16.02.1928
Neðri deild: 24. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 292 í C-deild Alþingistíðinda. (1645)

87. mál, bann á næturvinnu

Flm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Þetta mannúðar- og menningarmál, sem hjer er fram borið, mun ekki ókunnugt hv. þdm., því að það var hjer á ferðinni á síðasta þingi. Krafa þessi, um afnám næturvinnu, er fram komin frá verkamönnum sjálfum.

Í „Dagsbrún“ hefir verið samþ. ár eftir ár, að slík krafa verði gerð að lögum. Fyrst var gerð tilraun við atvinnurekendur, hvort þeir gætu ekki gengið inn á þetta með samningum. Þetta var reynt, en tókst ekki, því að það þurfti að kosta ýms fríðindi í móti, og þá oftast kauplækkun. Að þessu gátu verkamenn ekki gengið, því eins og kunnugt er, verða þeir oft að heyja harða baráttu um kaupið, og þessa kröfu gátu þeir ekki selt fyrir nokkra aura á klukkustund.

Þá var það samþ., að krefjast þess, að sett væri með lögum þessi rjettarvernd.

Nú munu hv. þdm. alment spyrja, hvaða nauðsyn sje til að afnema næturvinnu. Jeg mun því reyna að rökstyðja, að þessi krafa er ekki að nauðsynjalausu fram komin, og ekki út í loftið.

Í fyrsta lagi er krafa þessi nauðsynleg vernd fyrir heilsu manna. Það er nú svo hjer í Reykjavík, að menn verða að híma klukkustundum saman, kaldir og svangir og oft illa búnir, eftir því að fá vinnu. Þetta er mjög títt hjer, einkum þegar atvinnuleysi er mikið. Ef til vill hefir nokkur hluti þessara manna komist að vinnu, hinir verða að fara heim jafnnær að kvöldi, eftir að hafa staðið allan daginn.

Jeg veit ekki, hvort nokkur hv. þdm. getur sett sig inn í lífskjör þessara manna, því að þetta endurtekur sig dag eftir dag og stundum viku eftir viku. Eins og hjer er háttað, er það oft svo, þótt menn hafi ef til vill fengið vinnuna, að þeir hafa fengið nóg af striti dagsins, þótt þeir ynni ekki nóttina með. Á nóttunni er kuldi og raki loftsins meiri, einkum á þeim tíma árs, þegar allra veðra er von. Nóttin er líka hinn eðlilegi hvíldartími öllum mannlegum verum, og sá tími, er menn njóta svefnsins best.

Það má líka segja, að þessi krafa sje fram komin til þess, að ofþjökun á vinnuþoli manna eigi sjer síður stað. Eins og vinnubrögðum er háttað hjer, kemur það oft fyrir, þegar mikill fiskur berst að á vertíðinni, að sumir menn, sem aðgangsfrekir eru um vinnu, vinni í 2 sólarhringa samfleytt. Þegar menn fara að vinna svo lengi, segir það sig sjálft, að þeir afkasta minnu en með fullum kröftum. Á meðan menn þessir geta haldið út, bíða svo jafnmargir, sem enga vinnu fá. Þetta er því líka hreint og beint skipulagsatriði.

Jeg held því fram, að ef vinnutíminn væri reglubundinn, mundi verða meiru afkastað við vinnuna. Hitt skipulagið gerir það að verkum, að í öllum tilfellum verður minna unnið.

Því er svo háttað, að allmikill hluti þeirra manna, er verða að sætta sig við þau lífskjör að stunda hina svo nefndu „eyrarvinnu“, eru ekki gjaldgengir, að dómi atvinnurekenda, til annarar vinnu, svo sem sjómensku, sem reynslan hefir þegar sýnt. Yfirleitt eru þetta eldri menn, sem ekki eru eins harðir í horn að taka og ekki færir til að þola þessa meðferð, að vinna bæði dag og nótt. Jeg get ekki komist hjá að minnast á það fyrirkomulag, er jeg veit best í hafnarbæjum hjá nærliggjandi þjóðum. Það kann að verða sagt, að við eigum að láta okkur litlu skifta síðu annara þjóða, en í þessu tilfelli má áreiðanlega taka tillit til þeirra.

Hjer á landi búa menn, sem hafa sömu þarfir, sömu eiginleika og tilfinningar og þeir, er búa í Englandi, Noregi, Danmörku o. s. frv., og mætti því ætla, að þeir þyrftu að hafa eitthvað svipaða aðbúð og þeir.

Það er nú orðið all-langt síðan jeg hefi verið erlendis, en þá kom jeg í allmarga hafnar- og fiskibæi, þá er líkastir eru og hjá okkur, og kynti jeg mjer vinnufyrirkomulag þar. Mjer er óhætt að segja, að í bæjum þessum alment var mönnum ekki ætlað að vinna nema 8–9 klukkustundir á dag, og það undir alt öðrum skilyrðum og við betra og hlýrra loftslag en hjer. Síðan jeg var á ferð, fyrir tíu árum, hefir margt breyst til batnaðar erlendis, og verkamenn fengið ýmsar kröfur uppfyltar.

Nú er hjer alls ekki farið fram á að lögfesta vinnutímann, þótt það væri sjálfsagt og eðlilegt, heldur er hjer verið að tryggja það, að menn verði lausir við að vera í raun og veru skyldaðir til að vinna á nóttunni.

Það hafa heyrst ýmsar mótbárur gegn þessu, svo sem að þessi krafa komi í bága við eðlilegan gang framleiðslunnar, en þær mótbárur ætla jeg ekki að hrekja að þessu sinni, nema jeg finni ástæðu til þess og þær verði vaktar upp á ný. En jeg vænti þess, að hv. þdm. skilji, að hjer er svo mikið mannúðar- og menningarmál á ferðinni, að þeir lofi því í fyrsta lagi að ganga til nefndar, svo að það verði rannsakað þar, hvort mótbárur þær, sem fram kunna að verða bornar, hafa við nokkur rök að styðjast.

Jeg verð að geta þess, að jeg hefi hvergi sjeð hafnarverkamenn jafn augsýnilega bera með sjer skort og einkenni ofþjökunar og hjer, bæði við og utan vinnu, og veldur því án efa ástand það og hin ömurlegu lífskjör, sem þeir eiga við að búa.

Það er hart, að þurfa að segja slíkt um sitt eigið land, en hjá því verður ekki komist. — En er þá ekki því meiri ástæða fyrir löggjafarvaldið að athuga, hvort ekki sje hægt að gera meira en gert hefir verið fyrir þessa menn.

Vil jeg svo að lokum óska þess, að málinu verði vísað til 2. umr. og allshn.