16.02.1928
Neðri deild: 24. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 296 í C-deild Alþingistíðinda. (1646)

87. mál, bann á næturvinnu

Ólafur Thors:

Þetta frv. lá fyrir hv. deild í fyrra, og var þá felt við 1. umr. Jeg get gert ráð fyrir, að mönnum hafi ekki snúist hugur síðan, en þó ætla jeg að andmæla, með fáum orðum, nokkrum fullyrðingum hv. flm.

Það er algerlega ósannað, að hjer sje um kröfu verkamanna að ræða, og þar að auki fer hv. flm. órjett með, er hann segir, að slíkar kröfur hafi verið samþyktar ár eftir ár, í „Dagsbrún“. Jeg leiði það af því, að þegar jeg deildi við hv. 2. þm. Reykv. og núverandi formann „Dagsbrúnar“, um þetta atriði, bar jeg það fram, að ekki lægi fyrir nein yfirlýsing, er sýndi, að þetta væri vilji verkamanna, og gat formaðurinn ekki sýnt, að svo væri, en sagði, að hægt væri að fá slíka yfirlýsingu hvenær sem væri. Af því leiddi jeg, að ekki væri hægt að styðjast hjer við eldri sögu þessa máls. Jeg skal ekki efa, að hv. 2. þm. Reykv. og hv. 4. þm. Reykv. sje kleift að fá samþ. í „Dagsbrún“, að þetta sje vilji verkamanna, en það er ekki sönnun þess, að það sje vilji þeirra verkamanna, er hlut eiga að máli. Jeg er alveg sannfærður um, að ef verkamenn þeir, er vinna næturvinnu, væru spurðir, hvort þeir óskuðu þess, að næturvinna væri bönnuð, að meiri hluti þeirra. mundi vera á móti því. .(HG: Sú sannfæring er ekki mikils virði!) Jeg skal sanna, með yfirlýsingu 100 verkamanna, er næturvinnu stunda, að þetta er rjett. Ef hv. þm. Ísaf. getur fengið fleiri til síns fylgis, skal jeg beygja mig, en fyr ekki.

Það er alveg rjett, að ef menn vinna bæði dag og nótt, er sú vinna mjög lýjandi. En hverjum verkamanni er það í sjálfsvald sett, hve lengi hann vinnur, vegna þess, að það eru frekar fleiri en færri, sem sækjast eftir vinnu. Það er því alveg óþarfi, að vinnuveitandi leggi að nokkrum verkamanni um næturvinnu, ef hann kýs hana ekki sjálfur.

Hjer er líka að ræða um nauðsynjamál fyrir útveginn. Því er svo farið, að á vertíðinni er aðalafli togaranna veiddur á Selvogsbanka að næturlagi. Er þá reynt að haga því þannig til, að togararnir komi inn kl. 2–4 eða 6 á eftirmiðdögunum, og ef þeir eru afgreiddir strax, tapa þeir ekki einni nóttu frá veiðum. En ef banna á næturvinnu frá kl. 10–6, hljóta togararnir að missa tvær nætur. Þetta er svo mikið hagsmunamál fyrir útgerðina, að jeg álit, að ekki eigi að lögfesta þetta bann, nema því aðeins, að hjer sje um að ræða brýna þörf til þess að vernda heilsu manna, eða það sje gert fyrir heita ósk þeirra manna, er hlut eiga að máli. En jeg hygg, að það sje alveg rangt, að menn hafi ofboðið kröftum sínum við næturvinnu.

Hitt er rjett, að hjer í Reykjavík sjer maður oft verkamenn híma kuldalega niður við höfnina, til þess að fá vinnu, og er það ekki skemtileg sjón. Hefir verið reynt að bæta úr því að nokkru, með því að byggja verkamannaskýlið. En þetta er önnur hlið á málinu, og það, sem hjer er til umræðu, mundi ekki bæta úr því. Að það eigi við rök að styðjast, að hjer sje um mikið hagsmunamál útgerðarinnar að ræða, sjest best á því, að útgerðarmenn vilja heldur kaupa næturvinnu, þegar svo stendur á, þótt hún sje helmingi dýrari en dagvinna. Þeir mundu að sjálfsögðu ekki gera sjer það til ánægju.

Það er ástæðulaust að fjölyrða um það, hvernig þetta er með erlendum þjóðum, þar sem hafnarverkamenn afgreiða aðeins flutningaskip, því að hjer er um að ræða aflafeng á hávertíð.

Það er óneitanlega dálítið broslegt, þegar hv. flm. er að tala um, að hafnarverkamenn hafi miklu skemtilegri aðstöðu erlendis, svo sem betra loftslag o. fl. Jeg hefi komið í marga hafnarbæi erlendis, og jeg verð að segja það, að jeg vildi heldur vinna hvar sem er á þessu landi, en í þeim ódaun, sem í þeim ríkir. Þá sagðist hv. flm. hvergi hafa sjeð jafnilla útlítandi verkamenn og hjer, við og utan vinnu. Þetta er óverðskuldaður dómur, og ósæmilegur, um hina íslensku verkamenn. Jeg hefi líka sjeð erlenda verkamenn, og jeg verð að segja, að íslensku verkamennirnir eru þeim með öllu ólíkir, svo miklu mennilegri eru íslensku verkamennirnir.

Þetta mál var, eins og kunnugt er, felt frá 2. umr. í fyrra, með allflestum atkv. Jeg mun ekki gera það að till. minni, að það verði felt frá nefnd í þetta skifti, en jeg þykist þess fullviss, að frv. nái ekki fram að ganga.