22.02.1928
Neðri deild: 29. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 396 í C-deild Alþingistíðinda. (1690)

107. mál, opinber reikningsskil hlutafélaga

Flm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Frv. þetta, sem hjer liggur fyrir, er fram komið af mörgum ástæðum. Í lögum um hlutafjelög er gert ráð fyrir, að fjelögin geri skil til skrásetningarstjóra, þannig, að legið geti fyrir hjá honum plögg frá þeim mönnum, sem að fjelögunum standa. En nú er það fullyrt, af kunnugum mönnum, að mikill misbrestur sje á, að þetta sje gert. Veigamesta ástæðan fyrir því, að jeg ber frv. þetta fram, er sú, að hlutafjelög þau, sem stofnuð hafa verið á seinni árum, hafa verið mjög fjárfrek á rekstrarfje, og það hefir verið sama, hvort sem þau hafa verið stofnuð til atvinnurekstrar eða verslunar. Reynslan er nú búin að sýna það, að allmikið af rekstrarfje bankanna hefir á síðari árum legið í þessum fyrirtækjum, og þó að sorglegt sje, þá hefir ekki svo lítið af því tapast. Það virðist því nauðsynlegt, að þar sem fjelög þessi hafa svona mikið lánsfje bundið í atvinnurekstri sínum, þá sjeu þau háð opinberri gagnrýni, svo að almenningi geti gefist kostur á að sjá, hvernig þau eru rekin. Auk þess er nauðsynlegt fyrir allan þann fjölda verkamanna til lands og sjávar, sem á alt sitt líf undir gengi þessara hlutafjelaga, sem atvinnurekstur stunda, að fylgjast með rekstri þeirra. Þetta er ekki síst nauðsynlegt, þegar um ákvörðun kaupgjalds er að ræða. Það hefir þá vanalega klingt við, að hagur slíkra fjelaga sje svo bágborinn, að þau geti ekki greitt sanngjarnt kaup. En sönnunargögn fyrir því hafa verið falin; og því hæpið að leggja trúnað á slíkt. Jeg held, að flestir verði að viðurkenna, að sá stóri hópur manna, sem á atvinnu sína undir slíkum fjelögum, eigi að hafa rjett til þess að tala með um það mál. Ef sú regla verður lögfest hjer, að niðurstaða reikninga slíkra fjelaga verði birt opinberlega, þá skapast um leið aðhald fyrir þau um að hafa reksturinn í svo góðu lagi sem unt er. Og það skapar fjelögunum um leið meira álit út á við og lánstraust, ef lýðum verður ljóst, að hagur þeirra og rekstur er í góðu lagi. Það liggur í hlutarins eðli, að fjelag, sem stendur sig vel, og alþjóð veit það, getur vænst meira lánstrausts hjá opinberum lánsstofnunum. Þær stofnanir, og þá fyrst og fremst bankar, eiga að hafa aðgang að upplýsingum um rekstur og fyrirkomulag slíkra fjelaga. En reynslan sýnir, að annaðhvort hafa þær ekki haft það, eða þá, að þær hafa verið of miskunnsamar í garð fjelaganna. Það eru til of mörg dæmi þess, að stórfeld töp fyrir bankana, á lánum til slíkra fjelaga, hafa átt sjer stað.

Jeg skal nú ekki, við þessa 1. umr. málsins, nefna dæmi þessu til sönnunar, en þau eru mýmörg til, sem bera sorglegt vitni þess, að hjer er síst ofmælt. Það hefir komið fyrir, bæði í verslun og atvinnurekstri, að bankarnir hafa tapað í stórum stíl á lánum til fjelaga og fyrirtækja. Jeg veit, að hv. þdm. eru kunn svo mörg dæmi þess, að jeg þarf ekki nú að fara nánar út í það. En jeg vildi aðeins benda á það hjer, að ef sú aðferð, sem farið er fram á í frv., verður tekin upp, þá mundi alþjóðleg gagnrýni verða svo sterk, að lánsstofnanirnar mundu fara varlegar í það, að lána til tvísýnna fyrirtækja, eða fjelaga, sem stæðu sig illa. Því að það er auðsjeð, að það er engin hætta að lána fjelagi, sem stendur sig vel, en mjög skuldugu og illa stæðu fjelagi er alt of mikil hætta að lána stórar upphæðir af veltufje þjóðarinnar.

Jeg kem þá að annari ástæðu, sem jeg verð að segja, að mjer finst nóg ástæða ein saman, til þess að þetta frv. nái samþykki.

Fróðir menn hafa sagt mjer, að í nágrannalöndum vorum sje slík regla þekt, sem farið er fram á að lögleiða hjer, með þessu frv., og þá sjerstaklega um þau hlutafjelög, sem hafa opinbert útboð á brjefum sínum. Það er ekki álitið trygt að kaupa hlutabrjef slíkra fjelaga, nema opinber skráning á þeim hafi farið fram. En það er ekki álitið trygt, að sú skráning sje rjett, nema reikningar viðkomandi fjelags hafi verið birtir, svo að alþjóð geti verið kunnugt um hag þess. Nú má búast við því, að sá tími komi, að íslensk hlutafjelög vildu bjóða út brjef sín almenningi til kaups, og þá á almenningur auðvitað heimtingu á að vita sannvirði brjefanna. En jeg hygg, að það sje svo best trygt, að ekkert sje falið fyrir almenningi í þeim efnum.

Jeg vil leyfa mjer að benda á eitt stórt hlutafjelag hjer, sem nú þegar birtir reikninga sína og verður fyrir alþjóðlegri gagnrýni. Jeg á hjer við Eimskipafjelag Íslands. Það telur það enginn maður ókost við það fjelag, að reikningar þess sjeu birtir. Allir telja það rjett og sjálfsagt, að allir viti um hag þess. En því skyldi þessi regla þá ekki mega ná til annara hlutafjelaga? Því að þótt hluthafarnir sjeu þar ef til vill færri; þá er hlutafjeð kanske meira. Það er í frv. talað um, að hlutafjelög, sem hafa minni höfuðstól en 50 þús. kr., skuli vera undanþegin skyldunni til að birta reikninga sína. Ástæðan er sú, að bæði er talið, að á þeim velti minna fyrir þjóðarheildina en hinum stærri, og hefir þótt rjett að undanskilja þau, meðan reynsla er að fást í þessum efnum. Það er þá altaf hægurinn hjá, að láta regluna einnig ná til þeirra, ef þjóðinni finst þessi regla góð.

Jeg vænti nú, að hjer þurfi ekki að koma fram neinn mótþrói gegn þessu frv. Jeg fyrir mitt leyti lít svo á, að hjer sje að ræða um heilbrigða ráðstöfun, sem þjóðfjelagsheildinni sje mikið gagn að, og vænti því, að þetta frv. fái góðar undirtektir hjá hv. þdm. Vil jeg því leyfa mjer að mælast til, að því verði, að þessari umr. lokinni, vísað til 2. umr. og allshn., því að í allshn. hygg jeg það eigi helst heima.