10.03.1928
Neðri deild: 44. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 803 í B-deild Alþingistíðinda. (170)

1. mál, fjárlög 1929

Hannes Jónsson:

Jeg hefi skrifað undir nál. samgmn. með fyrirvara. Vil jeg skýra frá, í hverju hann liggur, og er þar fljótt frá að segja, að jeg er samþykkur nefndinni um þá fjárupphæð, sem hún leggur til, að verði varið til styrktar flóabátunum, en jeg lít svo á, að skifting styrksins á milli þeirra sje ekki að öllu leyti rjett. Vil jeg þá sjerstaklega minnast á Flateyjarbátinn og Djúpbátinn; jeg álít, að þeir hafi meiri styrk en rjett væri í hlutfalli við aðra. Þetta vil jeg aðeins láta koma fram í umræðunum.

Hvað það snertir, sem segir í nál., að rjettast væri að telja til útgjalda póstmálanna um 30 þús. kr., sem ganga til nokkurra báta, en telja það ekki með þessum styrk, þá álít jeg, að það sje mjög vafasamt. Það, sem helst mælir með þessari skiftingu, er, að með því mundi nánara aðgreindur í landsreikningunum kostnaður vegna póstmálanna og flóabátanna. En á hitt er að líta, að með því fyrirkomulagi, sem nú er haft, er hægra um alt eftirlit með því, að ekki sje misskift heildarstyrk til þessara báta. Auk þess get jeg ekki sagt um, hvort þessi upphæð, sem hjer er nefnd, sje sennileg eða ekki; jeg get vel búist við, að hún sje óþarflega há.

Af þeim tveim bátum, sem jeg nefndi, vil jeg þó sjerstaklega taka það fram um Flateyjarbátinn, að styrkur hans hækkaði geysimikið á síðasta ári frá því, sem áður var, og jeg hefi ekki fundið neina skynsamlega ástæðu til þess.

En hvað Skaftfelling snertir, þá finst mjer hans upphæð það minsta, og hefði jeg því gjarnan viljað láta hann hafa sömu fjárveitingu og áður. Jeg hefi sjeð reikninga hans fyrir síðastliðið ár, og eftir þeirri útkomu, sem þeir reikningar sýna, þá er afkoma hans mjög slæm, en ferðir hans eru á hinn bóginn mjög nauðsynlegar og ómögulegt að komast af án þeirra. Auðvitað má segja slíkt hið sama um hina bátana, en það er þó kannske fremur hægt að komast af án þeirra. Þessar ferðir Skaftfellings eru að mínu áliti helst strandferðir, og væri því rjettast að draga hann hjer út úr og hafa hann með strandferðum, eða sem sjer stakan lið í fjárlögunum.

Jeg hefi ekki getað sjeð það neinstaðar, hvað þessir flóabátar hafa mikinn styrk frá sýslufjelögum þeim, sem hjer eiga hlut að máli. Virðist sjálfsagt, að þau styrki slíkar ferðir, og þyrfti að koma þar á meira samræmi en jeg hygg, áð nú eigi sjer stað.

Jeg skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta; jeg vildi aðeins skýra frá því, í hverju fyrirvari minn liggur.