22.02.1928
Neðri deild: 29. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 404 í C-deild Alþingistíðinda. (1696)

108. mál, einkasala á tóbaki

Magnús Jónsson:

Jeg skal ekki lengja umr. mikið. En þegar jeg sá frv. þetta, datt mjer í hug vísan gamla:

Afturgengin Grýla

gægist yfir mar,

ekki er hún börnunum

betri en hún var.

Það var fyrsta ár þingsetu minnar, er tóbakseinkasalan var upp tekin. Og það vildi svo til, að jeg tók til máls í fyrsta skifti á Alþingi við 1. umr. þess máls. Jeg andmælti því þá, eins og jeg stend upp nú til þess að andmæla þessum uppvakningi. Einkasalan stóð um nokkur ár, en var afnumin 1925. Það er því alt önnur aðstaða nú til þess að dæma um kosti og galla þess fyrirkomulags en þá, er ekki var til reynt. Ýmsir, sem þá gerðu sjer vonir um að einkasalan kynni að gefa tekjuauka í ríkissjóð, hafa nú sannfærst um, að reynslan hafi kent nokkuð annað. Hv. 2. þm. G.-K. dró fram þessa reynslu í talnaformi. Það var rætt hjer á Alþingi, er tóbakseinkasalan var lögð niður, 1925, og þá voru leidd rök að því, að einkasalan hefði ekki gefið meiri tekjur í ríkissjóð heldur en tollur af tóbaki mundi nema, ef verslunin væri frjáls. Og nú eru það engar getgátur lengur. Reynslan er ólygnust. Því var spáð 1925, að með þeirri tollhækkun, er þá var farið fram á, mundu tolltekjur ríkissjóðs af tóbaki geta orðið 800 þús. kr., en það var nóg til þess að bæta upp missi einkasölunnar.

Nú er spurningin: hefir reynslan gert þessa tölu skakka, eða hefir hún staðfest hana? Jú, reynslan hefir gert hana skakka, en óvart á þann veginn, að tekjurnar hafa reynst miklu meiri af tollinum einum en einkasölunni. Árið 1926 reyndust tekjurnar kr. 1134450,00 og árið 1927 tæp 900 þús., eða 898 þús. kr. Þessar tölur ættu að vera nóg rök í málinu, því að eins og hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) sýndi fram á áðan, voru tekjur af tóbakstolli og verslunarágóði þau árin, er einkasalan stóð, til samans ekki nema talsvert á 8. hundr. þús. kr., eða liðlega 800000 kr., ef tölurnar eru lagaðar til, eins og 25% gengisviðauki hefði verið í gildi öll árin. Það merkilega skeði, að tóbaksinnflutningur reyndist miklum mun minni þessi fáu ár einkasölunnar heldur en bæði fyrir og eftir, hvernig sem á því stendur. Hvort sem það stafaði af því, að einkasalan væri svo vel rekin, að menn forðuðust að koma nærri hennar vöru, eða smyglun hafi átt sjer stað, þá var það eitt víst, að innflutningur var samkvæmt skýrslum 20–30% minni þessi ár.

Það má náttúrlega segja sem svo, að tolltekjur tveggja liðinna ára sjeu hærri en við megi búast í framtíðinni. En engin ástæða er til þess að þjóta upp til handa og fóta og breyta til, meðan allir spádómar rætast. Háttv. 2. þm. Reykv., flm. þessa einkasölufrv., hlýtur að hafa fram að færa sterkari rök fyrir sínu máli en þau, er hann bauð mönnum upp á í framsöguræðu sinni, því að þau voru alls engin. Ummæli eins og þessi: „má nærri geta hve miklar tekjurnar hefði orðið 1926, ef einkasölunni hefði ekki verið af ljett“ — og: „má búast við, að þær hefði reynst hærri (1927), ef einkasalan hefði þá verið starfandi.“ Þetta er engin röksemdafærsla. Þetta heitir að slá fram sleggjudómum. Hv. þm. þarf að minsta kosti að færa einhverjar líkur fyrir því, að svo hefði reynst sem hann segir.

Hv. 2. þm. Reykv. gat þess, að eitt af því, er hjálpaði hinni frjálsu verslun með tóbakið, er það var gefið laust, hafi verið það, að verð á tóbaki erlendis lækkaði í það mund, er einkasalan var lögð niður, eða í árslok 1925. Jeg ætla mjer ekki þá dul að þræta um verð á tóbaki við hv. þm., sem teljast verður sjerfræðingur á því sviði. En þess er þá að gæta, að einkasalan starfaði líka við mjög góða aðstöðu árið 1925, því að gengisgróði hennar nam 90–100 þús. kr. (HjV: Ekki rjett!) Það er viðurkent af þáverandi ráðherra, Klemens Jónssyni, að gengisgróði væri 65 þús. kr., og annað, er á vanst, vegna sjerstakrar aðstöðu, 20 þús. kr. Þar eru þá komnar 85 þús. kr. Án efa má þar nokkru við bæta.

Ef því er haldið fram, að hin frjálsa verslun hafi unnið á fyrir heppilega tilviljun, má það mætast, að einkasalan starfaði undir alveg sjerstaklega hagstæðum skilyrðum líka, síðustu árin.

Mjer þykir ekki nema eðlilegt, að þetta frv. kemur fram. En hitt má merkilegt heita, að það kemur annarsstaðar að en frá hæstv. stjórn. Það var þó ekki svo litið af því látið í þeim herbúðum, að Íhaldsmenn væru búnir að svifta ríkissjóð svo sem 200 þús. kr. tekjum með því að leggja niður ríkiseinkasölu á tóbaki. Jeg býst nú við, að forlög Karþagóborgar sjeu nú ákveðin fyrirfram. Og það var víst ekki nema vel gert af hv. flm. að ýta við hæstv. stjórn og koma nú fram með eitthvað af þeim málum, sem hún er að renna frá, hverju af öðru. Má kalla það heppilega liðveislu úr líklegri átt.

Hv. flm. fann hinni frjálsu verslun með tóbak það til foráttu, að fleiri menn hefðu atvinnu við hana en áður var, meðan einkasalan stóð. Ef verslunin er eins góð, og tekjur þær, sem hún veitir í ríkissjóð, eins miklar, er það þá galli, að fleiri menn lifa af henni? Nei, ekkert sýnir betur yfirburði frjálsrar verslunar yfir einkasölu en einmitt þessi staðreynd. Þá eiga það loks að vera hagsmunir kaupmanna, sem öllu eru valdandi um afstöðu heils stjórnmálaflokks til þessa máls. Jeg skal ekkert um það segja. En það hafa ýmsir kaupmenn sagt í mín eyru, að þeim hafi aldrei verið eins þægilegt að versla með tóbak og einmitt meðan einkasalan var rekin. Að þeir eru henni samt sem áður andvígir, orsakast af þeirri grundvallarskoðun, að verslun eigi að vera frjáls. Það er hentugast fyrir neytendur, að frjáls samkeppni fái að skapa verð, og ríkissjóði er líka best sjeð fyrir tekjum með frjálsri verslun og tollum. Reynslan hefir sýnt það. Og það fyrirkomulag er ekki ónýtt, sem veitir sem flestum mönnum atvinnu, útvegar neytendum sem besta vöru við sanngjörnu verði og skilar þó meiri ágóða í ríkissjóð en annað fyrirkomulag, sem þegar er reynt.