því, að þeir, sem með þau fara, sýni næga festu, gætni og hyggindi. En umfram alt verður þó altaf að vera vel vakandi hjá slíkum mönnum sá sjálfstæðisandi, sem felst í orðunum „Ísland fyrir Íslendinga.“

Hvað viðvíkur tilhögun þeirrar nefndarskipunar, sem frv. fer fram á, þá virðist mjer hún óheppileg. Hjá okkur er, eins og kunnugt er, tvískift þing, og öll afgreiðsla og meðferð mála, sem í lagaformi eru, er vitanlega miðuð við þessa tvískiftingu. Þannig er fyrirskipað, að lagafrv. hvert verði að bera fram í annarihvorri deildinni. Málin eru svo rædd þar, og að þeim unnið að öðru leyti í þeim nefndum, sem deildirnar skipa. Það er því sýnt, að ekki er samrýmanlegt þingsköpum að ætla að láta nefnd, sem kosin er í sameinuðu þingi, taka til meðferðar þau mál, sem borin eru fram í deildunum. Þrátt fyrir það, þótt þessi nefnd yrði kosin á þennan hátt í sameinuðu þingi, yrði að vísa öllum utanríkismálum, sem borin væru fram í þinginu í lagaformi, fyrst til fastanefndanna í deildunum, eða þá kjósa sjerstaka nefnd í hvorri deild fyrir sig til þess að hafa þau til meðferðar. Þannig er það, að starf þessarar nefndar, eins og það er fyrirhugað, fellur alls ekki saman við núverandi skipulag þingsins.

Jeg er því samþykkur, að einhverjar ráðstafanir í þessa átt sjeu gerðar. En þó því aðeins get jeg fallist á að efnt sje til nefndarkosninga í þessu augnamiði, að sú aðferð sje viðhöfð, að kosin sje nefnd í hvorri deild fyrir sig.

Vitanlega er ekkert því til fyrirstöðu, að þessar nefndir vinni saman, enda er ráð fyrir því gert í þingsköpum, að fastanefndir þingsins hafi samvinnu um ýms mál. Viðvíkjandi starfi þessara nefnda utan þinga, en þá kæmi nefndin að sjálfsögðu fram sem samvinnunefnd beggja deilda, er það að segja, að það þarf ekki annað en setja ákvæði um það í þingsköpin, að þessi nefnd skuli hafa það fram yfir aðrar nefndir þingsins, að vera ráðunautur stjórnarinnar milli þinga.

Jeg vil því skjóta því til hv. flm., um þennan sjerstaka flokk mála, hvort hann gæti ekki fallist á þetta, og jafnframt til þeirrar nefndar, sem fær málið til meðferðar, að ef hún felst á þessar till. mínar, þá færi hún frv. í það form, sem jeg tel í rauninni það eina form, sem samræmanlegt er við þá þingskipun, sem við eigum nú við að búa.