21.02.1928
Neðri deild: 28. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 335 í C-deild Alþingistíðinda. (1658)

89. mál, einkasala á saltfisk

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Það vill nú svo undarlega til, að þrátt fyrir hina löngu ræðu hv. 3. þm. Reykv., þá hefi eg þó ekki miklu að svara. Ástæðan til þess er sú, að þessi ræða hv. þm. snerti í raun og veru mjög lítið það frv., sem hjer liggur fyrir, og ekki heldur ræðu mína. Það var þá helst í niðurlagi ræðu sinnar, er hann fór að andmæla skoðun þeirra Gunnars Egilssonar, Pjeturs A. Ólafssonar og Ágústs Flygenrings, er jeg hafði getið um í ræðu minni, en hv. þm. vildi ekkert mark á taka. Hv. þm. vildi halda því fram, að umsögn fiskifulltrúans á Spáni hefði verið mjög ónákvæm og lítt að marki hafandi. Þannig hefði hann síðastliðið sumar gefið þá skýrslu, að fiskverðið væri hækkandi á Spáni, en þá hefði það í raun og veru verið lækkandi. Jeg skal nú ekki dæma um þetta að fullu, en vona, að mjer verði ekki láð það, svona að órannsökuðu máli, þó að jeg beri fult svo mikið traust til þessara manna, eins og til ummæla hv. 3. þm. Reykv.

Jeg tók þó nokkur atriði upp úr ræðu hv. þm., sem jeg skal leyfa mjer að svara. — Hv. þm. sagði, að lítið gagn hefði orðið að rannsóknum Pjeturs A. Ólafssonar og útflytjendur lítið fært sjer þær í nyt. Taldi hann þá ástæðu til, að besti fiskmarkaðurinn væri á Spáni. Kemur fyrri hluti þeirra ummæla heim við það, sem jeg sagði í fyrri ræðu minni. Það getur nú satt verið, en eigi að síður sýnir þessi rökfærsla hv. þm. mikla skammsýni. Spánski markaðurinn er vitanlega því aðeins góður, að ekki berist of mikið af fiski á hann; framboðið verði ekki of mikið. En til þess að fyrirbyggja að svo verði, þarf að tryggja sjer víðar markað fyrir saltfiskinn, svo hægt sje að ljetta á spánska markaðinum. Einnig þarf að vinna fleiri sölustaði á Spáni.

Þá sagði hv. þm., að ef ríkiseinkasala á saltfiski væri tekin upp, þá bæri ríkið, eða þjóðin, bæði fjárhagslega og siðferðislega ábyrgð á sölunni. — Þetta er ekki rjett. Eins og frv. ber með sjer, eiga framleiðendur að fá það, sem fiskurinn selst fyrir, annað ekki. En þó svo væri, sem ekki er, þá verður munurinn í raun og veru ekki mikill frá því sem nú er. Því eins og reynslan hefir sýnt, þá verður það altaf að síðustu þjóðin öll, sem ber ábyrgð á og verður að borga töp fiskhringanna og annara sölubraskara, sem tapað hafa. Á henni lenda skakkaföllin, afleiðingarnar af vitleysum þeirra, eins og hann orðar það, að lokum.

Þá taldi hv. þm., að við hefðum í raun og veru grætt um 4 milj. kr. á tapi fiskhringsins. En þar ber bókum hans og fyrv. þm. G.-K., Ágústs Flygenrings, sem taldi, að við hefðum stórtapað á honum, ekki sem best saman. Tek jeg Á. F. fult svo trúanlegan sem hv. 3. þm. Reykv. Hættan er sú, þegar salan er á ofmörgum höndum, að þá fara sumir að bjóða út fyrir lægra verð en hægt væri að fá, og samkeppni verður um söluna. En við það fellur verðið enn. Einnig það hefir einatt átt sjer stað, að menn hafa ætlað að taka stórgróða, með því að setja verðið hærra í byrjun en markaðurinn leyfði, og hafa svo að síðustu, af því að háa verðið dró úr eftirspurninni og þar með sölunni, orðið að selja með tapi. En það er fjarri öllum sanni, að halda því fram, að þetta tapaða fje hafi runnið í vasa framleiðenda.

Þá hjelt hv. þm. því fram, að skaðlegt væri að útiloka samkeppnina um fisksöluna, enda gætum við aldrei komist hjá því að keppa við aðrar þjóðir, Norðmenn t. d. En það er nú einmitt það sem er, að samkeppnin verður alls ekki útilokuð, þó einkasölufyrirkomulagið verði tekið upp. Samkeppnin við Norðmenn heldur áfram. Aðeins verður sú samkeppni miklu styrkari af okkar hendi, heldur en nú er, þegar salan er tvístruð og við keppum líka hver við annan. Nú ræður enginn við framboð og verð, þar sem salan er á svo margra höndum. Þetta hafa og útgerðarmenn sjeð og viðurkent, bæði með stofnun fiskhringsins og sölusamlaginu 1926.

Hv. þm. viðurkendi, að íslenski fiskurinn þætti betri vara en sá norski, þar sem hann væri þektur orðinn af neytendum. Þyrfti því að vinna meira að útbreiðslu hans. Taldi hann, að Gunnar Egilson hefði verið óábyggilegur og ekki að marka ummæli hans um það, að fyrsta sala í vor hefði verið fyrir of lágt verð. Sönnun þess, að G. E. hafi haft rjett fyrir sjer í þeim ummælum, er, að norskur og færeyskur fiskur var á sama tíma seldur fyrir hærra verð á stöðum, þar sem ísl. fiskur er þektur, þó ísl. fiskur þyki betri og sje keyptur að jafnaði hærra verði. Taldi G. E., að það hefði stafað af óheppilegri framkomu ísl. útflytjenda; efa jeg ekki, að það sje rjett.

Þá talaði hv. þm. um ýmsa örðugleika, sem fiskkaupmenn og útflytjendur ættu við að stríða. — Það er vitanlega rjett, að salan getur verið undir ýmsu komin, svo sem afla okkar sjálfra og annara fiskiþjóða, uppskeru, kjötverði, og almennri afkomu fiskneytenda o. fl. En jeg veit ekki, hvernig hv. þm. styður sína skoðun um að heppilegra sje, að margir sjeu um útflutninginn á fiskinum. Alla þessa erfiðleika er miklu ljettara að yfirstiga, ef salan er á einni hendi, heldur en þegar margir bjóða vöruna, að órannsökuðum sölumöguleikum, og gera hver öðrum tjón með skipulagslausum framboðum. Nei, einmitt tal hv. þm. um erfiðleikana, sem fiskútflytjendur nú eiga við að stríða, er, ef hann fer rjett með, meðmæli með því, að salan verði látin fara fram undir einni yfirstjórn. Jeg vil leyfa mjer, að beina þeirri spurningu til hv. 3. þm. Reykv., hvort hann, ef hann hefði umráð yfir öllum saltfiski á þessu landi og yfirstjórn alls útflutnings og sölu í sínum höndum, mundi vilja sleppa allri yfirstjórn og skifta útflutningnum og sölunni milli margra manna, sem keptu hver við annan og byðu verðið hver niður fyrir öðrum. — Nei, honum mundi áreiðanlega ekki detta slíkt í hug. Hann mundi áreiðanlega vilja hafa yfirlit yfir útflutning og framboð og hafa eina stjórn fyrir fisksölunni. Hv. þm. sagði, að útlendingar, sem keyptu hjer fisk, hafi tapað stórfje á þeirri verslun, og virðist hann eiginlega vera mjög ánægður með það. Segist hann búast við, að jeg hafi ekkert á móti því, að útlendingar skilji hjer eftir auðæfi sín.

Jeg býst nú við, að útlendingar fari litið eftir því, sem jeg óska í þessu máli. En jeg óska engra ölmusugjafa frá þeim okkur Íslendingum til handa. En jeg vil nú spyrja hv. þm., hvort hann haldi í raun og veru, að útlendingar komi hjer í þeim tilgangi að skilja hjer eftir auðæfi sín. Heldur hann ekki, að þeir mundu reyna að koma aftur og gera tilraun til að ná því upp aftur, er þeir hafa tapað, og ef það tekst ekki, mundu þeir heldur hætta. Að þeir haldi áfram að reka verslun ár frá ári með halla, nær engri átt. Sá, sem rekur verslun, hefir það fyrir augum að vinna það upp á góðu árunum, er hann kann að tapa, þegar illa árar, og meira til. Þá sagði hv. þm., að útlendir kaupmenn hefðu hjer umboðsmenn í Reykjavík, sem keyptu fiskinn, og að því er mjer virtist taldi hann þetta heilbrigt fyrirkomulag og okkur hagfelt. Jeg hygg, að það væri miklu betra, að við hefðum okkar umboðsmenn í markaðslöndunum til þess að selja fiskinn, hefðum sjálfir bein sambönd við markaðslöndin. En sambönd Íslands við markaðslöndin verða því færri og veikari sem útlendingarnir hafa fleiri umboðsmenn og eru fjesterkari hjer á landi. Gæti jafnvel svo farið, að þau slitnuðu með öllu. Þá gæfist erlendu kaupmönnunum færi á að skamta okkur verðið.

Hv. þm. sagði, að fyrir utan slagorð og reyk og blekkingar í ræðu minni hefði borið mjög á því, hve mig langaði til þess, að hinar mörgu miljónir, sem fást fyrir fiskinn, gengju í gegnum hendur flokksbræðra minna. Jeg býst ekki við að verða framkvæmdastjóri einkasölunnar. En jeg álít, að það sje fullkomlega rjettmæt krafa, að umboðsmenn þjóðarinnar skifti sjer af því, hvernig ræktur er jafnþýðingarmikill þáttur í atvinnulífi þjóðarinnar og fisksalan er. Þetta er mál, sem varðar alþjóð og þjóðin öll á að vita um framkvæmdir þess máls, og fje það, er fæst fyrir fiskinn, á að fara í gegnum hendur þeirra manna, er hún trúir fyrir því starfi. Í frv. er gert ráð fyrir, að 2% af andvirði fiskjarins renni í sjerstakan sjóð,og helmingi þeirra tekna má verja til þess að útvega nýja markaði fyrir fiskinn. Ef tekin hefðu verið 2% á árunum 1924–27 af þessum 160 milj. króna, þá hefðu 3 milj. og 200 þús. kr. runnið í þennan sjóð. Þessi ár hefir ríkið tekið 1½% í útflutningsgjald, eða sem nemur 2 milj. og 400 þús. kr. Þó ekki hefði verið tekinn nema mismunur þessara tveggja upphæða, sem er 800 þús. kr., má gera ráð fyrir, að ríkissjóður hefði með því fje getað gert töluvert til þess að bæta markaðshorfur og sölufyrirkomulag. Með þessu móti má vafalaust bæta að miklum mun sölumöguleika á íslenskum fiski.

Mjer skildist á hv. þm., að hann hjeldi, að frv. þetta væri fram komið af kala til útgerðarmanna og þeirra „stóru“. (JÓ: Þetta er rangfærsla). Það er mjög fjarri því, að svo sje, en jeg er hræddur um, að hv. þm. misskilji nokkuð hlutverk hinna „stóru“, því að hv. þm. sagði, að ef hinir stóru vildu offra fyrir smærri útgerðarmennina, fyndist sjer einkennilegt, að þeir mættu ekki gera það. Jeg hjelt, að útgerðarmenn og fiskverslanir rækju ekki atvinnu sína til þess að þeir stóru offruðu fyrir hina minni, en vitanlega getur það komið fyrir, að stórútgerðarmenn verði fyrir töpum af innkaupum, og þá er það ekki annað en sú áhætta, sem altaf má gera ráð fyrir. Sama máli er að gegna um það, ef útlendingar skilja hjer eftir nokkrar milj. af auði sínum, þá er það áreiðanlega ekki af einskærri miskunnsemi við landsmenn, og nær engri átt að tala um slíkt.

En það er öllum vitanlegt, að stórfeldustu töpin, eins og t. d. töp fiskhringsins, hafa til orðið af þeim ástæðum, að hringurinn vildi fá of mikinn gróða í vasa hluthafanna. Hitt er rjett, að stóru fiskhringarnir hafa betri aðstöðu að ná hærra verði. Þeir hafa meira fje yfir að ráða og geta því beðið átekta, og meira að segja stundum sett kosti, ef því er að skifta.

Hv. þm. bjóst við, að jeg mundi kalla það sannvirði, sem hver klaufi gæti selt fiskinn fyrir á markaðinum, með einkasölufyrirkomulagi. Jeg kalla það sannvirði, sem fæst fyrir fiskinn í markaðslandinu, að frádregnum kostnaði við söluna, og það verð eiga framleiðendur að fá. Það segir sig sjálft, að því fleiri sem milliliðirnir eru og því meira sem þeir fá, því minna verður eftir til framleiðendanna af því verði, sem fæst fyrir fiskinn á markaðinum. Jeg býst við, að hv. þm. sækist ekki eftir mörgum milliliðum í sinni verslun, en kjósi helst að selja fiskinn beint til Spánar. Hitt veit hann vel, að minni útgerðarmennirnir út um land neyðast til að hafa milliliði, stundum meira að segja áður en fiskurinn er seldur til Reykjavíkur. Einkasalan mundi einmitt verða smærri útgerðarmönnum til mests hagræðis og hagnaðar. Hún mundi tryggja það, að einstaklingarnir fái sem næst sannvirði fyrir fisk sinn.

Að lokum sagði hv. þm., að það væri viðurkent, að þær tilraunir, sem Sambandið hefir gert með tilstyrk Alþingis til þess að bæta útflutning og sölu á kjöti, hafi verið til mikilla bóta. Hið sama væri nauðsynlegt að gera að því er fiskinum við kemur, og hafi það verið mikið rætt. — Síðan jeg komst til vits og ára, hefir verið ósköpin öll rætt um að bæta þurfi útflutning og sölufyrirkomulag á fiski; það vantar svo sem ekki, en það hefir lítið verið gert til þess. Það hefir líka verið mikið rætt um útflutning á frystum fiski, en ekkert verið gert til þess að hrinda því máli í framkvæmd, og nú er það útlent fjelag, sem gerir byrjunina til þess. Nei, sannleikurinn er sá, að vegna þess, að hver hefir viljað ota fram sínum tota, hefir enginn útgerðarmanna verið þess megnugur að gera jafn stórfeldar breytingar og með þarf. Til þess að koma þeim breytingum á, þurfa öflugri samtök að standa á bak við en þeirra. Ef allur útflutningur og sala á fiskinum væri á einni hendi, væri mikið auðveldara að gera þessa tilraun og aðrar, sem nauðsynlegar eru, því að þótt gerð væri tilraun til að flytja út frystan fisk, mundi hún alls ekki leiða af sjer það, að sala á saltfiski eða þurkuðum fiski hætti, og þarf auðvitað að halda áfram að vinna jöfnum höndum á því sviði líka. Að vísu mundi þessi tilraun hafa allmikinn kostnað í för með sjer, en þann kostnað væri auðveldara að bera, ef samlag væri um útflutning og sölu fiskjarins. Nú er ekkert, sem bendir til, að útgerðarmenn vilji eða geti komið á slíku samlagi, og liggur því beinast fyrir, að ríkið geri það.