10.03.1928
Neðri deild: 44. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 821 í B-deild Alþingistíðinda. (177)

1. mál, fjárlög 1929

Fjmrh. (Magnús Kristjánsson):

Jeg hafði ekki ætlað að tala nú, en það hafa komið fram nokkur ummæli út af áliti samgmn., sem jeg ætla að víkja að síðar. En úr því að jeg stóð upp, skal jeg geta þess um þær till., sem nú liggja fyrir, að þeim er svo farið, að mjög er erfitt að gera upp á milli þeirra. Í flestum tilfellum hafa hv. flm. töluvert til síns máls. En þar sem till. eru fram komnar, geri jeg ráð fyrir, að hv. flm. þeirra sjeu staðráðnir í því að styðja að því, að tekjuaukafrv. nái fram að ganga. Það er ekkert vit í því að ætlast til, að till. verði samþ., nema um leið sje sjeð fyrir því, að það fje, sem til þarf, sje fyrir hendi. Jeg skal geta þess, að þó að svo fari, að meira eða minna af þessum till. nái samþykki, læt jeg það afskiftalítið, því að það kemur fyrst til álita, þegar fjárlögin koma til umr. í hv. Ed., hvernig hin endanlegu úrslit verða. Verði mistök á þeim tekjuaukafrv., sem fyrir liggja, mun jeg gera alt, sem í mínu valdi stendur, til þess að útrýma þeim tekjuhalla, sem verða kann á fjárlögunum. Vænti jeg því, að hv. dm. skilji, að ekki er enn útsjeð um forlög hinna ýmsu liða á fjárlögunum.

Þá ætla jeg að minnast ofurlítið á samgöngumálin. — Mjer finst gæta ósamræmis í nál., þar sem ákveðið er þrengra svæði en verið hefir, sem Eyjafjarðarbátnum er ætlað að fara um, en hinsvegar stendur á öðrum stað, að styrkurinn sje veittur með því skilyrði, að ferðirnar sjeu þær sömu og áður. Hv. þm. N.-Þ. (BSv) hefir bent á það, að óheppilegt sje, ef till. háttv. nefndar um afmarkað svæði, sem bátnum sje ætlað að fara um, sje tekin bókstaflega, því að einmitt í Norður-Þingeyjarsýslu er þörfin allra brýnust, þar sem hún er vegalaus og hefir litlar samgöngur á sjó. Það kann að vera, að þessu megi breyta í Ed., en svo óheppilega vill til, að fyrir liggja tvennskonar tillögur frá báðum deildum, sem ekki er fult samræmi á milli. Hinsvegar er óhjákvæmilegt að binda ekki ferðir bátsins við afmarkað svæði, eins og nál. gerir.

Í þessu sambandi er rjett að minnast á, að það má heita furðulegt, að yfirpóstmeistari hefir tekið upp þá aðferð að draga til baka styrk, sem þessum báti hefir verið greiddur að undanförnu úr póstsjóði. Það er þegar búið að skýra það nægilega hjer, hve mikið hefir sparast á póstferðum á landi með þessum ferðum sjóleiðina. Að fella niður þann styrk þýðir ekki annað en að fá betri útkomu á póstreikningunum. Það má segja, að það sje að taka úr öðrum vasanum og láta í hinn. En þar sem samgmn. bæði fyr og nú hafa stefnt að því takmarki að einskorða styrkinn við 100 þús. kr., er erfitt við það að eiga, eins og allir sjá, þar sem einmitt hafa komið til sögunnar nýjar fjárveitingar, eins og til dæmis til Flateyjarbáts. Jeg hygg, að við megum ekki láta okkur vaxa í augum, þó að styrkurinn fari fram úr þeirri venjulegu upphæð, því að það sparast þá á öðrum liðum. En á því er enginn vafi, að póstmeistari gæti fallist á, að samskonar styrkur væri lagður fram eins og verið hefir, beinlínis af pósttekjunum. En Norður-Þingeyjarsýsla má ekki verða útundan. Það er atriði, sem jeg álít, að þurfi að athuga, þar sem upplýst er, að samningar hafi enn ekki tekist um Norðurlandsferðirnar, einmitt af þessari ástæðu. En eins og orðið er áliðið tímans, má ekki lengur dragast að kippa því í lag, hvort styrkurinn skuli greiddur úr póstsjóði eða í fjárlögunum. Jeg verð að segja, að mjer finst það furðu sæta, ef samgmn. getur ekki fengið þau skjöl frá undanfarandi árum, sem nauðsynleg eru, áætlanir og reikninga. Jeg skal ekkert um segja, hve mikið hún hefir gert til þess, en jeg skil ekki annað en að takast megi að fá skjölin. Það er orðið svo langt um liðið frá áramótum, að mönnum er engin vorkunn að hafa gert upp reikningana og staðið reikningsskap á gerðum sínum á liðnu ári.

Jeg vænti þess, að hv. samgmn. sjái um, að þetta ósamræmi verði lagað, úr því að þessi tregða frá yfirstjórn póstmálanna hefir valdið því, að samningar hafa ekki náðst um Norðurlandsbátinn. Annars gæti þetta orsakað glundroða í framtíðinni.