16.03.1928
Neðri deild: 49. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 440 í C-deild Alþingistíðinda. (1732)

128. mál, fiskiræktarfélög

Jón Auðunn Jónsson:

* Mjer finst óviðkunnanlegt ákvæði í 13. gr., að gjöld þau, sem fjelagsmenn eiga að greiða, hafi sama forgangsrjett í þrotabíti skuldunauts sem skattar eða gjöld til ríkisins. Þessi fjelagsskapur er stofnaður til þess eins að auðga fjelagsmenn, og þess vegna virðist engin þörf vera á því, að gefa þessum gjöldum sama rjett og opinberum gjöldum. Það eru svo margar skuldbindingar, sem menn gangast undir við samborgara sína, að jeg álít hreint ekki rjett að taka þetta út úr og gera því hærra undir höfði, þegar um þrotabú er að ræða, heldur en öðrum fjárskiftum.

Annars er það um matið á veiðinni að segja, að það er nokkuð óákveðið í frv. Ef fjelagsmenn eiga sjálfir að meta, get jeg hugsað, að komi oft upp óánægja og ágreiningur, sem gæti ef til vill valdið fjelagsslitum, og væri það illa farið. Jeg held það þurfi að búa eitthvað öðruvísi um — að hið opinbera, t. d. sýslumenn, skipuðu nefnd til þess að ákveða þessi gjöld. Stjórnarráðið á að staðfesta gjaldskrána, en jeg sje ekki, hvernig stjórnarráðið getur haft aðstöðu til að meta, hvort sú gjaldskrá, sem fjelögin setja, og samþ. kanske með minni hluta fjelagsmanna, sje rjett og skuli samþykt. Alt annað væri, ef fengnir eru af því opinbera menn, sem meta þetta á fjelagssvæðinu og gera sínar till. um gjaldskrána.

*Ræðuhandr. óyfirfarið af þm.