19.03.1928
Neðri deild: 51. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 447 í C-deild Alþingistíðinda. (1751)

133. mál, ófriðun sels í Ölfusá

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

* Eins og nál. á þskj. 432 ber með sjer, þá hefir meiri hl. landbn. lagt til, að þetta frv. á þskj. 346 yrði samþykt með nokkurri breytingu. Fyrri brtt., við 2. gr., a-liður, er, að það ákvæði sje sett inn í frv. að gjaldskyld skuli ekki einungis Ölfusá, heldur líka Hvítá og þær aðrar þverár, sem í hana falla. Nefndinni þótti rjettara, að þannig væri frá þessu gengið, svo að þeir menn, sem kyni að hafa nokkrar nytjar þess, að selnum er útrýmt í Ölfusá, tæki þátt í þeim bótum, sem greiða á, og fyrir mitt leyti get jeg, sem flm. frv., vel gengið inn á þessa brtt., eins og yfir höfuð þær brtt., sem hv. meiri hl. landbn. ber fram. Um b-liðinn er það að segja, að nefndin taldi rjettara, að ekki væri verið að eltast við mjög lítinn veiðiskap, til að greiða fyrir missi af selveiðinni. Það yrði svo umstangsmikið og svaraði ekki kostnaði að vera að eltast við flesta hreppa sýslunnar um það.

Önnur brtt. er um það, að lögin öðlist þegar gildi, og það ákvæði er sett vegna þess, að nauðsyn ber til, að þegar verði byrjað á því að útrýma selnum.

Nú þarf jeg ekki að fjölyrða frekar um þessar brtt. hv. meiri hl. landbn. Jeg vona, að hv. þdm. sjái, að þetta mál er þannig í eðli sínu, að það er í raun og veru ekkert einsdæmi. Þegar verið er að auka tekjur af landinu, þá er ekki verið að gera það aðeins fyrir líðandi stund; það er miklu meira framtíðarmál en svo, að það sje aðeins þeim til góða, sem þá lifa, þegar breytingin er framkvæmd. Það má geta nærri, að fyrstu árin verður ekki mikil hlunninda-aukning fyrir útrýming selsins. Áin fellur í mörgum kvíslum til sjávar; víðsvegar um þessa ála heldur selurinn sig, og á hæstu eyrunum í ánni eru sellátur, og þeir menn, sem takast á hendur að útrýma selnum, þurfa að kaupa sjer nælur og hafa báta, og svo verða þeir að hafa skotvopn. Það þarf enginn að hyggja, að þessi útrýming taki aðeins nokkra daga, það má sjálfsagt búast við, að hún standi yfir 2–3 ár.

Eins og getið var um í greinargerð þessa frv., halda sig þarna að staðaldri á annað þúsund selir í ánni, og þar sem staðhættir eru svo sem jeg hefi nú lýst, þá segir það sig sjálft, hversu langan tíma þarf til að reka þennan veiðivarg í burtu. Hinsvegar má geta því nærri, að ekki náist nærri allur sá selur, sem þarna er drepinn; nokkuð næst í nætur, og jeg býst við, að ádrættinum mætti haga þannig, að reyna að flæma hann niður eftir ánni til sjávar. En ekki er hægt að gera ráð fyrir því, að þeir menn, sem takast þetta á hendur, beri nokkuð verulegt úr býtum, upp í þann kostnað, sem þeir hafa, því að minst af þeim sel, sem drepinn verður, næst. En það er auðsætt, að með mikilli elju og ástundun má takast að flæma hann í burtu úr ánni.

Eins og grg. ber með sjer, eru aðeins nokkrir menn, sem hafa not af selveiði. Er að vísu ekki hægt að kalla að þau not sjeu mikil, en þó dregur nokkuð um þau. Nú er einnig svo um laxveiði í ánni, að fáir veiða, svo að nokkru nemi. Er hugsunin sú, að sömu mennirnir hafi forgöngu í útrýmingu selsins. Leiðir af því býsna mikinn kostnað fyrir þá. Þess vegna álítum við flm. þrír, og meiri hl. hv. nefndar, að sanngirnismál sje, að landið taki þátt í að greiða bætur að helmingi, á móti þeim, sem laxveiðahlunninda njóta, til þeirra, sem tekjur missa af selveiði í ánni.

Ef um lítinn kostnað væri að ræða og tekjur kæmu á móti, þá væri ekki að því að finna, þótt bændur yrði að greiða þessar bætur einir. En nú er svo ástatt sem sagt hefir verið, og því finst mjer of mikil smámunasemi lýsa sjer í því, að hafa á móti því, að varið sje nokkrum hundruðum króna í þessu skyni, ekki síst, þegar svo er ákveðið í frv., að bæturnar fari þverrandi eftir því sem laxveiði eykst, og falli með öllu niður, er hún nemur jafnmiklu og tapið af útrýmingu selsins nemur fyrir þá, er veiðinot höfðu af honum.

Mjer finst því öll sanngirni mæla með því að þessum tilmælum verði sint. En í þeirri afstöðu, er Alþingi tekur til þessa máls, felst meira en út lítur fyrir í fljótu bragði. Það getur verið góður prófsteinn um það, hvernig hv. deild lítur á umbótamál sem þessi. Það er ekki svo að skilja, að ef hv. þdm. vilja ekki votta máli þessu neinn skilning, þá er jeg ekki að knjekrjúpa þeim. Jeg geri ráð fyrir, að bændur geti komist af án þessarar hjálpar. En yfirleitt má telja það Alþingi til minkunar, hve seint hafa komist fram umbætur á löggjöf um hlunnindaaukningu og veiðimál, og hve skilningur á þeim málum hefir verið lítill. Í þessu eru aðalatriði þessa máls fólgin.

Jeg verð að segja það gagnvart brtt. hv. 2. þm. Eyf., að mjer þykir miður, að hann skyldi bera slíka till. fram, og ekki mundi jeg hafa lagst á móti honum í slíku máli sem þessu.

Það er ekki nokkur vafi, að hjer er að ræða um hagsmunamál, sem getur oltið á tugum þúsunda, þegar fram í sækir. Jeg vona, að hv. 2. þm. Eyf. sje svo kunnugur viðskiftum laxa og sela, að hann geti gert sjer í hugarlund, hve mikið af laxi muni sleppa upp eftir ánni, þar sem önnur eins selahjörð hefst við í árósunum.

Jeg mun láta þetta nægja að sinni og leggja málið undir manndóm hv. deildar.