18.02.1928
Neðri deild: 26. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 388 í C-deild Alþingistíðinda. (1684)

104. mál, greiðsla verkkaups

Jóhann Jósefsson:

Hv. flm. kvaðst ekki vilja hrófla við ákvæðinu í 1. gr. frv., úr því að það hefði verið í lögunum í fyrra, og reyndi að fóðra það, að það væri rjettmætt. Jeg get nú gefið skýringu á því, hvernig stóð á því, að þetta ákvæði komst mótmælalaust í gegn í fyrra. Það stóð svo á því, að of seint var að gera breytingu á frv., því að það hefði verið það sama sem að bregða fæti fyrir frv., því að ef breyting hefði verið gerð, þá hefði frv. orðið að fara aftur til Nd., en til þess var ekki tími, ef frv. átti að komast í gegnum þingið. Jeg hlífðist því við að koma með brtt. í þessa átt í Ed.

En úr því að þetta frv. er nú komið hjer aftur, og þetta ákvæði er enn í því óbreytt, þá vil jeg ekki láta hjá líða að benda á, að hjer er um opinbert misrjetti að ræða. Hv. flm. virðist hafa farið í sama farið sem hv. flm. í fyrra (HjV) fór í, að gera upp á milli til sjávar og sveita. Og rök hans fyrir því eru alveg staðlaus. Þótt það hafi áður verið venja að borga vinnumönnum og vinnukonum í fríðu, þá er það nú alveg afnumið, og alment borgað með peningum, alveg eins og við sjó. Það er því engin ástæða til að þola þetta misrjetti, ef sama traust er borið til manna við sjó og sjávarsíðu.

Hv. flm. heldur því fram, að það sje hverfandi lítið um það við sjó, að verkamenn og sjómenn hafi fæði og húsnæði sem hluta af kaupi. Jeg verð nú að segja, að mjer virðist hv. þm. sjá hjer heldur skamt út fyrir Reykjavík. Að minsta kosti get jeg sagt það, að í Vestmannaeyjum er þetta algild regla. Hvað sem þeirri „stefnu“ liður, sem hv. þm. var að tala um í þessu sambandi, þá er það víst, að svona er það þar enn þann dag í dag, og mun sjálfsagt verða enn um nokkur ár. Og jeg get ekki sjeð, að það væri neitt hollara fyrir verkamennina eða sjómennina, þótt þeim væri sjeð fyrir einhverju hóteli eða matsölustað, heldur en að búa á heimilum formannanna eða útgerðarmannanna. Á Austfjörðum og suður með sjó þekki jeg ótal dæmi þess, að menn við sjávarsíðuna, bæði verkamenn og sjómenn, hafi fæði og húsnæði sem hluta af kaupi sínu. Ástæður hv. flm. fyrir því, að rjett sje að gera upp á milli manna, eftir því, hvort þeir stunda atvinnu til sjávar eða sveita, eru alls ekki frambærilegar. Vona jeg því, að hv. nefnd athugi það, sem jeg hefi hjer sagt, og lagfæri frv. að þessu leyti. Hv. flm. hefir treyst sjer til að kippa burt úr frv. frá í fyrra einu ákvæði, sem sje því, að verkafólki væri frjálst að semja um kjör sín á annan hátt en þann, sem lögin gerðu ráð fyrir. Hv. flm. vill ekki hafa neitt frelsi; nei, hann vill hafa alt fastákveðið og bundið með lögum. Hann vill hafa alt svo rígbundið, að enginn geti slakað neitt til í kröfum sínum. Jafnvel þótt besta samkomulag fáist, mega menn ekki hafa frelsi til að gera samninga eins og þeir vilja. Einn hv. þm., sem á heima í sveit, en þó ekki alllangt frá kaupstað, benti mjer á, hve ákaflega stirt þetta ákvæði væri. Tók hann til dæmis, að hann, sem býr nálægt kaupstað, þyrfti að láta byggja hús í haust, og þarf að fá smiði til þess. Ef nú svo stæði á, að þeir væri atvinnulausir, en hann gæti ekki greitt þeim kaup sitt fyr en eftir nýár, þá er honum með þessu ákvæði frv. bannað að semja við smiðina á þeim grundvelli, og þeim bannað að ganga að slíkum samningum, þótt þeir fegnir vildu. Jeg fjelst á það, við þennan hv. þm., að það væri ekki nema sanngjarnt, að heimila slíkan samning og breyta þessu ákvæði 1. gr. í þá átt. En þessu atriði sá hv. flm. sjer vel fært að kippa úr frv. frá því í fyrra, af því að það veitti ofurlítið frelsi, en hitt ákvæðið gat hann látið sjer vel líka, af því að það er bersýnilegt misrjetti við þá, sem búa við sjó.

Jeg vil því ákveðið vekja athygli nefndarinnar á þessu atriði, að það er ekki nema sanngjarnt, að menn hafi frelsi til þess að gera samninga í þessu efni, eins og þeim sjálfum gott þykir.