30.01.1928
Neðri deild: 9. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 213 í C-deild Alþingistíðinda. (1576)

47. mál, þingsköp Alþingis

Flm. (Hjeðinn Valdimarsson):

Ræða hv. þm. Borgf. gefur mjer ekki ástæðu til margra athugasemda. Það er aðeins tvent, sem jeg vildi minna á til svars.

Hv. þm. gat þess, að þetta frv. væri sjerstök varúðarráðstöfun gagnvart þeirri hæstv. stjórn, sem nú er, af því að slíkt hefði ekki komið fram fyr. Jeg neita því, að þetta sje sjerstaklega vegna þessarar stjórnar, frekar en hverrar annarar stjórnar. Jeg álít, að þingið eigi að fylgjast með gerðum hverrar stjórnar sem er. En ef það væri eitt frekar en annað, sem hefði ýtt á eftir þessu frv., þá er það fremur meðferð fráfarandi stjórnar landsins en vegna þeirrar núverandi.

Hitt atriðið var það, að háttv. þm. Borgf. taldi rjettara að hafa sína nefndina í hvorri deild, sem ynnu síðan saman að þessum málum. Mjer finst þetta ekki varða mjög miklu; atalatriðið er, að það komist á eitthvert fast form, og að það sje nefnd úr þinginu, sem starfi eitthvað milli þinga. En þó verð jeg að geta þess, að eðlilegra finst mjer að nefndin sje í sameinuðu þingi en í hvorri deild fyrir sig, og meiri líkindi til þess, að eining verði í stefnu utanríkismálanna, er nefndin er þannig skipuð, enda mætti svo um búa, að hægt væri að vísa til hennar málum úr báðum deildum.

Það er tiltölulega sjaldan, sem þarf löggjöf um utanríkismálin; það kemur aðallega til ályktana sameinaðs þings, en sjaldan þarf laga, þó að slíkt geti auðvitað átt sjer stað. Fyrst eru samningar gerðir út á við, áður en farið er að mynda löggjöf, ef hennar gerist þörf.

Ef kosin yrði nefnd í hvorri deild, yrðu þær að starfa saman fyrst, og síðan gengi hvor í sína deild, þegar til löggjafar kæmi. Jeg geri ráð fyrir, að hv. allshn. taki þetta atriði til athugunar.