10.03.1928
Neðri deild: 44. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 788 í B-deild Alþingistíðinda. (161)

1. mál, fjárlög 1929

Jóhann Jósefsson:

Það eru tvær brtt., sem jeg hefi leyft mjer að bera fram við þennan kafla fjárlaganna, og eru að vísu báðar breytingar frá till., sem jeg flutti við 2. umr. Hv. frsm. (IngB) lýsti yfir því við 2. umr. að því er snerti framlag ríkissjóðs til Vestmannaeyjaspítala, að ekki væri nema sjálfsögð sanngirni að miða styrkinn við það, sem bærinn leggur fram, en hann fann það aðallega að till. minni, að hún væri ekki að forminu til rjett fram borin; — það ætti að miða það við framlag, sem hjeraðið legði af mörkum, og leggja til 1/3 af því. Þetta var aðalforsendan. Jeg hafði lýst yfir því, að framlag bæjarsjóðs til spítalans muni verða í alt nær 60 þús. kr. En vegna þess, að jeg hefi ekki reikninga í höndum fyrir því, þá vil jeg ekki í þetta sinn halda málinu lengra fram en það, að fara fram á 1/3 af þeirri upphæð, sem vitanlegt er, að bæjarsjóður hefir þegar tekið á fjárhagsáætlun sína, en það eru 30 þús. kr. Sú upphæð er samningsbundin. Jeg hefi því borið fram þessi tilmæli bæjarstjórnar á þeim grundvelli, að greiddar verði 10 þús. kr. til Vestmannaeyjakaupstaðar upp í þann byggingastyrk, sem bærinn hefir þegar lagt til sjúkrahússins. Vona jeg, að hv. fjvn. og hv. deild verði við þessari sanngirniskröfu, og að háttv. frsm. finni ekki á till. nýjan formgalla, er verði henni að falli.

Þá hefi jeg undir sama lið borið fram till. um styrk til þeirra manna, sem þurfa að fá sjer gervilimi. Hún fjell með jöfnum atkv. í hv. deild við 2. umr., og get jeg mjer til, að einhverjum hafi þótt of langt gengið í fjárframlagi; hefi jeg því minkað fjárupphæðina um 1000 kr. frá því, sem áður var. Jeg tel óþarft að rökstyðja þörfina fyrir þessari fjárveitingu, af því að bæði á síðasta þingi í báðum deildum og nú við 2. umr. voru leidd rök að því, hve mikil nauðsyn bæri til, að menn, sem fyrir slíkum slysum verða að missa limi, eigi í einhvern stað að venda um hjálp til þess að fá sjer gervilimi. Jeg veit það vel, að hjer er ekki um svo stórfelda hjálp að ræða, að komið geti öllum að liði í einu, en svo er líka háttað um margt, sem hið opinbera styrkir. Sje sú venja tekin upp, að leggja eitthvað lítið af mörkum í fjárlögum í þessu skyni, þá verður af því áframhaldandi hjálp til þeirra, sem styrk þurfa. Og þjóðfjelaginu er áreiðanlega hagur að því, að menn eigi kost á því að gera sig svo færa, sem unt er, til þess að heyja lífsbaráttuna áfram.

Þá vildi jeg undirstrika það, sem hv. þm. Ísaf. (HG) sagði viðvíkjandi brtt. undir V. lið. Það er svo um þessa konu, að hún hefir orðið mjög hart úti vegna tilrauna, sem gerðar hafa verið til þess að lækna þann sjúkdóm, sem hún er fædd með, en þær tilraunir hafa mistekist. Er útlit fyrir, ef hún fær ekki hjálp til þess að leita sjer lækninga, að hún muni þola miklar þjáningar af því, hvernig þessar tilraunir hafa tekist. Jeg álít, að það standi svo sjerstaklega á fyrir þessari konu, að það sje vert fyrir háttv. þdm. að greiða till. atkv.