31.01.1928
Efri deild: 10. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 485 í C-deild Alþingistíðinda. (1813)

53. mál, friðun á laxi

Flm. (Guðmundur Ólafsson):

Greinargerð fyrir þessu frv. á þskj. 56 er svo ítarleg, að óþarft er að bæta þar miklu við. Tilgangurinn með frv. er sá, að tryggja betur frjálsa göngu laxins í árnar og stuðla að því, að hann komist tálmunarlítið á hrygningarstaðina.

Það er ekki undarlegt, þótt fram komi breytingar á þessum lögum, sem nú eru komin á fimtugsaldur. Hefði sjálfsagt þurft að breyta þar fleiru en frv. fer fram á, en jeg er ekki nægilega fróður í þessum efnum hvarvetna á landinu, og hefi því látið þessar breytingartillögur nægja, sem fram eru teknar í frv.

Jeg tel þó, að þessar breytingar á frv. sjeu til mikilla bóta, sjerstaklega að lengja tímann úr 36 stundum á viku í 60 stundir, og eins það, að ekki sje hægt að leggja í blá-ósa ánna, heldur tiltekna vegalengd frá ósi árinnar; og þá er það þýðingarmikið, að minsta kosti þar sem jeg þekki best til, að veiðitíminn byrji ekki fyr en 1. júní. Sumar breytingarnar, eins og t. d. í 4. gr., eru mjög smávægilegar og aðeins gerðar vegna þess, að viðkunnanlegra þykir að hafa cm. í stað þumlunga, þar sem það mál er nú notað.

Ennfremur er það auðsjeð, að sektir fyrir brot á lögunum frá 1886 eru langt of lágar eftir núgildandi peningaverði, og ræður frv. nokkra bót á því.

Vænti jeg þess, að hv. deild taki frv. vel, og leyfi mjer að stinga upp á því, að frv. verði, að þessari umr. lokinni, vísað til landbn.