10.03.1928
Neðri deild: 44. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 802 í B-deild Alþingistíðinda. (169)

1. mál, fjárlög 1929

Jón Ólafsson:

Háttv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) hefir nú tekið fram flest það, sem jeg vildi sagt hafa. Það kom fram hjá hv. þm. Borgf., að hann teldi þörf á þessu allvíða, en hann þyrði ekki að fara fram á styrk í þessu skyni. Mjer kemur það nú einkennilega fyrir, ef hv. þm. Borgf. hefir ekki kjark til að flytja fram hvað það, sem hann telur rjett. Jeg hefi ekki litið svo á hingað til, að hann væri svo miklu ódjarfari öðrum mönnum.

Hv. þm. var að minnast á Gilstreymi undir Uxahryggjum, en þó að þar sje fjölfarið, þá er þar ekki eins fjölfarið eins og fram í Þjórsárdal. Þessi staður, Ásólfsstaðir, er endastaður Sprengisandsvegarins, og þegar komið er þá leið niður í Hreppa, er þetta eini bærinn, sem hægt er að gista á. Nú er hjer einnig um að ræða einhvern hinn fegursta stað á landinu og mjög merkan í sögunni, sem er Þjórsárdalurinn. Sjer þar enn bæjarrústir eftir hina fornu bygð. Fjöldi manna hefir hug á að komast þangað, en alt strandar á því, að þeir geta ekki fengið gistingu, svo sæmileg sje. Þegar ferðafólk kemur aftur eftir 18 stunda ferð ofan úr dalnum, þykist það hafa fulla þörf á góðum móttökum og það vill ekki leggja upp með óvissu um að geta fengið þær.

Að því er snertir útlendinga, þá eigum við líka að vinna að því, eins og margar aðrar þjóðir gera, til dæmis Norðmenn, að hæna þá að landinu og fá þá til að heimsækja það og skilja hjer eftir meira og minna af fje sínu. Nú er allmikið gert að því að fara upp í Arnarfell hið mikla og skoða þar óbygðir, og ætti það heldur að styðja að því, ef ferðamönnum væri sjeð fyrir góðum hvíldarstað.

Jeg verð að endurtaka það, að jeg er hissa á hv. þm. Borgf., að þora ekki að fara fram á styrk til þessa bónda, sem hann mintist á. Mjer finst hann þó skilja vel, hvað fátækir bændur hafa erfiða aðstöðu til að taka á móti gestum. Jeg get lofað hv. þm. Borgf. því að fylgja honum að málum, ef hann skyldi fá kjark til að bera fram styrkveitingu til hjálpar þessu býli, sem mun vera Gilstreymi í Lundarreykjadal.