26.01.1928
Efri deild: 7. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 476 í C-deild Alþingistíðinda. (1805)

46. mál, einkasala á síld

Flm. (Jón Baldvinsson):

Það má segja, að þetta mál sje enginn nýr gestur hjer á þingi, því að á mörgum undanförnum árum hafa legið fyrir tillögur til að koma skipulagi á verslun og útflutning á saltaðri síld. Því hefir enn ekki tekist að koma neinum þeim tillögum fram á Alþingi, er bætt geti það ástand, er síldarútvegurinn er sokkinn niður í.

Á Alþingi 1926 var, að tilstuðlan hinna helstu síldarútgerðarmanna, samþ. heimild ríkisstjórninni til handa um að veita fjelagi síldarútvegsmanna einkasölu á síld til útflutnings. En af fjelagsstofnun í þessu skyni hefir ekkert orðið, eftir því sem jeg veit best, enda held jeg, að mjer sje óhætt að fullyrða, að ríkisstjórnin hafi ekki á neinn hátt notað heimildarlögin enn sem komið er. Hvað valdið hefir því, að ríkisstj. hefir ekkert gert í þessu efni, skal ósagt látið, en hitt virðist þó ekki fjarri, að geta sjer til, að hún hafi ekki haft trú á þessu skipulagi í framkvæmdinni, enda mætti benda á, að þegar í upphafi, eða á þinginu 1926, sáu ýmsir þá ágalla, er verða mundu þessu máli að falli; meðal annars var þá bent á, að erfitt mundi reynast í framkvæmdinni að stofna fjelagið og búa um það á tryggilegan hátt.

Með þessu frv. er farið fram á, að ríkið taki að sjer einkasölu á útfluttri síld og síldarafurðum, sem jeg fyrir mitt leyti hefi meiri trú á, heldur en að slík einkasala sje í höndum einstakra manna. Þetta fyrirkomulag, einkasala ríkisins, hefir marga kosti í mínum augum. Út á við mundu ekki rísa upp neinar deilur um það, þó að ríkið tæki að sjer slíka einkasölu, en hinsvegar mjög mikil hætta á, að erlend ríki mundu leggjast fast á móti því, að fjelag einstakra útgerðarmanna færi með einkasöluheimildina, eins og lögin frá 1926 ætlast til.

Þessi breyting er í mínum augum einn af aðalkostum frv. Því að það er mikilsvert, að slíkt fyrirtæki eins og síldareinkasalan standi þannig gagnvart erlendum ríkjum, að engin ástæða sje til þess, að gruna hana um hlutdrægni. Og svo er hinn kosturinn, að þá er ríkiseinkasalan hefir undir höndum alla síldarframleiðsluna, getur hún miðlað saltaðri síld á markaðinn eftir þörfum, og með því móti haldið verðinu uppi. En alt yrði þetta auðveldara, heldur en nú á sjer stað, á meðan leppmenskan þróast og heldur áfram, eins og reynsla undanfarandi ára hefir sýnt. Það má líka í þessu sambandi benda á, sem sjerstaka ástæðu fyrir því, að ríkið hafi síldareinkasölu með höndum, að það hefir verið álitið, af kunnugum mönnum, að síðastl. haust hefði verið hægt að selja meira til Rússlands en þessar 25 þús. síldartunnur, sem skrapað var saman; en þegar til átti að taka, var ekki um meiri síld að ræða í höndum innlendra manna, sem hægt var að selja á nýja markaði. Yfirrráð útlendra manna yfir síldarframleiðslunni voru svona mikil. Það er líka vitanlegt, að útlendingar, sem stunda hjer veiði, vildu gjarnan sjálfir vera þeir, sem sendu Rússum, eða öðrum þar í Eystrasaltslöndunum, framleiðslu sína.

Nú hefir á undanförnum þingum, í þeim frv., sem legið hafa fyrir um sölu á síld, aðeins verið talað um salt- og kryddsíld. En það er ekki nema hálfnað verk. Því þó að ríkið taki í sínar hendur söluna, þá er ekki hægt að hafa hönd í bagga með, að hæfilega mikið sje saltað af síld í miklum aflaárum. Þess vegna álíta margir, sem við útgerð þessa fást, að mjög nauðsynlegt sje að taka síldarverksmiðjurnar undir einkasöluna.

Í frv. þessu er aðeins talað um verslun með síld og síldarafurðir, en af því að síldarverksmiðjumálið er undir rannsókn hæstv. ríkisstjórnar, þá er ekki lengra farið í þessu efni. Jeg geri líka ráð fyrir, að flestir hv. þdm. hafi hlýtt á hið mjög fróðlega erindi, sem hv. 3. landsk. (JÞ) flutti í gær, enda mun von á tillögum frá honum viðvíkjandi rekstri síldarverksmiðju á Norðurlandi. Annars vil jeg í áframhaldi af þessu frv. taka þegar fram, að mín skoðun er sú, að nauðsynlegt sje, að ríkið ætti einnig verksmiðjurnar. En á meðan það er ekki, verður óhjákvæmilegt, að samband sje á milli síldareinkasölu ríkisins og verksmiðjanna, svo að hægt sje að jafna á milli, þannig, að saltsíldarmarkaðurinn sje jafnan trygður, en að afgangurinn eða ónothæf síld til söltunar fari í verksmiðjurnar. Í aflaleysisárum, sem altaf koma við og við, verða verksmiðjurnar að standa tómar, ef ekki aflast meira en saltað verður niður til þess að fullnægja markaðseftirspurninni. En gott verð á saltaðri síld á þá að bæta það tap upp, sem verður á verksmiðjunum.

Því að frv. gangi ekki lengra nú en að taka aðeins til sölu síldar og síldarafurða, þá gæti jeg trúað, að seinna á þinginu, þegar fyrir liggur rannsókn síldarverksmiðjumálsins, að þá verði tekin afstaða til síldarverksmiðjanna yfir höfuð, og mætti þá bæta inn í frv. því, sem nauðsynlegt þætti. Annars get jeg minst á eitt atriði frv., sem jeg tel allmikilsvert, það er gjald það, 2%, sem leggja skal á síldina til þess að útvega nýja markaði, en jafnhliða því er gert ráð fyrir, að útflutningsgjald af síld falli niður. Með því að ríkið hafi fje til umráða í þessu skyni, er hægt að vinna að því, að koma síldinni inn á nýja markaði. Í því sambandi gæti einnig komið til greina að kaupa síld, sem send yrði hreint og beint ókeypis, sem sýnishorn, til þeirra staða eða landa, sem líklegt mætti telja, að hægt mundi að selja til, er stundir líða. Þetta mál er svo mikill þáttur í atvinnulífi okkar, að því verður ekki lengur skotið á frest, að koma á skipulagi, sem ekki aðeins snertir veiðina, heldur nái það einnig til verksmiðjanna og sölunnar. Það er svo mikið í húfi, ekki aðeins fyrir fjölda verkalýðs, heldur og alla aðra, sem nærri þessum útveg standa, að kosta verður kapps um, að hann fari sem best úr hendi.

Eins og gengið hefir að undanförnu, hafa Íslendingar haft bæði skaða og skömm af því, að fást við síldarútveg. Og er hart að þurfa að segja það, eins mikið og hægt væri að hafa upp úr þessum rekstri, ef honum væri hagkvæmlega stjórnað.

Jeg ætla ekki að þessu sinni að orðlengja frekar um málið, en mælist til, að hv. deild lofi frv. að ganga til 2. umr. og hv. sjútvn., til nánari athugunar.