09.02.1928
Neðri deild: 18. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í C-deild Alþingistíðinda. (1639)

78. mál, bændaskóli

Pjetur Ottesen:

Eins og aðalflm., hv. þm. Mýr., hefir lýst, þá er svo, að aðalbreytingar þessa frv. á lögunum um bændaskólana ganga í þá átt, að bæta fyrirkomulag þeirra, og er það ekki að ástæðulausu, því að menn hafa fundið allsárt til þess, hversu lítið áhrifa búnaðarskólanna hefir gætt í því, að nemendur þeirra lærðu verklega búfræði. Þannig hefir það verið með ýmsa menn, sem útskrifast hafa af þessum skólum, að þeir virðast ekki vera öðrum fremri í meðferð jarðyrkjuverkfæra og jarðyrkju yfirleitt. Það er því áreiðanlegt, að bændaskólunum er mjög ábótavant í þessu efni.

Með því frv., sem hæstv. stjórn flutti á þessu þingi, um breyting á bændaskólalöggjöfinni, en sem ekki náði nema til annars skólans, er þó gert ráð fyrir því að auka verklega námið við þann skólann, en jeg felli mig betur við, úr því að á annað borð er hafist handa, að þessar umbætur sjeu gerðar á báðum skólunum. Jeg hefði annars talið rjettara að bíða tillagna milliþinganefndar í landbúnaðarmálum um þetta mál, því að það mun sameiginlegt við báða skólana, að allmikið skorti á í þessu efni. Hinsvegar virðist mjer líka rjettara, að ákveða það beint í lögunum, hverjar greinir hins verklega náms skólarnir eigi að hafa. Jeg vil ekki segja, að það, sem hv. flm. þessa frv. hafa lagt til málanna, sje það besta, en það á eftir að ganga í gegnum nefndir hjer í þinginu, og getur því staðið til bóta. Mjer finst þetta frv. taka frv. stjórnarinnar allmikið fram, bæði af því, að hjer er gert ráð fyrir að ráða bót á þessu við báða skólana, og svo því, að hjer á að slá þessu föstu í lögum. Auk þess virðist mjer þetta frv. benda til þess, að það muni vera meining hv. flm. þess, að sporna á móti því, að beina skólunum inn á þá braut, að taka þar upp almenna fræðslu, framar því, sem nú er, og get jeg verið þeim samþykkur.

En mjer virðist það þó vera eitt atriði í þessu máli, þar sem kennir nokkurs undanhalds hjá hv. flm., frá því, sem er í gildandi lögum um bændaskólana. Í frv. stjórnarinnar er gert ráð fyrir því, að heimila, að skólabúið á Hólum sje rekið á kostnað ríkissjóðs, og það er sýnilegt, að það vakir fyrir stjórninni, sem flytur þetta mál, að færa rekstur búsins í þá átt, enda held jeg að það hafi komið fram, þegar hæstv. atvmrh. reifaði þetta mál. En jeg minnist þess, að það var einmitt annar flm. þessa frv., hv. 2. þm. Skagf., sem benti á, að ríkisbúskapurinn á Hólum ætti ekki þá fortíð, að hyggilegt væri að hverfa að honum aftur, og gat jeg ekki þá greint annað, en að hv. 2. þm. Skagf. vildi sporna við því, að þetta væri tekið upp aftur við Hólaskóla. En mjer finst, að hv. flm. þessa frv. hafi dálitið smitast af þeirri ríkisrekstrarhugmynd, sem fram kemur hjá hæstv. stjórn, því að þeir vilja einmitt kippa burt úr lögunum þeim öryggisákvæðum, sem þar standa um það, að búin skuli ávalt rekin af einstaklingum, svo fremi sem til þess fáist færir og hæfir menn, því að í 1. gr. frv. þeirra stendur, að reka megi búin á bændaskólunum á ríkissjóðs kostnað, „ef hentara þykir,“ en í lögunum stendur, að þau skuli rekin á landssjóðs kostnað, „ef öðru verður ekki við komið.“ Nú er það upplýst, að landsstjórninni þykir það hentara, að láta reka búin á ríkissjóðs kostnað. (BÁ: Það er talað um eitt bú.) Já, auðvitað gat hæstv. atvmrh. ekki tekið öðruvísi til orða í ræðu sinni, því að ákvæði þess frv., sem hann flytur, ná aðeins til annars bændaskólans, nefnilega Hólaskóla. En ef hæstv. atvmrh. vill reka bú á Hólum á kostnað ríkisins, þá vill hann auðvitað líka reka búið á Hvanneyri á kostnað þess. Þess vegna virðist mjer, ef þessi breyting verður samþykt, að þá sje stefnt að því, að horfið verði inn á þá braut með rekstur búanna, en jeg veit, að þótt stjórnin vildi koma ríkisrekstri að á Hvanneyri, þá sje henni það ekki í lófa lagið nú, en aftur á móti verður hægt að koma þessu svo fyrir á Hólum þegar á næsta vori.

Þegar jeg legg þetta saman, sem fram kemur í frv. hæstv. atvmrh., og það, sem sagt er á þskj. 114, þá virðist mjer svo sem það sje þegar samið og sett, að farið verði á næsta vori að reka skólabúið á Hólum á kostnað ríkisins. Þetta ætla jeg að vona að hv. þingdeild athugi, og þá sjerstaklega hv. 2. þm. Skagf., því að eftir ræðu hans á dögunum veit jeg, að hann er á móti því, að það verði gert.