10.03.1928
Neðri deild: 44. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 816 í B-deild Alþingistíðinda. (174)

1. mál, fjárlög 1929

Ásgeir Ásgeirsson:

Jeg á hjer ásamt fleirum þm, till. um, að veittar verði 1500 kr., og til vara 1000 kr., til Unnar Vilhjálmsdóttur kenslukonu til þess að leita sjer lækninga við taugaveiklun. Hún var fyrst skólastýra á Vopnafirði, fór síðan til Akureyrar og kendi þar um hríð og gat sjer góðan orðstír. Svo varð hún fyrir því óhappi að fá mislinga og upp úr þeim þessa taugaveiklun, sem hefir gert henni ómögulegt að gegna störfum sínum. Fyrir ári síðan fór hún til Svíþjóðar til þess að leita sjer heilsubótar og dvelur þar nú í heilsuhæli. Læknar þar telja, að henni mun geta batnað; ef hún geti dvalið þar á annað ár, því þó batinn fari sjer hægt, þá sje hann þó öruggur.

Nú er efnum þessarar konu svo háttað, að ef hún fær ekki styrk, verður hún að hverfa strax heim. En það hljóta allir að sjá, hvílík hætta það er fyrir taugaveiklaða konu að fara undan læknishendi áður en batinn er fenginn. Mjög líklegt, að það verði til þess, að hún fái aldrei bata. Þörfin er því skýr, en upphæðin hverfandi lítil. Styrkur sá, sem hún fær úr lífeyrissjóði barnakennara, er svo lítill, að hann kemur að litlu gagni. Þessi fjárveiting verður ugglaust ekki langvarandi.

Vona jeg svo, að hv. deild samþykki þetta og skal jeg geta þess, að vart mun koma aftur til fjárveitingar í þessu skyni.