21.02.1928
Neðri deild: 28. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í C-deild Alþingistíðinda. (1656)

89. mál, einkasala á saltfisk

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

þetta frv., sem hjer liggur fyrir, hefir oft áður verið flutt í þessari hv. deild. En jeg held jeg muni það rjett, að það hefir aldrei átt því fylgi að fagna, að hafa komist til nefndar.

Okkur flm. þótti þó rjett að taka nú málið upp að nýju, í fyrsta lagi af því, að eftir síðustu kosningar hefir skipun þingsins breyst mikið frá því sem áður var, í öðru lagi vegna þess, að mönnum er að verða það ljósara og ljósara, að full þörf muni á að koma betra og hagkvæmara skipulagi á þessi mál, þ. e. útflutning og sölu sjávarafurða okkar, eins og sjest á þeim ráðstöfunum, sem komið hafa til mála um bætt skipulag á síldarsölunni og frv. þeim, er liggja fyrir þinginu þar að lútandi.

Jeg vil þá fyrst aðallega víkja máli mínu að því, hvort ástæða sje til fyrir hv. deild að láta sig nokkru skifta þetta mál: einkasölu á saltfiski.

Hlýtur þá sú spurning að vakna, hvort hjer sje um svo stóran þátt að ræða í atvinnulífi þjóðarinnar, að hið opinbera, eða ríkið, eigi að skifta sjer af því, og í öðru lagi, hvort nokkur von sje um, að takast megi að lagfæra eitthvað sölufyrirkomulagið, svo að meiri hagnaðar megi vænta af þessum atvinnurekstri en verið hefir.

Jeg er þeirrar skoðunar, að hvorutveggja þessu megi svara játandi. Hjer er áreiðanlega um svo stóran þátt í viðskiftalífi og búskap þjóðarinnar í heild að ræða, að ríkinu ber skylda til að skerast í leikinn og reyna á einhvern hátt að bæta úr þeim ólestri, sem verið hefir á útflutningi og sölu þessarar aðalútflutningsvöru okkar.

Sumir álíta þó, ef til vill, að hjer sje um einkamál útgerðarmanna og fiskikaupmanna að ræða, og af því að frv. sje ekki komið frá þeim, þá sje sjálfsagt að verða á móti því.

Jeg skal taka það fram strax, að þetta frv. er af alt öðrum toga spunnið en t. d. frv. um einkasölu á tóbaki, sem borið er fram af einum okkar jafnaðarmanna. Það frv. er fram borið til þess að afla ríkissjóði tekna. Hjer er heldur ekki um þá almennu þjóðnýtingu atvinnufyrirtækjanna að ræða, sem við jafnaðarmenn höfum á stefnuskrá okkar. Með frv. þessu er eingöngu verið að gera tilraun til að bæta úr því ólagi, sem verið hefir og enn á sjer stað um sölu þessarar aðalframleiðsluvöru þjóðarinnar.

Jeg ætla þá í áframhaldi af því, sem áður er sagt, að víkja að því, hvort hjer sje um svo stórt mál að ræða fyrir þjóðina í heild, að því opinbera beri að hafa bein afskifti af því.

Jeg hefi aflað mjer upplýsinga um saltfisksútflutning okkar á árunum 1924–1927, og hverju hann nemur, samanborið við annan útflutning. Tölurnar yfir árin 192–1925 eru teknar úr hagskýrslunum; en um síðari árin, 1926–1927, hefi jeg fengið upplýsingar hjá hagstofunni, eftir skýrslum gengisnefndar. Geta þær tölur breyst að einhverju leyti, en þá áreiðanlega til hækkunar.

Þessi skýrsla mín og samanburður lítur þá þannig út:

Árið 1924 var útflutningur alls kr. 86 milj., þar af saltfiskur 61,1%,

sem skiftist þannig:

Fullverkaður _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _

kg. 42,136,000

kr. 43,069,000

Óverkaður _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _

— 15,943,000

- 9,449,000 52,518,000

Árið 1925 nam útflutningur alls kr. 78,5 milj., þar af saltfiskur 62,5%,

sem skiftist þannig:

Fullverkaður _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _

kg. 39,340,000

kr. 39,521,000

Óverkaður _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _

— 19,932,000

— 9,609,000 49,130,000

Árið 1926 nam útflutningur alls kr. 47,9 milj., þar af saltfiskur 57%,

sem skiftist þannig:

Fullverkaður _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _

kg. 43,517,000

kr. 24,828,000

Óverkaður _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ __ _ _ _ _ _ _

— 7,323,000

— 2,334,000 27,162,000

Árið 1927 er útflutningur talinn alls kr. 57,4 milj., þar af saltf. 54,5%,

sem skiftist þannig:

Fullverkaður _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _

kg. 49,397,000

kr. 26,546,000

Óverkaður _ _ _ _ _ _ _ _ __

— 16,450,000

— 4,735,000 31,281,000

Allur útflutningur þessara fjögra ára hefir þá verið kr. 269,9 miljónir, þar af saltfiskur kr. 160,1 miljónir, en það svarar til 60% að meðaltali á ári af öllum útflutningi landsins þessi fjögur ár.

Sje nú tekinn til samanburðar útflutningur saltfiskjar á árunum 1913–1919, þá sjest, að hann er að meðaltali á ári 23,363,000 kg. Þó er vert að geta þess, að á þessum árum, 1913– 1919, er það aðeins 1/3 af fiskinum, sem fer til Spánar og er seldur þar, en 2/3 fara til annara landa. Á síðari árum hafa þó þessi hlutföll breyst, eftir því sem mjer er sagt, þannig, að nú fer hlutfallslega meira til Spánar. — Þá er enn ótalinn karfi, sem fluttur var út saltaður á árunum 1926–27. Voru það 595 tunnur, og mun það hafa numið um 11,000 krónum, sem þær seldust fyrir.

Jeg ætla nú, að um það verði ekki deilt, að hjer sje um svo stóran þátt að ræða í viðskiftalífi Íslendinga, að Alþingi geti ekki látið málið afskiftalaust, nema þá því aðeins, að skipulag það, sem nú er á saltfiskssölunni, sje álitið svo gott, að því verði ekki breytt til batnaðar. Nú er vitanlegt, að þetta hefir verið dregið mjög í efa, og það ekki að ástæðulausu. Þess vegna furðar mig það stórum, satt að segja, að þetta mál skuli hafa verið flutt hjer í hv. deild ár eftir ár, án þess að hv. deild sæi nokkra ástæðu til að sinna því eða íhuga, hvaða ráðstafanir mundu best henta í þessu efni. Því verður þó ekki með rökum neitað, að þetta er mál, sem alla alþjóð varðar. Lífsafkoma sjómanna og verkamanna beinlínis, og allra annara landsmanna óbeinlínis, er undir því komin, að þessi stóri þáttur afurðasölu þjóðarinnar fari vel úr hendi. Verslunarjöfnuðurinn við útlönd er að miklu leyti undir því kominn, og þar með myntgengi okkar, og eins það, hverra viðskiftakjara við verðum aðnjótandi hjá útlendingum.

Jeg býst nú ekki við, að margir verði til að andmæla því, að ríkinu beri að láta sig þetta mál nokkuru varða, ef von er um, að á þann hátt megi takast að gera þessa útflutningsvöru verðmeiri og útgerðina þar með arðsamari. Hitt kann vel að vera, að menn greini á um það, hvernig þetta verði best lagfært frá því sem nú er, og að sumir jafnvel álíti, að því skipulagi, sem nú er, verði alls ekki breytt til bóta. En það er misskilningur. Það er ómótmælanlegt, að saltfiskssölunni er ákaflega ábótavant, og að það er óverjandi að reyna ekki að bæta úr ólaginu. Jeg hefi fyrir mjer ummæli og skjalfesta gagnrýning hinna fróðustu manna í þessu efni. Við höfum um langt skeið kostað erindreka suður á Spáni, sem látið hefir öðru hvoru til sín heyra í blöðunum, t. d. í „Ægi“ og „Morgunblaðinu“, þar sem hann hefir birt skarpar ádeilugreinar um það skipulagsleysi, sem ræður hjá okkur í saltfisksversluninni. Í grein, sem hann ritaði í „Morgunblaðið“ síðastliðið sumar, benti hann á, að hið lága verð á útfluttum saltfiski síðasta ár hefði stafað af því að miklu leyti, hvað fyrsta sala á árinu var lág, alveg óeðlilega lág, að hans dómi. En fyrsta sala ársins hefir jafnan mikil áhrif á það, hvaða verð er boðið langt fram eftir árinu.

Jeg minnist þess líka, að erindrekinn benti á ýmislegt fleira um skipulagsleysi saltfisksverslunarinnar, t. d. að í sumum bæjum á Spáni væri alveg óhæfilega miklar birgðir af saltfiski, á sama tíma sem aðrir bæir þar hefðu engan fisk á boðstólum. En þetta út af fyrir sig hlýtur að hafa áhrif á verðið og halda því niðri.

Þá er það oft og einatt, að fiskurinn er afhentur í umboðssölu, og stundum kemur það jafnvel fyrir, að norskir fiskikaupmenn hafa haft íslenskan fisk í umboðssölu. Auðvitað selja þeir fyrst sinn eigin fisk, en láta umboðssölufiskinn sitja á hakanum. Hann hefir líka bent á, að reglubundnar ferðir vanti til Miðjarðarhafslandanna, svo að útflutningurinn gæti verið í samræmi við eftirspurnina. Auk þess fellur mikill kostnaður á þann fisk, sem ekki er hægt að selja strax, af því að geymslan þar syðra er mun dýrari en hjer heima. Neytendur vita það fullvel, að fiskur, sem kominn er til Spánar, verður ekki fluttur þaðan aftur, og að hann þolir ekki ótakmarkaða geymslu. Því láta þeir sjer ekki óðslega að bjóða í fiskinn, meðan margfaldar birgðir eru í landinu við það sem þörfin krefur. En slíkt hlýtur þráfaldlega að koma fyrir, meðan samgöngurnar eru ekki bættar.

Þá ætla jeg, að jeg muni það rjett, að hann hafi bent á, að eftirlit með útflutningi fisksins sje ekki nógu strangt, og ósamræmi í matinu. Í sumum landshlutum heimta matsmenn fiskinn miklum mun harðþurkaðri en í öðrum, og ganga jafnvel lengra í þessu en Spánverjar sjálfir óska. Sje þetta rjett, er það tvöfalt tap; fiskurinn ljéttist svo, að miklu meira fer í skpd., og verkunin verður langtum dýrari en þyrfti. Aftur mun það brenna við í öðrum landshlutum, að fiskurinn er ekki nægilega hertur, og þolir því ekki geymslu og skemmist, ef hann ekki selst strax og til Spánar kemur.

Loks benti erindrekinn á, að það væri ískyggilegt, hvað margir erlendir fiskikaupmenn eru sestir að hjer í landi, og að ef þeim fjölgi enn, sje líklegt, að þeir sölsi undir sig mestan hluta saltfisksverslunarinnar. En þá eru rofin sambönd þau, sem íslenskir útflytjendur hafa nú í markaðslöndunum, og getur orðið erfitt að ná þeim aftur í skjótri svipan, ef svo skyldi fara, að þessir útlendu kaupmenn vildu nota sjer aðstöðuna til að skamtaverðið, sem ekki getur talist ósennilegt.

Það er mýmargt annað, sem erindrekinn hefir bent á, að í ólagi sje um saltfisksverslun okkar, en þetta, sem jeg hefi nú drepið á, læt jeg nægja í bili.

Annan mann hefir stjórnin sent til Suður-Ameríku og Eystrasaltslandanna, til þess að leita að nýjum markaði. Sá maður er Pjetur A. Ólafsson. En jeg veit ekki til, að ferðir hans hafi enn sem komið er borið nokkurn sýnilega árangur. Hann bendi þó á í fyrra, að líklegt væri, að hægt mundi að selja eitthvað af saltfiski í Suður-Ameríku við hærra verði en Spánverjar þá gáfu fyrir hann. Gunnar Egilson vildi ekki viðurkenna, að útreikningar P. Ó. væri rjettir, en fjöldi manna var þó og er enn þeirrar skoðunar. Jeg er ekki svo kunnugur þessum málavöxtum, að jeg treysti mjer til að gera þar upp á milli. En hitt liggur í augum uppi, að þegar salan bregst á Spáni, þá verður að leita fyrir sjer annarsstaðar, og þykir mjer þá ekki ósennilegt, að Suður-Ameríka verði þrautalendingin. Ríður því á að byrja sem fyrst að gera tilraunir með innflutning þangað og reyna að ná þar föstum samböndum.

Það er í sjálfu sjer eðlilegt, að einstakir fiskiútflytjendur treysti sjer ekki til að ráðast í svo kostnaðarsamar tilraunir sem útvegun nýrra markaða jafnan hlýtur að verða. Því meiri fiski sem menn hafa ráð á í einu lagi, því ljettara verður um að bera kostnaðinn, sem af nýjum markaðsleitum leiðir. En í byrjun má altaf gera ráð, fyrir, að tap verði á slíkum tilraunum.

Jeg býst líka við, að allir muni sannfærast um það, við nánari athugun málsins, að tæplega sje hægt að hugsa sjer verra fyrirkomulag um saltfiskssöluna en taumlausa samkeppni. Dáendur og postular svonefndar frjálsrar samkeppni telja það einmitt höfuðkost hennar, að hún lækki vöruverðið. Þó að margir telji samkeppni um sölu innfluttrar vöru, sem landsmenn þurfa að kaupa, almenningi til hagsbóta, þá hljóta allir að játa, að samkeppni íslenskra útflytjenda um sölu á fiskinum hlýtur altaf að verða þjóðinni til stórtjóns; hlýtur að verða til þess að lækka verð þessarar vöru, að dómi samkeppnismanna sjálfra. Með núverandi skiplagi óbreyttu eru fiskútflytjendur beinlínis neyddir til þess að keppa hver við annan um söluna, sjálfum sjer og þjóðinni til stórtjóns. Flestir þeirra verða að taka lán, til þess að ná í fiskinn, hvort sem þeir láta veiða hann og verka eða kaupa hann af öðrum. Þegar lánardrotnarnir krefjast greiðslunnar, er fiskurinn oft og einatt óseldur, og getur staðið svo á, að markaðurinn sje sjerlega óhagstæður, þá í svipinn. Kaupmaðurinn verður samt að selja fiskinn, hvað sem fyrir hann fæst, og grípur þá jafnvel oft til þess að bjóða verðið niður.

Annað, sem ber vitni um það mikla ólag, sem nú er á fyrirkomulagi fisksölunnar, er viðleitni útgerðarmanna og fiskútflytjenda sjálfra, til þess að breyta því. Þeir hafa nokkrum sinnum reynt að gera samtök með sjer um söluna. Er þá fyrst að minnast fiskhringsins fræga, sem kendur hefir verið við Copland. Sá fjelagsskapur lánaðist ekki betur en svo, að fjölmargar miljónir króna töpuðust og hringurinn rofnaði. Hringurinn var stofnaður af tiltölulega fáum mönnum, sem ætluðu sjer að stórgræða á fisksölunni, og fullvíst má telja, að einmitt gróðalöngun þeirra hafi að miklu leyti valdið því, að salan mistókst og 3 miljónir týndust. Tapið lenti að langmestu leyti á bönkunum, sem síðan hafa jafnað því niður á landsmenn alla; fer svo venjulega um slík töp. Árið 1926 gekk aftur erfiðlega með sölu á fiski. Þá stofnuðu nokkrir stærri útflytjendur — aðallega togaraeigendur — samlag um sölu á óseldum stórfiski, ca. 36–40 þús. skpd. En Spánverjar kæra sig ekkert um að hlúa að sölusamtökum hjer. Þeir keyptu ekkert af samlaginu, fyr en allir aðrir voru búnir að selja. Samlagið varð því að liggja með allan sinn fisk, þar til annar fiskur var uppseldur, og beið auðvitað af því allmikið tjón. Þetta dæmi sýnir ljóslega veilurnar í svona smásamtökum. Á meðan eitthvað af fiski er utan við samtökin, er hann tekinn fyrst. Alt öðru máli hefði verið að gegna, ef samlagið hefði ráðið yfir öllum útfluttum fiski. En þessar tilraunir eru viðurkenning á ókostum hennar og illu skipulagi. En þessháttar tilraunir, sem bygðar eru á röngum grundvelli eða eru gerðar í svo smáum stíl, að þær verða kák eitt, hljóta að misheppnast, — munu ávalt misheppnast.

Jeg hefi reynt að gera mjer hugmynd um þær sveiflur, sem urðu á fiskverðinu árin 1924–27, þ. e. a. s. muninn á hæsta verði og lægsta, sem framleiðendur hjer fengu fyrir hvert skippund fiskjar. 1924 er verðsveiflan 30 kr. 1925 er sjerstakt ár hvað verslun snertir, vegna hinnar miklu hækkunar á krónunni, sem varð á því ári. Sveiflan verður þá líka 55–65 kr. 1926 er hún aftur nokkru minni, 30–35 kr., og 1927 20–30 kr. Þetta eru ákaflega stórkostlegar sveiflur. Jeg hefi að vísu eigi getað kynt mjer til hlítar verðbreytingarnar í markaðslöndunum þessi ár, en jeg ætla þó, að mjer sje óhætt að fullyrða, að svo stórfeldar sveiflur hafi eigi átt sjer stað þar, að minsta kosti ekki á verðinu til neytenda, þótt innkaupsverð stórkaupmanna þar auðvitað hafi verið allbreytilegt.

Jeg hefi nú að nokkru drepið á ummæli erindrekanna erlendis um fisksöluna, og sömuleiðis þá viðurkenningu á göllum hennar, sem komið hefir frá útflytjendum sjálfum í verki. Nú vil jeg bæta við ummælum úr þeirra hóp.

Í þingtíðindunum 1924 eru ummæli þáv. 1. þm. G.-K., Ágústs Flygenrings, sem mun vera kunnugastur allra núlifandi manna þessum málum. Þessi þm. talaði um Coplands-hringinn, og viðurkennir, að fyrirkomulagi saltfiskssölunnar sje stórlega ábótavant. Hann segist telja samvinnu um útflutning og sölu fiskjar æskilega. Hann ber ekki á móti því, að tjón hafi orðið af völdum Coplands-hringsins, og að hann hafi orðið okkur til stórtjóns. En hann afsakar þetta með því, að það hafi ekki verið gert viljandi. Um markaðsleitina segir þm., að af henni hafi orðið lítill árangur, en bætir svo við: „Lít jeg svo á, að fyrst um sinn muni okkur nægja sá markaður, sem við höfum á Spáni og Ítalíu.“ Jeg held, að allir sjeu nú farnir að sjá, að þetta er rangt, og að markaðurinn á Spáni og Ítalíu sje að verða of þröngur fyrir Íslendinga. Ennfremur verð jeg að álíta, að útflytjendur sjeu þess eigi megnugir, að leggja í kostnað við markaðsleit í nægilega stórum stíl. Sumpart skirrast þeir líka við því, af því að þeir hafa sömu skoðanir og Ágúst Flygenring, að Ítalía og Spánn nægi fyrst um sinn.

Næst segir þingmaðurinn (Á. F.), að þegar markaðinn þrjóti á Spáni, munum við verða að leita til Suður-Ameríku. Hann kemst svo að orði: „Býst jeg við, að þegar markaður Spánverja verður okkur ónógur, þá höfum við ekki annað að flýja en til Suður-Ameríku. En það kostar bæði fje og fyrirhöfn, að tryggja sjer slíkan markað.“

Þá talar hann um, hvernig aðrar þjóðir vinni að því, að opna og auka markaðinn þar, og segir, að þeir hafi ekki einungis konsúla og verslunarerindreka í helstu borgum í SuðurAmeríku, „heldur hefir líka hvert verslunarfjelag sinn prívat-erindreka, og alt, sem með þarf, til að greiða fyrir fiskversluninni. Þetta geta stórþjóðirnar, en við getum það ekki, af því að þessi rekstur er í svo smáum stíl hjá okkur.“

Jeg ætla, að reynslan hafi sannað þessi ummæli. Sumir útgerðarmenn hafa reynt að afla sjer nýs markaðar, en af lítilli getu og með litlum árangri. Kostnaðurinn verður einstökum útflytjendum ofviða. Alt öðru máli væri að gegna, ef fiskurinn væri á einni hendi. Í svo mikilli veltu, sem þá yrði, mundi litlu muna, þó að einhver töp yrðu á markaðsleit. Og þó að einkasalan sendi eitthvað lítilsháttar til staða, þar sem salan væri óviss, og lægi með það um lengri eða skemri *** tíma, mundi það engin áhrif hafa, svo teljandi sje, á jafnaðarverðið fyrir alt það fiskimagn, sem hún hefði til umráða.

Jeg býst við, að sumir muni segja, að það sje að vísu rjett, að samvinna og samtök um söluna sjeu góð og gagnleg, en þau eigi að vera milli útgerðarmanna og fiskútflytjenda sjálfra eingöngu, en ríkið eigi ekki að hafa afskifti af þeim, þ. e. aðstandendur fisksölunnar eigi sjálfir að takmarka samkeppnina. Jeg skal játa, að ef slíkt allsherjarsamband útflytjenda kæmist á, mætti vænta nokkurnveginn sama fjárhagslegs árangurs fyrir þá og af einkasölu. En jeg held, að það sje alt of mikil bjartsýni á lundarfar og lífsskoðun þeirra manna, sem nú ráða sölunni, að treysta þeim til þess að mynda slík samtök. Þetta segir líka sá fyrv. þingm. (Á. F.), sem jeg hefi áður vitnað í. Honum farast svo orð:

„Jeg skal hinsvegar endurtaka það, að það væri æskilegt, að við hefðum víðtækari sambönd og betri samtök um söluna. Jeg skal taka það fram, að með því á jeg ekki við samtök til okurs, eins og háttv. flm. talaði um, heldur samtök til þess að reyna að draga úr áhættunni. En það er ekki hægt að mynda slík samtök, nema þau sjeu bygð á vilja meiri hluta þeirra manna, sem stunda þennan rekstur. Má og geta þess, að tilraun meðal útgerðarmanna og fiskútflytjenda um að hafa samvinnu í verslun, með sjerstakri nefnd, sem skipuð yrði úr þeirra hóp, strandaði á því, að meiri hluti þeirra áleit slíkt fyrirkomulag vera of mjög haft á umráðarjetti einstaklingsins. Fyrir mitt leyti var jeg þessu mjög fylgjandi og áleit, að slík nefndarskipun gæti orðið til hagsmuna, eða í öllu falli afstýrt óhöppum í ýmsum tilfellum. En það fjekst nú ekki meiri hluti fyrir þessu, og sýnir þetta best, að menn vilja umfram alt algert frjálsræði í þessum efnum.“

Hann viðurkennir m. ö. o., að fiskútflytjendum hafi komið þessi leið í hug, en eigi viljað fara hana, vegna þess, að það legði höft á frelsi einstaklinganna. Honum finst það hart aðgöngu, að banna þeim að spilla fyrir öðrum með taumlausri samkeppni. Og hann heldur því fram, að fyrst útflytjendur sjeu eigi sjálfir viljugir til þess að leggja á sig höftin, megi ríkið ekki leyfa sjer að gera það.

Á orðum þessa merka manns byggi jeg þá ályktun mína, að útgerðarmenn sjeu hvorki megnugir eða viljugir til þess að stofna samtök um fisksöluna. Og jeg get auk þess sagt það fyrir mig, að jeg held, að slík samtök mundu ekki vera allskostar heppileg. Þar mundi jafnan verða mest litið á hag stærstu útgerðarmanna og útflytjenda annara. En fisksalan er engu síður mál smærri útgerðarmanna, sjómanna og allra þeirra annara, sem viðurværi sitt og fjárhagslega afkomu alla eiga undir því, hversu til tekst um hana. Ekkert annað kemur hjer að notum en allsherjarsamband allra þeirra, sem hagsmuna hafa að gæta. Samtök einstakra gróðamanna og fjelaga eru ónóg, og geta auk þess verið stórhættuleg, því að áhættusöm spákaupmenska er þá ekki útilokuð, sbr. Coplandshringinn.

Það er ekki úr vegi að nefna nú, til samanburðar við fiskinn, aðrar aðalútflutningsvörur okkar. Skal jeg minnast á tvent, kjötið og síldina. Um kjötið er svo háttað, að meiri hluti þess er á einni hendi, hjá Samb. ísl. samvinnufjelaga. Nú á síðustu árum hafa verið gerðar stórfeldari tilraunir til þess að bæta kjötmarkaðinn en þekkjast hjer á nokkru öðru sviði. Þar hefir sambandið haft forgönguna. Ef ekki hefðu verið svo sterk samtök um afurðasölu bænda og fjelagsskapur þeirra ekki svo sterkur og samfeldur, hefðu áreiðanlega ekki orðið svo miklar framkvæmdir og umbætur í þessum efnum. Ríkið hefði alls ekki ráðist í það, að styrkja marga einstaka kjötútflytjendur til markaðsleitar og annara umbóta. Hinar stórfeldu framkvæmdir til aukningar kjötmarkaðinum, kæliskipið og frystihúsin, hefðu átt langt í land, ætla jeg, ef eigi hefði sambandsins notið við.

Um síldarverslunina til þessa má margt segja, en fátt af því er skemtilegt fyrir okkur Íslendinga. Það er raunasaga skipulagsleysis, fjárbralls og heimskulegrar samkeppni. Fyrir þessu þingi liggja 2 frv. um einkasölu á síld, og að auki frv. þess efnis, að ríkið byggi bræðslustöðvar, til þess að bjarga þessum atvinnuvegi úr ógöngum þeim, sem frjáls samkeppni hefir komið honum í. Enginn maður mælir á móti því lengur, að lögbjóða þurfi einhverskonar samtök um síldarsöluna. En nú vil jeg spyrja: Er ekki ástæða til að ætla, að með því að útiloka innbyrðis samkeppni um saltfiskssöluna, megi ráða bót á göllum hennar, þegar það er viðurkent, að vera eina hugsanlega bjargráðið fyrir síldarútgerðina, og jafnframt er sannað og öllum vitanlegt, að með því hefir lánast að skapa nýjan markað fyrir kjötið okkar?

Jeg hefi bent á ummæli erindrekanna erlendis, og orð Á. F., um gallana á sölunni nú. Og reynslan hefir sýnt það áþreifanlega, að fyrirkomulagið er ekki viðunandi, eins og það er nú. Bankarnir hafa undanfarin ár orðið að þola töp, sem nema tugum miljóna. Því miður eru ekki fyrir hendi skýrslur um, hvernig þessi töp hafa til orðið, og á hverjum hefir tapast. Þó ætla jeg, að minstur hluti þeirra hafi til orðið af því, að framleiðslan hafi brugðist beinlínis. Ástæðan mun oftast hin, að salan hafi mistekist. Sem dæmi þess hefi jeg þegar nefnt fiskhringinn, og ótal fleiri dæmi mætti til tína. Það er að vísu erfitt að segja um, hvað tapast hefir á útgerðinni og hvað á sölunni, en það er mín trú, að meiri hluti tapanna stafi af ólagi á sölunni.

Jeg geri ráð fyrir, að til sjeu menn, jafnvel hjer í hv. deild, sem halda því fram í alvöru, að salan sje einkamál þeirra manna, sem fyrir einhverja herrans tilskikkun hafa fengið hana í sínar hendur. En það er fásinna. Ef illa tekst með saltfiskssöluna, kemst hver hjerlendur maður brátt að raun um, að það kemur honum við, að það bitnar á þjóðinni allri. Það kemur fram í hækkuðum vöxtum viðskiftamanna bankanna, lækkuðu kaupi verkamanna og erfiðum lífskjörum allra þeirra, sem afkomu sína eiga undir framleiðslunni, en það eru allir Íslendingar.

Það er viðurkent af öllum, að smábændur og þó einkum smærri útgerðarmenn eigi við þröngan hag að búa.

Hjer á Alþingi er nú sýnd, í orði að minsta kosti, nokkur viðleitni í þá átt að ljetta undir með smærri atvinnurekendum. Jeg á hjer við frv. það um atvinnurekstrarlán, sem komið er fram í hv. Ed. Frv. þetta hefir raunar ýmsa annmarka, en í því sjest þó viðleitni til hjálpar, og viðurkenning á hinu bága ástandi. Segjum, að smáútgerðarmaður fái rekstrarlán. Markaðurinn er óhagstæður, þegar fiskurinn er fullverkaður, og hann vill gjarnan bíða með að selja hann, þar til betra verð er fáanlegt. En fyrirkomulag það, sem frv. gerir ráð fyrir, útilokar það, að hann geti beðið nokkuð að ráði, því að hann á að greiða lánið upp fyrir áramót. En hvað sem þessum göllum líður, má telja frv. beina viðurkenningu þess, að Smáútgerðarmönnum þurfi að rjetta hjálparhönd. En þeim er best hjálpað með því að lögleiða einkasölu á saltfiski. Nú gengur fiskurinn stundum milli þriggja eða fjögurra milliliða, eða jafnvel fleiri, frá því að framleiðandinn lætur hann af hendi og þangað til hann er kominn í hendur neytenda.

Því verður ekki neitað, að mikið höfum við lagt á okkur, Íslendingar, til þess að halda markaðinum á Spáni. Til þess veittum við undanþáguna frá bannlögunum. Jeg skal ekkert um það segja nú, hvort það hafi verið rjettmætt. En hinu vil jeg halda fram, að tryggingin, sem talið var að fengist með Spánarvína-undanþágu fyrir góðum markaði á Spáni, hefir reynst lítils virði. Þegar undanþágan var til umr. á Alþingi, var hún af öllum talin neyðarúrræði og bráðabirgðaráðstöfun, að minsta kosti í orði. Og svo var ráð fyrir gert, að kapp yrði á það lagt, að rýmka markaðinn, svo að hún þyrfti eigi lengi að standa. Um þetta voru allir á einu máli. Og það mun hafa orðið til þess, að Pjetur Ólafsson var sendur til Suður-Ameríku og fastur erindreki skipaður í Miðjarðarhafslöndunum. En sú viðleitni hefir engan sýnilegan árangur borið. A. m. k. erum við eins mikið komnir upp á Spánverja nú og þegar samningurinn var gerður. Framleiðslan hefir aukist, en ekkert verið gert til að að koma henni á nýjan markað. Það er rjett, að bera þetta aðgerðaleysi saman við framkvæmdirnar í kjötmálunum. Er þó ólíku saman að jafna. Kjötið er árstíðarvara og því tiltölulega afar dýrt að byggja íshús og kæliskip, til þess eins, að flytja það út fryst eða kælt örlítinn tíma ársins; af sömu ástæðu er næsta torvelt að útvega fyrir það fastan og stöðugan markað. Frystan fisk er aftur á móti hægt að flytja út árið um kring, og sjá neytendum fyrir þeirri vöru, hvenær sem er á árinu. En með því að selja sem mest af fiskinum frystum, er ljett á saltfisksmarkaðinum. Mjer vitanlega hafa útgerðarmenn engar skipulegar tilraunir gert til að flytja út frystan fisk. Þeir hafa látið sjer nægja að láta togarana fara til Englands með aflann í ís, eftir hverja veiðiför, nokkra mánuði ársins.

Þetta óverjandi aðgerðaleysi stafar ekki einasta af skammsýni útgerðarmanna, heldur líklega miklu fremur af vanmætti þess skipulags, eða skipulagsleysis, sem á þessum málum er.

Nú ætlar erlent gróðafjelag að byggja hjer frystihús fyrir fisk. Væri ekki ákjósanlegra, að Íslendingar sjálfir ættu þetta fyrirtæki?

Við þennan samanburð er auðsætt, að kjötsölunni er nú miklu betur komið en fisksölunni. En orsökin er sú, að öðrumegin er öflug samvinna, en hinumegin taumlaus samkeppni. Samvinna mundi hafa skapað útgerðarmönnum sömu skilyrði og bændum til þess að koma afurðasölu sinni í sæmilegt horf.

Jeg gat um það áðan, að ísl. fiskverslunin hefði verið að nokkru leyti í höndum erlendra fiskkaupmanna. Umráð þeirra yfir fiskversluninni fara vaxandi á síðari árum. En um leið fækka og veikjast þau sambönd, sem Íslendingar sjálfir hafa haft við kaupendurna í markaðslöndunum. Því meira sem kaupmenn á Spáni kaupa hjer, því færri verða þeir Íslendingar, sem hafa bein sambönd við markaðslöndin. Það er alkunnugt, hvernig farið hefir um síldarverslunina. Mestur hluti hennar er nú í höndum útlendra manna. Ef ekkert verður gert til að bæta fyrirkomulag fiskverslunarinnar, er ekki ólíklegt, að eins fari um hana. Það verður minna og minna, sem Íslendingar sjálfir flytja út, en meira og meira, sem fjesterkir útlendingar kaupa hjer á landi. Jeg álít, að af þessu stafi svo mikil hætta, að Alþingi verði þegar í stað að taka í taumana. Annað væri að fljóta sofandi að feigðarósi. Að bíða þess, að fiskverslunin verði í sama öngþveiti og síldarverslunin nú er orðin, er óverjandi í alla staði.

Jeg vænti þess, að hv. deild sje mjer sammála og samþykki frv. Jeg kysi helst, af því að þetta er fjárhagsmál allrar þjóðarinnar, að því yrði vísað til fjhn. en ekki sjútvn., þó að jeg ekki geri það að kappsmáli, hvor nefndin fær það til meðferðar.