12.03.1928
Neðri deild: 45. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 380 í C-deild Alþingistíðinda. (1673)

162. mál, sauðfjárbaðanir

Hákon Kristófersson:

Mjer komu ekki á óvart ummæli hv. 3. þm. Reykv. Þau eru alveg í samræmi við framkomu hv. nefndar í þessu máli. Hv. nefnd vill afsaka sig með því, að hún sje hrædd við sennur í umr. út af þessu máli. Jeg segi nú bara: Heyr á endemi!

Þeir hv. nefndarmenn eru þá líklega hræddir við orðasennu í fleiri málum. Nei, jeg tel þetta enga frambærilega ástæðu fyrir þeim óhæfilega drætti, sem orðið hefir á afgreiðslu þessa máls hjá hv. nefnd. Því að þetta mál var svo þrautrætt á þinginu í fyrra, að ætla má, að umræður um það nú muni einmitt ekki „taka upp óratíma af þingtímanum“, eins og hv. 3. þm. Reykv. var hræddur um; að minsta kosti mun jeg ekki þurfa að eyða miklum tíma í umræður um það nú.

Hv. 3. þm. Reykv. sagði, að það væri ekki rjett hjá mjer, að nefndin ætlaði að leggjast á málið. Jeg sagði það ekki. En hitt sagði jeg, að það liti svo út, þar sem nefndin hefði dregið afgreiðslu málsins um slíkan óratíma, en hins vegar afgreitt mál, sem seinna hafa komið til hennar, að hún ætlaði að setjast á málið eða humma það fram af sjer.

Og jeg vil endurtaka þá ósk, sem jeg áðan beindi til hæstv. forseta, um að hann taki málið á dagskrá sem fyrst, og þykist jeg nú ekki hafa síður ástæðu til þess en áður, eftir að þessi ágæti maður, hv. 3. þm. Reykv., hefir dregist á það fyrir hönd nefndarinnar, að hún afgreiddi málið „öðru hvoru megin við páskana“. (PO: Í þinglokin!).