17.02.1928
Neðri deild: 25. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 474 í C-deild Alþingistíðinda. (1800)

45. mál, forkaupsréttur kaupstaða á hafnarmannvirkjum o.fl.

Sveinn Ólafsson:

Mjer finst tæpast eiga við, að þetta frv. gangi áfram umræðulaust. Það lá fyrir síðasta þingi og var því þá vísað til stjórnarinnar, við 3. umr., vegna galla, sem á því voru og eru, og ekki verður bætt úr, nema með því móti að breyta því að miklum mun.

Jeg býst við, að flestum háttv. deildarmönnum, er sæti áttu á síðasta þingi, sje í minni á hverju þetta mál strandaði þá. Það er augljóst, að frv. stangast við forkaupsrjettarlögin frá 1926 og getur ekki staðist samhliða þeim. Ef þetta frv. á að verða að lögum óbreytt, þarf að breyta lögunum frá 1926. Í þeim er forkaupsrjetturinn að löndum eða jörðum hjá börnum, kjörbörnum, fósturbörnum, systkinum og foreldrum seljandans; en að þeim frágengnum er forkaupsrjetturinn hjá ábúanda jarðarinnar, eða leigjanda. Í þriðja og síðasta lagi lendir hann til hreppsfjelagsins, að öllum fyrtöldum aðiljum frá gengnum.

Ef þetta frv. fer lengra en komið er, þá verður ekki hjá því komist að vísa því til nefndar til vendilegrar athugunar. Það hlýðir ekki, að láta forkaupsrjettarlögin frá 1926 standa óbreytt, ef á að fara að samþ. þetta frv. En jeg sje reyndar ekki neina ástæðu til, að það fari lengra en komið er.

Það getur vissulega oft að borið, að bæjarstjórnum eða hreppsnefndum sje nauðsyn á eignarumráðum hafnarmannvirkja, lóða eða landa, sem einstakir menn eiga. Þau eignarumráð hefir Alþingi oft veitt, samkvæmt stjórnarskránni, eftir eignarnámsheimildum í sjerstökum lögum, og er það ólíku hyggilegra en sjálfdæmi bæjarstjórna eftir frv. Hafnarlög gefa líka sveita- og bæjarfjelögum rjett til þess að ná umráðum yfir hafnarmannvirkjum, með einföldum hætti, en í versta falli má altaf leita til Alþingis um eignarnámsheimild, og mun það aldrei daufheyrast við sanngirniskröfum aðilja, þegar nauðsyn kallar að.

Loks vil jeg svo leggja til, að málinu verði vísað til allshn., ef frv. flýtur gegnum þessa umr., sem jeg sje enga þörf á.