10.03.1928
Neðri deild: 44. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 793 í B-deild Alþingistíðinda. (165)

1. mál, fjárlög 1929

Pjetur Ottesen:

Jeg á hjer enga brtt., sem jeg þarf að mæla fyrir, en þótt fátt sje af mönnum hjer nú í deildinni, þá sje jeg þó a. m. k. þann hv. þm., sem jeg vildi víkja nokkrum orðum að, en það er hv. frsm. samgmn. (JAJ). Þessi nefnd hefir nú skilað áliti sínu um meðferðina á því fje, sem veitt er til samgangna á sjó eða til flóaferða. Eftir till. nefndarinnar á styrkurinn til þessara ferða að lækka nokkuð á sumum stöðum. Mjer skildist á hv. frsm., að þessi lækkun stafaði af því, að útgerðarkostnaður hefði yfirleitt lækkað. En mjer er ráðgáta, hvernig hann fer að samræma þessar till. samgmn. þessari ástæðu, þar sem styrkurinn hefir ekki verið lækkaður nema sumstaðar. Jeg býst við, að lækkun útgerðarkostnaðarins komi jafnt niður á öllum, og fæ því ekki sjeð annað en að þessar röksemdir eigi annaðhvort alstaðar við eða þá hvergi. Að vísu vil jeg ekki fortaka, að einhver önnur rök kunni að liggja fyrir þessu, en hv. frsm. gat ekki um þau.

Þegar talað er um lækkun á útgerðarkostnaði báta, þá þarf líka að taka tillit til flutningsþarfarinnar á hverjum stað. Sumir þessir styrkir hafa verið hækkaðir áður, til þess að fjölga ferðunum. Og eftir því, sem styrkurinn er ríflegri, eftir því eiga ferðirnar að geta orðið fleiri. Og þegar útgerðarkostnaðurinn lækkar, þá ættu bátarnir að fullnægja betur flutningaþörfinni, og er þess víðast full þörf. Jeg sje t. d. ekki, hvaða ástæða er til þess að láta styrkinn til Lagarfljótsbátsins standa óbreyttan, en lækka við Hvalfjarðarbátinn, Flateyjarbátinn og Djúpbátinn. Aftur eru Rauðasandsbáturinn og Mýrabáturinn látnir halda óskertum styrk. Þetta sýnist því vera handahófsverk hjá nefndinni, að grípa niður hjer og þar og lækka þessa styrki um 100–200 kr. eða meira á sumum, en láta aðra halda óskertum styrk. Felli jeg mig illa við það.

Til Borgarnesbátsins hefir styrkurinn verið lækkaður um 3500 kr. Jeg get búist við, að af því leiði óhagstæðari samgöngur fyrir Borgfirðinga og einnig fyrir Breiðfirðinga, sem þessi bátur (Suðurlandið) hefir einnig flutt fyrir. Líkt má segja um Djúpbátinn, sem ferðast einnig um Vestur-Ísafjarðarsýslu, nema sá styrkur hafi verið of hár áður. Þessar aths. vildi jeg gera við till. samgmn. og vildi gjarnan fá skýringar hennar á því, hvernig hún fer að samræma till. sínar við lækkandi útgerðarkostnað, þar sem lækkunin samkv. till. hennar kemur ekki niður á nema fáum bátum.

Þá vill nefndin, að atvinnumálaráðuneytið gangi ríkt eftir því, að skýrslur sjeu lagðar fram um starfsemi þessara báta. Jeg get sagt það um Hvalfjarðarbátinn, að hann hefir int full lögskil af höndum í þessu efni. Jeg tel sjálfsagt, að þessari reglu sje fylgt, og styrkurinn þá feldur niður, ef ekki koma skýrslur, reikningar og áætlanir í tæka tíð. Það er sjálfsagt að fylgjast vel með í þessu, og jeg tel það skyldu hins opinbera að gera það.

Þá vil jeg lítilsháttar minnast á eina brtt. á þskj. 435, XVI. lið. Jeg ætla að vísu ekki að leggjast svo mjög á móti þeirri till. Hún er um það að veita 4 þús. kr. styrk til að reisa gistihús á Ásólfsstöðum. Auk þess er farið fram á að fá 10 þús. kr. lán í sama skyni. Mjer skildist, að ekki væru færð fram rök fyrir þessu önnur en þau, að hjer væri um gististað handa skemtiferðafólki á sumrin að ræða. En víða hagar svo til hjer á landi, að erfitt er að taka á móti fólki á fjallabæjum, er liggja við heiðavegi. Með styrk af opinberu fje hefir nokkuð verið gert til að bæta úr þessari þörf, en þó á örfáum stöðum. Í Borgarfirði er um einn þann stað að ræða, er svona stendur á. Það er efsti bærinn í Lundarreykjadal, sem liggur við Uxahryggjaveg, sem er mjög örðugur, en allfjölfarinn fjallvegur. Verða menn oft fyrir hrakningi á þeirri leið, og getur þá stundum riðið á lífi manna, að hægt sje að veita þeim góðar viðtökur, er þeir koma þannig hraktir af fjallinu. Það er ástæða til að styrkja þá bændur, sem þannig eru settir, til að hafa sæmilega aðstöðu til að taka vel á móti slíkum langferðamönnum. En mjer finst það horfa nokkuð öðruvísi við, að leggja fram fje úr ríkissjóði til að byggja yfir það fólk, sem aðeins ferðast sjer til skemtunar þegar best og blíðast er. Og mjer finst, að þetta fólk, sem venjulega ferðast í stórhópum, hafi góða aðstöðu til þess að hafa með sjer tjöld og annan aðbúnað, og þurfi ekki að setjast upp á bæi, sem eiga erfitt með að veita gistingu. Jeg held því, að þeir staðir, þar sem illa er hýst við erfiða fjallvegi, eigi að ganga fyrir um stuðning í þessu skyni af hálfu hins opinbera. — Mjer var falið að leita styrks til byggingar á einu slíku býli, en þar sem jeg fjekk engar undirtektir um það í fjvn., taldi jeg tilgangslaust að bera það fram. En verði þetta samþykt, tel jeg víst, að jeg muni bera fram brtt. um það, er fjárlögin koma hingað aftur til einnar umr. Mjer finst það leiða af sjálfu sjer, ef bæði er veittur styrkur og lán til að byggja yfir skemtiferðamenn, þá muni einnig samþ. styrkur til að byggja upp á bæjum, þar sem riðið getur á lífi manna um viðtökurnar. — Jeg mun svo ekki minnast á fleiri till. og má því stöðva umr. mín vegna. (ÓTh: En ekki mín vegna!). En jeg vildi þó gjarnan fá áður upplýsingar hjá hv. frsm. samgmn. um samræmið milli styrksins til flóabátanna.