22.02.1928
Neðri deild: 29. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 422 í C-deild Alþingistíðinda. (1710)

114. mál, Fiskiveiðasjóður Íslands

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Mjer þykir gott að heyra undirtektir hv.4. þm. Reykv., aðrar en þær, er hann sagði, að við mundum hafa hnuplað hugmyndinni í frv. Veit jeg ekki, hvað hann á við með þessu, því að jeg veit ekki betur en till. fiskiþingsins hafi verið birtar í blöðunum og lesnar bæði af mjer og öðrum. Þessar till. hafa vakað fyrir fleirum, t. d. nefnd þeirri, er stjórnin skilaði í fyrra, fyrir þáltill. frá sjúvtn. Ed., og flokksbróðir hv. þm. (SÁÓ) hafði framsögu fyrir. Hv. 4. þm. Reykv. gat þess, að fyrir sjútvn. lægju nú till. um lánsstofnun, slíka og hjer um ræðir. Það er rjett, en þessar till. er hv. nefnd ennþá ekki farin að taka til neinnar alvarlegrar meðferðar, og er þó komið langt fram á þingtímann. Á hinn bóginn höfðu þeir menn þetta mál til meðferðar, sem eru flokksmenn hv. þm. (SÁÓ), svo að auðsætt er, að margar stoðir hafa runnið undir það mál, eins og heyra má af orðum hv. þm. um það frv., sem komið er fram í Ed. En það er einmitt með svona mál, sem er nauðsynjamál og þarf að ganga fram, að þá er það ekki nóg, að uppástungur komi sín úr hverri áttinni, jafnvel þó að þær sjeu að einhverju leyti samhljóða, heldur þarf að koma þeim í þann búning, að þær geti orðið samþyktar á formlegan og löglegan hátt. Jeg býst við, að allir hv. þm. muni sjá það, að hjer er verið að flýta fyrir málinu, með því að færa það í frv.búning og bera það síðan fram í þinginu. Það er líka miklu þægilegra að fá málið svo, heldur en að fá það sem lauslegar hugmyndir, sem svo er eytt fleiri dögum í að ræða um, hvernig eigi að taka upp. Mjer finst, að hjer sje mun ljettara að bæta inn í því, sem þykir á vanta, heldur en ef ætti að búa það til af mönnum, sem kanske hafa gagnólíkar skoðanir á málinu. Við höfum þess vegna borið fram þetta frv., til þess að flýta fyrir málinu. Hv. þm. sagðist gjarnan vilja fylgja því, sem gott væri í frv., og minti mig um leið á eitt atriði í frv., sem jeg gleymdi að taka fram áðan. Það var um sjóveð. Við höfum tekið það fram, að þau lán, sem fiskiveiðasjóður veitti eftir hinni nýju skipun, þau gengi fyrir öðrum sjóveðum, og þetta er fram komið af því, að bátar eru orðnir algerlega óveðhæfir. Það er ekki hægt að fá nokkurt lán út á tryggingu í bátum eina saman, hve góður sem báturinn er, af þeirri ástæðu, sem hjer er um að ræða, að sjóveð liggur sem mara á öllum bátum, svo að engin lánsstofnun vill lengur líta við þeim sem veðhæfum. Þetta kemur alstaðar fram, fyrst og fremst hjá lánsstofnunum, ennfremur á fiskiþinginu, og loks kemur það sama fram í áliti nefndar þeirrar, sem stjórnin skipaði til að athuga þetta mál. En um þetta verður tækifæri til að tala nánar í nefndinni. Við flm. sáum okkur ekki annað fært en að taka þetta ákvæði upp í frv. Það gleður mig að heyra, að hv. þm. vill ljá þessu máli alt sitt lið, og jeg treysti því, að það geti tekist samvinna um það yfirleitt, að kippa þessu máli í lag á þann veg, sem viðunandi sje fyrir bátaútveginn, því að það er eitt, sem ekki má gleyma, að það eina, sem dugir í þessu efni, er, að ráðin sje bót á því vandræðaástandi, sem ríkir, að því er snertir lánsfje til þessa atvinnuvegar.