09.02.1928
Neðri deild: 18. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 289 í C-deild Alþingistíðinda. (1641)

78. mál, bændaskóli

Jón Sigurðsson:

Það kann að virðast svo, sem ekki sje samræmi á milli þess, sem jeg sagði hjer um daginn, þegar annað frv. var hjer til meðferðar, og þeirra tillagna, sem jeg er nú meðflutningsmaður að. Jeg lýsti þá þeirri skoðun minni á ríkisrekstri, að jeg teldi hann athugaverðan. En af því að þetta er nú dregið inn í umræðurnar, finn jeg mjer skylt að gera grein fyrir því, hvers vegna jeg get aðhylst svona tillögur. Það er af því, að þótt jeg telji það rjett, að skólabúin sjeu rekin af einstökum mönnum — og svo best tekur almenningur þá til fyrirmyndar, að það sjeu einstaklingar, sem beri ábyrgðina, og menn viti það, því að fjöldinn lítur svo á, að þegar ríkissjóður, með sitt breiða bak, tekur eitthvað upp á sína arma, þá sje það ekki lengur orðið öðrum til fyrirmyndar. En við höfðum nokkra reynslu í þessu efni, og sú reynsla hefir kent mjer, að þótt jeg telji, að skólabú eigi undir flestum kringumstæðum að vera rekin af einstökum manni eða skólastjóra, þá er mjer svo ant um skólann, að jeg vil heldur brjóta í bág við þessa stefnu, heldur en að hæstv. stjórn verði neydd til að láta skólabúið í hendurnar á þeim mönnum, sem reka það þannig, að það sje fremur til viðvörunar heldur en hitt, og þess vegna vil jeg hafa þetta svo rúmt. Jeg treysti því, að stjórnin fari ekki ótilneydd inn á þessa braut. Annars mun mjer kanske síðarmeir gefast tækifæri til að benda á fleiri hliðar þessa máls, eins og t. d. þann stofnkostnað, sem af þessu hlyti að leiða, t. d. kaup á innbúi, fjenaði og mörgu öðru, sem alt er í eigu bústjóra, en sem mundi kosta ríkissjóð stórfje.

Hæstv. atvmrh. vjek að því, að það mundi verða erfitt að framkvæma verklega kenslu undir þeim kringumstæðum, að einstaklingur ræki búið, Því er ekki að neita, að ef slík kensla er samviskusamlega framkvæmd og hugsað um það, að nemendur hafi sem mest gagn af kenslunni, hlýtur það ávalt að baka bústjóra mikinn kostnað. En jeg álít, að um leið og þessi kvöð er lögð á bústjórann, eigi að gefa honum svo góð ábúðarskilyrði, að hann geti staðið sig við þetta, og jeg held, að það verði hyggilegra, bæði fyrir ríkið og skólann, að þessu verði þannig háttað.

Jeg ætla svo ekki að fara inn á fleiri atriði, því að þau hefir hv. aðalflm. (BÁ) tekið mjög skilmerkilega fram.