26.01.1928
Efri deild: 7. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 480 í C-deild Alþingistíðinda. (1808)

46. mál, einkasala á síld

Flm. (Jón Baldvinsson):

Háttv. 3. landsk. getur ekki sagt, að það sje óþarfi að ræða þetta mál, sem verið hefir eitthvert mesta vandamál á undanförnum þingum. Því að alt frá 1921 hafa útgerðarmenn og aðrir, sem nærri þessum útveg standa, lagt það til, að komið yrði með lögum skipulagi á þennan atvinnuveg. Í þessu skyni hafa útvegsmenn snúið sjer til þingsins hvað eftir annað, þótt lítinn árangur hafi borið.

Hv. 3. landsk. vísaði til núgildandi laga — heimildarinnar frá 1926 — þar sem ríkisstjórninni er heimilað að veita fjelagi útgerðarmanna leyfi til að taka að sjer einkasölu á síld. En jeg vil spyrja hann: Hvers vegna veitti hann ekki, eða hans stjórn, þetta leyfi, eða beitti sjer að einhverju leyti fyrir því, að slíkur fjelagsskapur kæmist á stofn, sem heimildarlögin gera ráð fyrir?

Þó að jeg væri vantrúaður á, að sú breyting mundi til bóta, hefði jeg þó kunnað því betur, að eitthvað hefði verið reynt, svo að ljóst yrði, á hvern hátt þyrfti að breyta lögunum frá 1926. Hefðu lögin reynst góð og hagkvæm í framkvæmdinni, hefði jeg vitanlega ekki borið fram frv. þetta. En að lögin hafa ekki enn komið til framkvæmda, þykir mjer líklegt að stafi af ýmsum þeim ágöllum, er bent hefir verið á, að gera mundu vart við sig, er á reyndi.

Jeg get látið mjer nægja að svara hæstv. dómsmrh. þessu sama. Hann álítur, eins og hv. 3. landsk., að óþarft sje að setja lög um þetta efni, og að heimildarlögin frá 1926 dugi. Því undarlegra er þetta, þegar þess er gætt, að vegna skipulagsleysis á þessu sviði er nú alment viðurkent, að síldarútvegurinn sje í kaldakolum. Og svo litla trú hafa bankarnir á þessum rekstri, að mjer er sagt, að bankastjórarnir virði ekki þá menn svars, eða reki þá blátt áfram út, sem minnast á að fá lán til þess að gera út á síld.

En þó er sú hliðin kanske alvarlegust á þessu máli, að verkalýðurinn fær lítið eða ekkert kaup fyrir vinnu sína. Það skiftir nú tugum þúsunda, sem norðlenskir verkamenn eiga hjá síldarútvegsmönnum, sem tapað hafa ógrynnum fjár á þessu skipulagsleysi, sem lýst hefir sjer í „frjálsu samkeppninni“ um síldarframleiðsluna. Jeg sje því ekki betur en að rök hæstv. dómsmrh. og hv. 3. landsk. sjeu einskis virði og báðir sjeu í sameiningu að vinna að því, að þessi útvegur haldist áfram í sömu óreiðunni og verið hefir, í staðinn fyrir að stuðla að breyttu skipulagi, svo að útvegur þessi gæti orðið mikil tekjugrein fyrir almenning þann tíma, sem ekki borgar sig að reka þorskveiðarnar.