08.03.1928
Neðri deild: 42. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 456 í C-deild Alþingistíðinda. (1769)

135. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Jón Auðunn Jónsson:

Af því að hv. aðalflm. þessa frv. (JörB) er ekki viðstaddur, skal jeg geta þess fyrir hönd okkar flm., að okkur þykir ekki ótilhlýðilegt, að fje þjóðleikhússjóðsins sje varið til einhverra menningarþarfa, á meðan ekki þykir fært að ráðast í byggingu leikhússins. Nú stendur svo á, að ríkið vantar fje til útvarpsins, og teljum við, að sjóðurinn sje ekki annarsstaðar betur ávaxtaður en í því ágæta og nauðsynlega fyrirtæki. Jeg vænti þess, að allir hv. þm. sje á einu máli um það, að ógerlegt sje að byrja á þjóðleikhúsinu, fyr en nægilegt fje er fyrir hendi til að reisa það. Rekstrarkostnaður þess verður áreiðanlega svo mikill, að ríkið mun eiga nóg með hann, þó að eigi bætist þar við meiri eða minni hluti stofnkostnaðar. Teljum við flm. því rjett, að ríkið fái umráð sjóðsins, þangað til hann er orðinn nógu stór til að standa straum af byggingunni. Þykist jeg eigi þurfa að skýra frekar ástæður frv. en leyfi mjer að leggja til, að því verði, að umr. lokinni, vísað til hv. mentmn.