16.02.1928
Neðri deild: 24. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 305 í C-deild Alþingistíðinda. (1650)

87. mál, bann á næturvinnu

Lárus Helgason:

Mjer þykir einkennilegt, að ekki er farið fram á í frv. að banna næturvinnu annarsstaðar en í Reykjavík og Hafnarfirði. Ef næturvinna er óholl og óheppileg á þessum stöðum, hlýtur hún að vera það annarsstaðar líka. Annars held jeg, að það væri ekkert heillaspor, að banna þessa vinnu. Það er gamall málsháttur, að grípa skuli gæs meðan gefst, og hvergi á það betur heitna en um sjávarútveginn, þar á meðal fermingu og afferming skipa. Óhugsandi er, að atvinnurekendur væru að leika sjer að því að borga svo miklu hærra kaupgjald fyrir þessa vinnu en annars gerist, ef hjer væri ekki um nauðsyn og ótvíræðan ávinning að ræða. Jeg hefi heyrt margan verkamanninn tala um það, hve mikið hann hafi haft upp úr þessari og þessari vikunni, einmitt vegna næturvinnunnar. Jeg býst við, að frv. þetta sje alls ekkert nauðsynjamál. Yfir höfuð býst jeg við, að þetta frv. sje alls ekki hyggilegt; að mínu áliti væri það þvert á móti ósanngjarnt, að það næði fram að ganga. Eins og jeg benti á, þá getur ekki átt sjer stað, að sjerstök þörf sje að banna næturvinnu aðeins í Hafnarfirði og Reykjavík.