08.03.1928
Neðri deild: 42. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 465 í C-deild Alþingistíðinda. (1779)

135. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Bjarni Ásgeirsson:

Það, sem kom mjer til að flytja frv. þetta, var það, að ýmsar raddir heyrast, sem taka dræmt í það, að hægt sje að koma á þessu þjóðþrifafyrirtæki, viðvarpinu, vegna fjárskorts. Og ýmsir hafa haldið því fram, að ekki væri vert að leggja neitt að sjer til að koma því á stofn. En við flm. lítum svo á, að þetta sje svo mikilsvert mál, að það þoli enga bið. Þá komum við auga á þetta fje, sem liggur ónotað, og á að liggja ónotað enn um nokkur ár. Því þess verður að minsta kosti að krefjast, að nægjanlegt fje til að koma upp leikhúsi sje í sjóði, þegar byrjað verður á byggingunni. Rekstrarhalli verður áreiðanlega nægjanlegur, þótt ekki bætist þar við þungur baggi afborgana og vaxta. Þess vegna viljum við nota fjeð til bráðabirgða í svipuðu skyni, taka það til styrktar fyrirtæki, sem ekki má fresta. Auk þess er sameining þessara tveggja mála að mörgu leyti æskileg. Þjóðleikhússins sjálfs getur aldrei nema lítill hluti þjóðarinnar notið. En með öflugu víðvarpi er fundin leið til að öll þjóðin geti notið þjóðleikhússins að nokkru leyti. Í Danmörku er nú uppi sterk hreyfing fyrir slíku sambandi. Það má gera ráð fyrir, að svipað samband komist á hjer milli leikhússins og viðvarpsins, þegar stundir líða, og er þá vel til fallið, að þjóðleikhússjóðurinn sje notaður til að styrkja það í byrjun. Að sjálfsögðu yrðu þetta þó tvær sjálfstæðar stofnanir, viðvarpið og leikhúsið. Væri þó ekki nema sanngjarnt, að viðvarpsnotendur gyldu eitthvað til leikhússins, fyrir það, sem þeir nytu þaðan, og mundi viðvarpið þannig styrkja þjóðleikhúsið stórlega, þegar það kæmist á laggirnar. Hv. þm. Dal. sagði, að það væri óhyggilegt að stofna framtíð viðvarpsins á bráðabirgðaláni. En það eru einmitt bráðabirgðaörðugleikar, sem standa fyrir, og bráðabirgðahjálp, sem þarf. Fjeð fæst greiðast með þessu móti, og áður en til þess þarf að taka til leikhússins, mun verða hægt að útvega víðvarpinu rekstrarfje í staðinn. Jeg vil taka undir það, sem hv. 2. þm. Rang. sagði, að óhyggilegt er að festa fje í byggingu, sem á að standa yfir í mörg ár. Úr því að fjeð er komið í bygginguna, gefur það ekki vexti, og telja má víst, að byggingarkostnaður lækki fremur en hækki. Það er því fjarri því, að verið sje að bregða fæti fyrir leikhúsið, þótt ákveðið sje, að sjóðurinn sje hafður á vöxtum, þar til hann er orðinn nógu efldur til að standast allan byggingarkostnaðinn. En þegar víðvarpið er komið á rekspöl, verður það hinsvegar til að ljetta undir með þjóðleikhúsinu.