10.03.1928
Neðri deild: 44. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 789 í B-deild Alþingistíðinda. (162)

1. mál, fjárlög 1929

Bernharð Stefánsson:

Jeg á alls enga brtt. við þennan kafla fjárlaganna, og ekki ætla jeg heldur að tala um fjárlögin alment, enda þótt það sje leyfilegt við þessa umr. Jeg þarf því ekki að vera margorður; en jeg finn sjerstaka ástæðu til að tjá háttv. fjvn. þakkir fyrir eina till. hennar. Það er till. um að hækka tillag til nýrra símalína um helming, úr 150 þús. upp í 300 þús. kr. Jeg hefi sjerstaka ástæðu til að þakka þessa breytingu, þar sem mjer er kunnugt um, að það er ætlun hæstv. stj. og landssímastjóra að nota þessa viðbót meðal annars til þess að leggja símalínu frá Víðimýri í Skagafirði norður til Akureyrar. Liggur þá sú lína að nokkru leyti um mitt kjördæmi, og er því til mikilla hagsbóta fyrir það, þó að landssíminn sjálfur hafi sennilegast enn meira gagn af, þar sem knýjandi nauðsyn má telja, að þessi lína verði bygð, vegna sambandsins um Norðurland til Austurlandsins. Þegar landssíminn var bygður 1906, var það svo, að í fyrstu ætluðust verkfræðingar til þess, að línan lægi um Öxnadalsheiði. Af því varð þó ekki, og verð jeg að telja það misráðið. Er gott til þess að vita, að eiga nú von á þessari línu, þó seint sje.

Annars vil jeg taka það fram, að mjer er ánægja að sjá till. hv. fjvn., því þó till. hennar miði að hækkun á útgjaldaliðum fjárlaganna, þá er þess að gæta, að þær hækkanir eiga að ganga til bráðnauðsynlegra framkvæmda í landinu og eru því ekki eyðslueyrir í eiginlegum skilningi. T. d. hefir tillag til brúa verið hækkað um helming, og er fyllsta þörf á. því. Svo er um fleira.

Skal jeg svo ekki orðlengja þetta frekar. Tilgangur minn með því að kveðja mjer hljóðs var aðeins sá, að tjá hæstv. stj. og hv. fjvn. þakkir fyrir það fyrirheit, sem jeg tel, að gefið hafi verið um, að símalína yrði bygð á næsta ári frá Víðimýri um Öxnadalsheiði til Akureyrar. Jeg tek þetta sem ákveðið loforð, og sje það ekki rjett skilið, þá vænti jeg, að það verði leiðrjett. Verði það ekki gert, tel jeg það staðfestingu á því, að fjenu eigi að verja til að byggja þá línu, er jeg gat um.