07.02.1928
Neðri deild: 16. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 226 í C-deild Alþingistíðinda. (1603)

69. mál, loftskeytanotkun veiðiskipa

Flm. (Sveinn Ólafsson):

Jeg ætla ekki að hafa langan formála fyrir þessu frv. Jeg tel það skýra sig sjálft og hygg, að hverjum manni muni augljós stefna þess. Vil jeg ætla, að það sje áhugamál öllum góðum borgurum landsins að stuðla að því, að fyrirgirt verði misnotkun loftskeytannna til stuðnings brota á landhelgislögunum. Jeg þykist þó vita, að talsvert sjeu um það skiftar skoðanir, hvaða leiðir sjeu líklegastar til þess að ná þessu marki. Má vel vera, að aðrar eða fyllri tillögur en frv. geymir þurfi fram að koma í þessu efni. En þess ætti þá að mega vænta, að við meðferð málsins kæmu þær í ljós.

Það er alment viðurkent, að engin íslensk lög muni jafnoft brotin og lögin um bann gegn botnvörpuveiðum í landhelgi. (ÓTh: En bannlögin?) Jeg hygg, að þessi lög sjeu jafnvel enn oftar brotin. Þess eru mörg dæmi, að hundruð og jafnvel þúsundir manna hafa orðið að horfa á þau lagabrot í stórum stíl dag eftir dag úr landi, án þess að geta nokkuð að gert. — Einnig er það alment viðurkent, að þessi botnvörpuveiði í landhelgi sje einhver háskalegasta rányrkja, sem hægt er að stunda hjer við land. Það alvarlegasta í þessu efni er það, að slík lögbrot leiða ekki aðeins til tjóns fyrir atvinnu þeirra, sem leita sjer lífsviðurværis við smábátaútveg, heldur leiðir þetta til gerspillingar á fiskiveiðunum í framtíðinni og eyðileggingar á hrygnistöðvum nytjafiskanna. Auðvitað er það viðurkenningin á þessari hættu og því tjóni, sem af henni getur leitt, sem knúð hefir til svo alvarlegrar viðleitni um að verja landhelgina, eins og hjer hafa verið gerðar á síðari árum. En eins og öllum er ljóst, ná þær hvergi nærri nógu langt, og þess verður áreiðanlega langt að bíða, að vjer verðum þess megnugir að verja landhelgina til hlítar. Þetta erfiða verkefni ríkisins og varðskipanna torveldast því meir sem meira kann að verða gert að því að styðja þá menn, sem lögin brjóta, í því að varast varðskipin og komast undan þeim. Þótt því sje neitað úr ýmsum áttum, að þetta eigi sjer stað, þá má þó telja fullar sannanir fyrir því, að talsverð brögð sjeu að þessu. Vil jeg minna hjer á þær upplýsingar, sem þyngstar verða á metunum, en það eru yfirlýsingar fyrv. 1. þm. G.-K., Ág. Flygenrings, þess útgerðarmanns, sem mest og best mun hafa hugsað þessi mál og af mestri hreinskilni hefir um þau talað. Vildi jeg með leyfi hæstv. forseta lesa nokkur orð, er hann mælti á þingi 1924, er rætt var um sjerstök refsingarákvæði fyrir íslenska skipstjóra, er brytu landhelgislögin. Auðvitað verð jeg að slíta þessi orð út úr samhengi, en jeg vænti, að það komi ekki að sök. Ág. Flygenring kvað svo að orði um skipstjóra togaranna:

„Það vita allir, sem eitthvað þekkja til, að sumir þeirra, sem brotlegastir eru, hafa aldrei verið teknir.“ — Á öðrum stað segir hann: „Og auðvitað er það, að landhelgisbrot eru ekki ókunnug útgerðarmönnum. Það er opinber leyndardómur, að loftskeytatæki og annað slíkt er fyrst og fremst haft í skipunum vegna landhelgisveiðanna.“ — Og enn segir hann: „Nú er það vitað, að þeir, sem leiknastir eru að veiða í landhelgi, eru þannig útbúnir, að sáralítil hætta er fyrir þá, að í þá náist.“

Það mætti benda á fleiri ummæli af líku tæi frá þessum sama hv. þm. En það vill svo vel til, að hann er ekki einn til frásagnar um þetta, því að úr fleiri áttum hafa heyrst samskonar raddir. Liggja fyrir gögn um þetta, þótt jeg hirði ekki að heimfæra þau til nafna að sinni. Í sjálfu sjer er ekkert undarlegt við þetta, því að allir hljóta að sjá, að frestingin er óvenju mikil hjá fiskimönnum til þess að nota landhelgina, þegar þar er mikla veiði að fá. En engum dylst, að auk þeirrar hættu, að hrygningarstöðvarnar skemmist og grunnmiðaveiðin, stafar einnig af þessu sú hætta, að útlendar þjóðir, sem verða að beygja sig undir íslensk lög um landhelgivarnir, týni traustinu á rjettlæti og rjettdæmi Íslendinga, þegar okkar eigin skip sleppa nær altaf úr greipum varðskipanna, enda þótt þau veiði ekki síður í landhelgi. Um það er vitaskuld nokkur ágreiningur, hvort rjett sje það, sem sumir hafa haldið fram, að íslenskir botnvörpungar veiði meira í landhelgi en allir aðrir. Um það er vitanlega ekkert hægt að sanna, en einn hv. þdm., hv. þm. Borgf., hjelt því samt mjög eindregið fram 1924, og færði fyrir því allskýr rök, að íslensku botnvörpungarnir væru einmitt forsprakkar að landhelgiveiðum. Jeg vil ennfremur benda á, að nú fyrir fám dögum kom alveg hið sama fram í ræðu hjá hv. þm. Snæf. í Ed., er hann mælti fyrir frv. sínu um nýtt strandvarnaskip. Hann hjelt því fram, að íslenskir skipstjórar ættu mikinn þátt í landhelgibrotunum, og að þeir væru öllum öðrum fiskimönnum djarfari í þeim efnum.

Með þessum orðum vildi jeg rjettlæta þá tilraun, er kemur fram í frv., til að fyrirgirða, að brot af þessu tæi eða aðstoð við lögbrotin úr landi verði vitalaust framin á komandi tímum. Þótt gerðar verði strangar ráðstafanir, er þess ekki að vænta, að synt verði fyrir öll sker, en þó ætti að mega fækka brotunum mikið.

Það segir sig sjálft, að þegar togari, sem mætir varðskipinu við Reykjanes, getur þegar í stað tilkynt öðrum það loftleiðina, að varðskipið sje nú á austurleið, þá er ekki mikill vandi fyrir veiðiþjófa við Ingólfshöfða, eða þótt vestar væru, að forða sjer í tæka tíð. En sýnu auðveldara er þó að sleppa, ef svo reynist, sem ekki er aðeins sterkur grunur um, heldur nærri full vissa, að botnvörpungunum sje tilkynt alt um ferðir varðskipanna úr landi. Þá aðstoð við lögbrjóta þarf að fyrirgirða, eða a. m. k. að torvelda eftir því sem hægt er, að slíkar skeytasendingar geti orðið lögbrjótunum að liði.

Jeg finn ekki ástæðu til að fara öllu lengra út í málið að svo komnu. Jeg hygg, að þess gerist ekki þörf. Jeg vænti, að málinu verði vísað til nefndar, og mundi það þá helst eftir venju eiga að verða sjúvtn. Þó sje jeg ekkert á móti því, að það fari t.il allshn., en vil samt ekki gera það að tillögu minni.