21.02.1928
Neðri deild: 28. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 346 í C-deild Alþingistíðinda. (1660)

89. mál, einkasala á saltfisk

Jón Auðunn Jónsson:

Eftir því sem mjer heyrðist á ræðu hv. flm., vakir einkum tvent fyrir honum með frv. þessu: að auka markað fyrir fiskinn og bæta sölufyrirkomulagið. Jeg varð meira en lítið hissa, er jeg heyrði hann halda því fram, að ekkert hefði verið gert til að auka fiskmarkað erlendis síðustu árin. Hv. þm. hefði ekki þurft annað en að líta í hagskýrslur síðustu ára, til að sannfærast um, að markaðurinn hefir stóraukist. Þá hjelt hann því fram, að Spánarsamningurinn hefði ekki bætt aðstöðu vora á Spáni. Fyrir stríð voru fluttar til Spánar um 6000 smálestir á ári af fullverkuðum saltfiski, og var þá þegar farið að bera á því, að markaður væri þröngur þar. En síðan hefir tekist að auka þennan markað stórkostlega, mest fyrir tilverknað íslenkra fiskútflytjenda og spánskra fiskkaupmanna. Árið 1921 eru fluttar um 15000 smálestir af saltfiski til Spánar. Árið 1923 eru fluttar þangað 24000 smálestir, 1924 28000 smálestir og 1925 30000 smálestir. Og þessi fiskur hefir yfirleitt selst með hærra verði en Norðmenn og Englendingar hafa fengið fyrir sinn fisk í þessu sama landi. Mjer finst því, þegar á alt er litið, að tekist hafi alveg sjerstaklega vel með aukningu saltfiskmarkaðarins á Spáni, og síst ástæða til að gera lítið úr þeim framförum.

Ýmsar orsakir liggja til þess, að oss hefir ekki tekist að afla oss markaðar í Suður-Ameríku. Norðmenn hafa starfað að því áratugum saman, að útvega sjer markað þar, en hefir þó ekki gengið betur en svo, að þeir hafa af og til þar markað, ár og ár í bili. Englendingar hafa hingað til haft lang besta aðstöðu í Suður-Ameríku. Fiskkaupmenn í Suður-Ameríku heimta að jafnaði 4–9 mánaða gjaldfrest. Eins og atvinnurekstri og fjárhag íslenskra útgerðarmanna er háttað, og bankarnir jafn vanmáttugir og þeir eru, er vitanlega ómögulegt að ganga að slíkum kostum. Samkvæmt lögum, sem sett voru 1919, endurkaupir breska ríkið víxla þessa af útflytjendum, fyrir 60–70% af nafnverði vöru þeirrar, sem út er flutt. Meðan að enskir útflytjendur njóta þeirrar aðstöðu, verður erfitt eða ómögulegt fyrir oss að þreyta við þá á þessum markaði. En nú er í ráði, eða ef til vill búið, að afnema þessa ríkishjálp í Bretlandi, og þá fer fyrst að verða von fyrir oss á suður-amerískum markaði. Hinsvegar er ekki rjett hjá hv. flm., að ekkert hafi verið gert til að koma ísl. fiski á þennan markað. Nokkur hundruð skippund hafa árlega verið send þangað til reynslu, mest fyrir forgöngu eins stærsta útgerðarfjelagsins hjer, en aðstæðurnar eru eins og jeg hefi þegar lýst þeim, og auk þess þarf fiskurinn að vera öðruvísi verkaður en hjer er venja til, jafnvel frá byrjun. Er varla þess að vænta, að útgerðarmenn treystist að leggja í mikinn kostnað vegna nýrra verkunaraðferða, svo tvísýnn sem þessi markaður er ennþá.

Englendingar og Norðmenn hafa stórkvartað undan því síðustu árin, að vjer værum að þoka þeim af markaðinum á Spáni. Það er öllum ljóst, að fisksala vor þar hefir stóraukist og markaður víkkað. Hv. flm. drap á þá agnúa, sem erindreki vor á Spáni hefði minst á, að of mikið af fiski væri í sumum bæjum þar, en of lítið í öðrum. Það er nú svo, að eigi þýðir fyrir oss að senda fisk þangað, sem vjer höfum ekki markað fyrir hann, því að Spánverjar halda sjer lengi við þær vörutegundir, sem þeir hafa einu sinni komist á að nota. (HG: Þetta er í bæjum, þar sem íslenski fiskurinn er seldur.) Eins og kunnugt er, eru eigi nema 3–4 innflutningshafnir á Suður-Spáni, og viðlíka margar á Norður-Spáni. Þótt fiskútflytjedur vildu flytja fisk til fleiri hafna, er þeim það ekki auðið, vegna þess að ekki eru til hús, til að geyma fiskinn í, nema á þessum fáu stöðum. Það er ekki hægt að geyma saltfisk, svo óhætt sje við skemdum, nema í kælihúsum. Langmestur hluti fiskjarins er síðan fluttur með járnbrautum út um landið. Það er ekki sök íslenskra útflytjenda, þótt fyrir kunni að koma mistök um dreifingu fiskjarins á hina ýmsu staði á Spáni, enda hygg jeg það fremur sjaldgæft.

Þá drap hv. flm. á umboðssölu á fiski og skaðsemi hennar. Jeg skal fallast á, að umboðssalan hafi skaðað oss, en þess ber að geta, að vjer erum næstum algerlega hættir að selja fisk í umboðssölu. (HG: Það var þó gert síðast í fyrra.) Það er rjett, að í fyrra voru seldar um 700 smál. af fiski, sem enginn kaupandi fjekst að, í umboðssölu, en annars má telja, að umboðssalan sje horfin úr sögunni. Það kemur fyrir enn þá, að ódýrari tegundir, eins og t. d. ufsi, eru seldar á þennan hátt. En yfirleitt, má segja, að umboðssala á fiski, sem á fyrri þingum hefir verið talin aðalástæðan fyrir þessu frv., sje nú undantekning, sem altaf verður sjaldgæfari og sjaldgæfari.

Það er rjett hjá hv. flm., að ósamræmi er í fiskmatinu. En ráðið til að bæta úr því er ekki einkasala, heldur það, að matið sje samræmt með skipun eins aðalyfirmatsmanns fyrir land alt. Þá sagði hann, að útlendir fiskkaupmenn hafi umboðsmenn hjer heima og skaði fisksölu voru á þann hátt. Jeg hygg það ekki skaðlegt, þó spanskir innflytjendur ísl. fiskjar hafi umboðsmenn hjer. Spanskir fiskinnflytjendur eru þeir einu menn, sem hafa sameiginlegra hagsmuna við oss að gæta um það, að fiskverðið ekki lækki, þar sem þeir venjulega hafa stórar birgðir af fiski, sem þeir hafa keypt fyrirfram.

Reynsla sú, er Labradormenn hafa af einkasölu sinni, virðist ekki hvetjandi. Þar var einkasala frá 1919–22, en var afnumin 1923. Afleiðing einkasölunnar var sú, að spanskir og ítalskir kaupmenn reyndu á allan hátt að sneiða hjá viðskiftum við einkasöluna og keyptu fisk annarsstaðar frá með hærra verði, fremur en að kaupa af einkasölunni. Vjer Íslendingar nutum góðs af þessu í meiri eftirspurn eftir okkar fiski. Þá reyndu Labradormenn einskonar samlagssölu hjá sjer 1924, og tóku að selja fisk sinn til Portúgal. Þetta gekk allvel í fyrstu. Samlagssalan skifti við smásalana, en brátt fóru að koma í ljós agnúar á þeim viðskiftum. Þegar smásalarnir sáu, að fiskurinn barst að með jöfnu millibili, hættu þeir að gera fyrirframkaup, og afleiðingin varð sú, að fiskverð fór sílækkandi. Fór svo, að Labradormenn sáu sig neydda til að hætta við samlagssöluna árið 1927, og taka að skifta við stórkaupmennina, eins og áður. Vjer urðum líka þessa sama varir á stríðsárunum, þegar útflutningsnefnd, sem þó var skipuð ágætismönnum, hafði fisksöluna með höndum. Það kom í ljós, að Spánverjar vildu heldur skifta við einstaklinga, heldur en nefndina. Nefndin gat jafnvel selt fisk sinn hærra verði einstökum mönnum hjer heima, heldur en hún gat fengið fyrir hann á Spáni. Yfirleitt er Spánverjum og öllum Suður-Evrópuþjóðum mjög nauðugt að skifta við ríkiseinkasölueða samlagssölur, og telja, að stofnað sje til slíks til að hnekkja hagsmunum þeirra.

Hv. flm. gat þess til, að ástæðan til þess, hve fisksala fiskhringsins svokallaða hefði mistekist, væri sú, að þeir, sem að honum stóðu, hefðu ætlað sjer of mikinn ágóða. Jeg skal ekki bera á meti því, að þeir hafi ætlað sjer í fyrstu að hagnast á fiskkaupunum. Þó hygg jeg þeir hafi ekki búist við eða heimtað óeðlilega háan ágóða. En þegar leið fram á haustið og þeir sáu hvað verða vildi, lækkuðu þeir verðið svo, að þeir þá þegar reyndu að selja fiskinn án hagnaðar eða jafnvel með tapi. En tap hringsins hygg jeg hafa stafað meðfram af því, að fyrirtækið hafði ekki fjármagn til þess að halda fiskinum, en varð, til þess að fá peninga, að láta fiskinn í umboðssölu.

Þá mintist flm. á tilraunir samlagsins 1926. Samlagið var upphaflega stofnað til að stemma stigu fyrir verðfalli. En það kom í ljós, að þetta verðfall var enganveginn óeðlilegt. Of mikið af fiski var fyrirliggjandi á spönskum markaði, og aðrar vörur fjellu jafnframt í verði. Enda fór svo, að samlagið varð að selja fyrir lægra verð en viðunanlegt var. Spánskir fiskkaupmenn keyptu fremur fisk af einstaklingum fyrir hærra verð, heldur en að kaupa af samlaginu, og stórtöpuðu líka á sínum fiskkaupum.

Hv. flm. talaði um, að miklar verðsveiflur hefðu orðið á fiskmarkaðinum 1924–27. Þetta er rjett. En þær sveiflur samsvara sveiflum á heimsmarkaðinum, þótt nokkru kunni að hafa skakkað frá mánuði til mánaðar. Kjötið hefir fallið meira í verði á þessum tíma, og viðurkennir þó flm., að gert hafi verið alt, sem unt var, til að halda því í verði. Þar hefir hin svokallaða skipulagsbundna verslun ekki sýnt neina yfirburði umfram frjálsa verslun. Kjöt og fiskur hafa fallið meira í verði þessi árin en aðrar vörur, en þetta eru einmitt vörur þær, sem keppa hvor við aðra í daglegu lífi.

Það er langt frá því, að reynslan hafi sýnt, að sölu útflutningsvörunnar sje best borgið með því að hafa hana á einni hendi. Reynsla Labradormanna bendir í þveröfuga átt. Það kunna að vera skiftar skoðanir um það, hvort útflutningsverslun á fiski hefir gefið ágóða eða tap á undanförnum árum. En að svo er, það stafar af vanþekkingu. Það er óhætt að fullyrða, að síðan 1919 hefir þessi verslun gefið meira tap en ágóða. Eins og hv. 3. þm. Reykv. sagði, hafa hjerlend fjelög, eins og fiskhringurinn o. fl., tapað stórfje, og spanskir kaupmenn orðið fyrir miklu tapi, einkum árin 1924–25. Eins var það og rjett, sem hann sagði um tap hins gamla danska firma á verslun með ísl. fisk.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta. Jeg þykist hafa sýnt fram á það, að reynsla undanfarinna ára, hjer og anarsstaðar, mæli ekki með því, að frv. nái fram að ganga.