24.02.1928
Neðri deild: 31. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 374 í C-deild Alþingistíðinda. (1665)

89. mál, einkasala á saltfisk

Ólafur Thors:

Jeg skal forðast endurtekningar, og því aðeins svara því af ræðu hv. 2. þm. Reykv., sem ekki var svarað með fyrri ræðu minni.

Háttv. þm. sagði, að því væri svo varið um frjálsa verslun, að ekki trygði hún betur, að hæfileikamaðurinn fengi að njóta sín en ríkisrekstur. Þessi staðhæfing háttv. þm. er alröng, því í frjálsri samkeppni er það gáfur, heiðarleiki og dugnaður, sem lyfta einstaklingnum í þann sess, sem honum ber í þjóðfjelaginu. (HjV: Og ósvífnin!) Ja, það getur verið, að svo sje í flokki hv. 2. þm. Reykv., en það er ekki alment. Hitt er venjan, að hæfileikamennirnir skari fram úr.

Háttv. þm. vefengdi, að einkasala mundi draga úr vöruvöndun, því að hún mundi aðeins óvinsæl hjá útgerðarmönnum. Þarna verður að koma staðhæfing á móti staðhæfing. Jeg tel, að almenningur mundi verða óánægður með hana. Og jeg held, að það sje oftraust á mannlegu eðli, ef hann heldur, að áhættulaust sje um sviksemi viðskiftamanna. Vafalaust munu margir hafa tilhneigingu til undanbragða, og það er hinn mesti misskilningur hjá hv. þm., að matið tryggi til fulls vöruvöndun. Hitt hefir ráðið og mun ráða meiru, að sá, sem þektur er að vöruvöndun, fær í frjálsri samkeppni hærra verð, og getur auk þess oft selt, þegar aðrir geta það ekki. Þetta hefir verið aðalaðhald um vöruvöndun, en mundi alveg burtu numið, ef einkasala yrði upp tekin.

Þá vildi hv. þm. vefengja það, sem jeg fullyrti, að einkasala mundi draga úr neyslunni. Þetta held jeg að sje sprottið af vanþekkingu hjá háttv. þm., því að það er alveg víst, að ef útflutningsnefnd ætti alt í einu að taka við allri fisksölunni, þá mundi hún alls ekki vita, hvers einstakir innflytjendur sjerstaklega óska. Það er vitneskja, sem útflytjendur hafa aflað sjer gegnum margra ára reynslu. Sem sagt, útflutningsnefnd hlýtur að hafa mun lakari aðstöðu í þessum efnum en einstakir útflytjendur, því að hún veit ekki um óskir innflytjendanna. Þá er það alveg rangt hjá þessum hv. þm., að hjer væri að myndast það, sem kallað er „standard“-vara. Slík vara var hjer fyrir 20 árum, en er nú ekki lengur. Þá var fiskur verkaður mjög á einn veg, en þetta hefir smátt og smátt gerbreyst, í samræmi við kröfur neytenda, svo að nú er fiskur verkaður með mjög misjöfnum hætti.

Þá vildi hv. þm. gera lítið úr þeim árangri, sem markaðsleitartilraunir útgerðarmanna hefðu borið. Því miður má jeg ekki verja löngum tíma til þess að svara þessu, umfram það, sem jeg sagði í fyrri ræðu minni. (HjV: Hvað segja hagskýrslurnar?) Þær segja, að útflutningurinn hafi tvöfaldast á síðari árum. Og jeg get sagt hv. 2. þm. Reykv. það, að útgerðarmenn hafa varið miklu fje til þess að útbreiða þekkingu á þessari vörutegund, og um árangurinn get jeg sagt honum það, að varla fer svo nokkurt millilandaskip hjeðan, að ekki fari meira og minna af saltfiski til Afríku og Suður-Ameríku.

Þá vildi háttv. 2. þm. Reykv. meðal annars sanna ódugnað útflytjenda um markaðsleit með því, að fiskflutningur hjeðan til Portúgals hefði minkað á seinni árum. Þetta er rjett. En það stafar ekki af ódugnaði, heldur af dugnaði Íslendinga. Ástæðan er sú, að við Íslendingar vorum að vinna okkur nýjan og betri markað; við vorum að reka Norðmenn út af spanska markaðinum og til Portúgal. Að hv. þm. skyldi ekki vita þetta, sýnir ljóslega, að hann er ekki fær um að tala eins digurbarklega um þessa hluti eins og hann gerir.

Þá sagði hv. 2. þm. Reykv., að við Íslendingar værum að dragast aftur úr á þessum sviðum, og nefndi sem dæmi upp á það, að Svíar flyttu út mikinn fisk, verkaðan eftir hinni svokölluðu Ottesens-aðferð. Það er ekki af því, að íslenskir útgerðarmenn hafi ekki komið auga á þetta, að þeir hafa ekki í þessu efni fetað í fótspor Svíanna, heldur stafar það af því, að það er ekki hægt fyrir þá, sem hafa takmarkað fjármagn, að gera alt, sem þeim dettur í hug. Hinsvegar er gott til þess að vita, að jafnvel það nýjasta í þessum efnum hefir verið tekið upp hjer á Íslandi, án þess að einkasala kæmi þar til greina.

Þá sagði hv. þm. að jeg hefði sagt, að samlagið væri skárra en einkasalan. En það voru alls ekki mín orð, heldur sagði jeg, að einkasalan væri alveg ótæk, en samlagið gæti verið heppilegt, ef það væri bygt á grundvelli frjálsrar verslunar.

Hitt get jeg fallist á, hjá hv. 2. þm. Reykv., að ef til einhverra framkvæmda kæmi í þessum efnum hjer, þá væri vel við eigandi að taka til athugunar tillögur, sem sendimaðurinn á Spáni kom fram með, að leita samkomulags við aðrar fiskframleiðsluþjóðir um skiftingu markaðsins.

Hv. þm. sagði, að einkasalan mundi tryggja sjávarútveginn. Í svipinn hygg jeg hún tryggi eitt, og aðeins eitt: Hún mundi tryggja Norðmönnum, okkar gömlu keppinautum, aftur sinn gamla sess á markaðinum. Og jeg vænti fastlega, að íslenskir löggjafar verði ekki til þess að smíða það eina vopn, sem á okkur getur unnið í þessum efnum.