08.03.1928
Neðri deild: 42. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 467 í C-deild Alþingistíðinda. (1780)

135. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Sigurður Eggerz:

Það er einungis stutt athugasemd. Jeg vil aðeins leyfa mjer að benda á þá örðugleika, sem framþróun leiklistarinnar hjer á landi hefir átt við að stríða. Þrátt fyrir ótrúlegan dugnað og áhuga þeirra manna, sem við leiklist hafa fengist, hafa örðugleikarnir reynst svo miklir, að stundum hefir víst legið við, að leggja yrði árar í bát. Jeg efast um, að það sje holt fyrir menningu þjóðarinnar, að tekið sje svo hörðum tökum og kuldalegum á leikhúsmálinu. Jeg er hræddur um, að þessi leiklistarfrjóangi fari forgörðum. Mjer finst ekki gæta nægilegs skilnings í umræðunum, á þýðingu leiklistarinnar fyrir menningu þjóðarinnar. Mörgum mönnum finst, að hraða þurfi byggingunni sem mest, og að með þessu frv. sjeu óheppilegar hömlur lagðar á málið. Jeg er einn í hópi þessara manna. Ef leiklistin nær að þroskast hjer, svo að skapist möguleikar fyrir rithöfunda á því sviði — fyrir leikritaskáld — þá hefir það stórkostlega þýðingu fyrir menningarlíf þjóðarinnar; jafnvel meiri þýðingu heldur en útvarpið. En skilyrðin til þess eru, að hjer rísi upp leikhús. En þá munu líka rísa hjer upp leikritaskáld, sem skapa þau listaverk, er hafa gildi bæði í nútíð og framtíð. Hvað mikla þýðingu gæti það ekki haft fyrir þjóðina, ef hún eignaðist verulega gott háðskáld, sem gæti sýnt okkur í spegli bresti aldarfarsins? Hjer er sannarlega þörf á snjöllu háðskáldi. Slík skáld hafa meiri áhrif en margan grunar. En þetta er aðeins ein tegund listarinnar, sem þjóðleikhús mundi koma fótunum undir. Leikhúsið er grundvöllur þeirrar mest lifandi listar, sem til er. Þeir, sem nú vilja taka fje leikhússins og setja í útvarpið, munu verða illa undir það búnir, að greiða það, ef útvarpið ber sig illa. Og þótt það beri sig, má samt ekki búast við því, að það geti skilað fjenu fljótt aftur. Jeg vil biðja hv. þm. að hugsa sig tvisvar um, áður en þeir með þessu fara að reyna að kippa fótunum undan þeim áhuga, sem liggur að baki þjóðleikhúsmálinu.