16.02.1928
Neðri deild: 24. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í C-deild Alþingistíðinda. (1648)

87. mál, bann á næturvinnu

Jón Ólafsson:

Þetta mál er ekki stórmál, og hvorki nauðsynjamál nje menningarmál, og því ekki ástæða til að hafa langar umr. um það.

Eins og allir vita, og einnig flm., er þessi vinna ekki int af hendi, nema þegar sjerstök nauðsyn er á, eða eins og hv. 2. þm. G.-K. sagði, að því aðeins er nokkur vinna framkvæmd eftir kl. 10, að á þann hátt fæst miklu meiri afli á land en annars. Þetta á sjer þó ekki stað, svo að neinu nemi, nema í einum mánuði ársins, aprílmánuði. Engum vinnuveitanda mundi detta í hug að láta vinna svo dýra vinnu, nema full nauðsyn væri á því.

Jeg vil víkja lítið eitt að dæmi því, er hv. flm. tók, um togara, er sigldi austan af Selvogsbanka til Reykjavíkur, til afgreiðslu þar. Hann gerði ráð fyrir, að togarinn legði af stað kl. 5 árd. Nú er sannleikurinn sá, að skipin leggja ekki af stað fyr en kl. 9–10–11 árd., að austan, og koma því ekki fyr en kl. 5 síðd. til Reykjavíkur. Nú er ekki hægt að afgreiða skip á minna en 8–10 tímum, og afleiðingin yrði því sú, ef þetta frv. næði fram að ganga, að skipið yrði að bíða yfir nóttina, án þess að lokið sje við að afferma það. Því er verið að halda í næturvinnu þennan eina mánuð, og fyrir mitt leyti stæði mjer á sama um alla aðra tíma ársins, hvað þetta snertir.

Hv. flm. talaði um, að kjör verkamanna væru ekki eins og þau ættu að vera. Jeg er honum samdóma um það, og álit, að allir ættu að reyna að bæta þau af fremsta megni. En sú viðbót fylgdi, að það væri atvinnurekendum að kenna, af því að þeir útveguðu ekki næga vinnu. Þetta er vitanlega ekki annað en ósanngjörn fullyrðing út í loftið. Enginn atvinnurekandi getur haft við hinu sívaxandi aðstreymi til bæjanna, sem hv. flm. og flokkur hans á áreiðanlega sinn mikla þátt í.

Jeg veit, að hv. deild muni geta fallist á, að frv. þetta sje ósanngjarnt og óþarft. Annars sje jeg ekki ástæðu til að orðlengja meira um það, því að það er hvort sem er ekki nema einn af þeim títuprjónum, sem verið er að pota í togaraútgerðina, svo sem oft má heyra og sjá.