18.02.1928
Neðri deild: 26. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 385 í C-deild Alþingistíðinda. (1682)

104. mál, greiðsla verkkaups

Flm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Hv. þm. N.-Ísf. taldi vafa á, að hægt væri að koma í framkvæmd vikulegri greiðslu hjá þeim mönnum, sem taka kaup sitt í aflahlut. En jeg vil benda honum á, að heimili þessara manna þurfa þó altaf eitthvað til lífsviðurværis sjer, hvort sem líkur eru fyrir afla eða ekki. Því er í frv. gert ráð fyrir, að þeir menn geti og krafist vikulega greiðslu, sem svari þeim hluta aflahlutans, er þeir hafa þá fengið.

Þótt jeg geti viðurkent það með hv. þm., að erfitt kunni að að vera í ýmsum tilfellum, t. d. vestra, eins og hann talaði um, að vita nákvæmlega, hversu hlutur fiskimannsins sje orðinn mikill í það og það skiftið, þá má þó altaf áætla það lauslega. En jeg vil einmitt benda hv. þm. N.-Ísf. á það, að það hefir verið svo, fram að þessu, að útgerðarmenn hafa orðið að sjá um, að konur og börn sjómanna þeirra, sem vinna hjá þessari útgerð, sem hjer ræðir um, geti lifað. Þeir hafa orðið að leggja heimilum þeirra stöðugt, svo að þá ætti að vera sama, þótt það væri gert reglulega á viku hverri. Þessari kröfu yrði sennilega ekki beitt, nema um bláfátæk heimil væri að ræða.

Jeg fæ ekki sjeð neitt hættulegt við að lögleiða þessa reglu, því að hún hefir í raun og veru gilt áður, þótt í annari mynd hafi verið. Þótt um smámótorbáta sje að ræða, eins og t. d. fyrir vestan, þá verða þó útgerðarmenn þeirra að hafa nokkurt rekstrarfje, til þess að geta látið sjómenn hafa peninga, þótt ekki sje gert upp fyr en á haustin. Mjer er kunnugt um þetta, og það er enda ekki óalgengt, að allur fjöldinn sje búinn að jeta upp hlutinn, áður en upp er gert. Í þvílíku tilfelli verkar þessi regla sem takmörkun, sem útgerðarmönnum ætti ekki að verða óhagur að.

Hv. þm. Vestm. vil jeg segja það, að þetta ákvæði 1. gr. stóð í lögunum frá í fyrra, og sá jeg mjer með engu móti fært að breyta því. Aðstaða bænda til þess að greiða kaup vikulega er svo gerólík aðstöðu vinnuveitandans í kaupstað. Og þetta dæmi hv. þm., að bændur borguðu oft með landafurðum, sem þeir gætu þá eins látið af hendi vikulega, það held jeg að sje ekki algengt. Fólk, sem fær fæði og húsnæði í sveitinni, þarf miklu síður á peningum að halda en fólk, sem stundar vinnu í kaupstað, t. d. síldarvinnu, og alt verður að kaupa sjer, sem það með þarf. Auk þess er vistartíminn í kaupavinnu venjulega tiltölulega stuttur, 8–10 vikur, og því er það, að það fólk á miklu hægra með að bíða eftir kaupgreiðslu, þangað til tíminn er á enda. Hitt atriðið, sem hv. þm. Vestm. mintist á, að verkamenn og sjómenn hafi hlunnindi, eins og fæði og húsnæði, sem kaup, það mun eiga sjer stað í Vestmannaeyjum, en hitt veit jeg, að menn eru ekki ánægðir með það fyrirkomulag, og mun sú stefna uppi, að menn vilji losna við það. Því kaupgjald er þar talið afarlágt, til þeirra manna, er ráðnir eru fyrir kaupi. Krafan um að fá hlut er að verða æ háværari, því í allflestum tilfellum er hann miklu hærri en kaup það, sem greitt er. (PO: Það er algengt suður með sjó!) Það mun kanske hafa átt sjer stað í Keflavík líka, en það er að hverfa. Og þótt þess kunni að hafa verið dæmi, að menn hafi ráðið sig upp á kaup með ýmsum hlunnindum, þá er það engin ástæða til þess að draga úr þessu ákvæði frv. Annars gefst hv. nefnd kostur á að athuga þessar athugasemdir, sem fram hafa komið um frv.