07.02.1928
Neðri deild: 16. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 261 í C-deild Alþingistíðinda. (1610)

69. mál, loftskeytanotkun veiðiskipa

Ólafur Thors:

Jeg vil fyrst leyfa mjer að skjóta því til hv. flm., hvort beri að taka hin vinsamlegu ummæli hans í minn garð sem skop. Jeg veit ekki betur en að jeg hafi unnið með honum í nefnd af fullri einlægni, að þeim málum, sem til okkar hefir verið vísað.

Í tilefni af ræðu hæstv. dómsmrh. verð jeg að svara honum nokkrum orðum. Jeg skal reyna að hafa það mjög stutt.

Hann sagðist skilja ræðu mína þannig, að jeg væri ótryggur vinur landhelgismálanna, og kvað þann mótþróa, sem jeg hefði sýnt gegn þessu frv., vera sönnun þess. Það stendur einhversstaðar skrifað, að þann, sem guð elskar, agar hann. Jeg þykist geta sagt, að jeg beri landhelgismálin mjög fyrir brjósti, þótt jeg hinsvegar segi, að þetta frv., sem hjer liggur fyrir, sje svo mjög gallað að formi og hugsun, að það sje algerlega óviðunandi.

Hæstv. dómsmrh. sagði, að jeg ætti skilið, að aðrir skopuðust að mjer, því að jeg hefði gert það sjálfur.

Það mun vera rjett skilið hjá hæstv. ráðh., að jeg hafi skopast að rithöfundarhæfileikum mínum. En þótt svo hafi verið, bar jeg þó í þeirri ritdeilu, sem hann talaði um, hærri hlut fyrir hæstv. dómsmrh., og þykist hann þó stundum geta komið fyrir sig orði. Annars var það eins og svo oft áður hjá hæstv. ráðh., að það var áberandi, hve illgirnin var ríkur þáttur í ræðu hans. Hann var að væna mig um það, að jeg hefði gefið kjósöndum mínum lognar yfirlýsingar. Jeg vil leyfa mjer að segja það, að jeg hefi engar yfirlýsingar gefið í þessum efnum, aðrar en þær, sem mjer hefir verið full alvara með. Jeg býst við, að hv. þdm. þekki mig það vel, að það mun aldrei henda mig, að gefa lognar og falskar yfirlýsingar.

Hæstv. dómsmrh. lítur svo á, að það sje lítið að byggja á fjölda varðskipanna, því að það sje ekki á okkar færi, efnahagsins vegna, að hafa þau svo mörg, að að fullu gagni komi. Nú sjeu varðskipin t. d. 3, og þó sjeu togararnir altaf í landhelgi, á hverri nóttu. Það má nú segja, að hæstv. dómsmrh. sjer furðu langt og vel, ef hann getur fylgt togurunum á ólöglegum leiðum þeirra á niðdimmum nóttum.

Það er að vísu rjett, að varðskipin eru að nafninu 3, en þeim er svo háttað, að „Þór“ hefir nú legið um langan tíma í viðgerð hjer í Reykjavík, annað skipið er vitaskipið, sem er algerlega óviðunandi til gæslunnar, og það þriðja er „Óðinn“, sem gegnir björgunarstörfum við Vestmannaeyjar í stað „Þórs“. Þetta er því alls ekki sambærilegt við það, ef um 3 fullkomin varðskip væri að ræða.

Jeg verð nú að vera svo illgjarn í garð hæstv. dómsmrh. að segja það, að jeg er ekki alveg viss um, hver hugur hans er í þessu máli. Jeg þykist hafa ástæðu til að halda, að hæstv. ráðh. sjái, að þetta frv. kemur að litlum notum. En ef hann veigrar sjer við að sinna öðrum kröfum sjávarútvegsmanna, þeim, sem rjettmætar eru og máli skifta fyrir strandvarnirnar, þá skal jeg fyrstur manna rísa upp og segja, að hann sje óheill í þessu máli.

Nú vil jeg gera hæstv. ráðh. þann miska, að hafa yfir eina setningu, sem hann sagði í síðustu ræðu sinni. Hann sagði, að mönnum væri ekki treystandi til að ráða vel fram úr máli, þar sem þeir ættu sjálfir hagsmuna að gæta. Þessi ummæli eru honum alls ekki samboðin. Ef þetta er hugarfar hæstv. dómsmrh., á hann undir eins að segja af sjer. Dómsmrh., sem svo hugsar, á ekki að þolast.

Jeg spurði um það, hvort það mundi geta talist saknæmt, þó að togari, sem er á leið heim úr veiðiför, sími það til annars skips, að hann hafi orðið var við „Óðin“ á leið sinni. Því svarar ráðh. á þessa leið: „Hvað varðar þennan togara um „Óðin“ eða „Þór“. Togaraskipstjóri, sem er að kjafta — jeg vek athygli hv. þm. á því, að ráðh. segir „kjafta“ — um varðskipin, á skilið að fá kúlu í belginn.“

En ef ætti að framfylgja þeirri reglu, að láta alla fá „kúlu í belginn“, sem „kjafta“ um það, sem þeim kemur ekki við, vildi jeg ráðleggja hæstv. forsetum að fá sjer hríðskotabyssu og hæstv. dómsmrh. að mæta í þinginu brynvarinn frá hvirfli til ilja.