09.02.1928
Efri deild: 18. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 495 í C-deild Alþingistíðinda. (1830)

75. mál, verkakaupsveð

Flm. (Erlingur Friðjónsson):

Jeg sje ekki ástæðu til þess, að bæta miklu við frv. um þetta mál.

Með frv. þessu er farið fram á það, að verkafólki, er vinnur við síldarútgerð, sje trygð greiðsla á kaupi sínu með forrjettarveði. Eins og hv. deild er kunnugt, á þetta fólk rjett á því, samkv. núgildandi lögum, að fá verkakaup sitt goldið vikulega, en þar sem jeg þekki til, vill oft verða mikill misbestur á því, að lögunum sje hlýtt í þessu efni, og er því frv. þetta fram komin. Frv. þetta á að fyrirbyggja þau vanskil á kaupgreiðslu, er orðið hafa hjá sumum atvinnurekendum, er stundað hafa síldarútgerð, einkum norðanlands. Þótt lögin verði ekki haldin, um vikulega kaupgreiðslu, og þótt svo kunni að fara, að dragist að greiða kaupið þar til vinnutíminn er á enda, þá ætti með frv. þessu að gefa fólki þann möguleika, að fá kaup sitt greitt með því að ganga að þessu veði. Fyrst fólkið er ekki kröfuharðara en það, að það lætur það viðgangast, að fá ekki kaup sitt greitt fyr en á haustnóttum, þegar vinnu er lokið, aðeins vegna þess, að vinnukaupandinn á erfitt með að greiða kaupið, þá virðist full ástæða til þess, að úr þessu verði bætt. Fólkið lánar þannig atvinnurekendum fje það, er felst í ógoldnu kaupi, og afleiðingin verður sú, eins og getið er um í greinargerðinni, að til þess eru dæmi að verkafólk á eftir kaup fyrir þrjú ár samfleytt, og það hjá sama vinnukaupanda. Það er þess vegna bæði sanngjarnt og eðlilegt, að fólk, sem vinnur fyrir daglegu kaupi, fái kaup sitt greitt fljótt, og í raun og veru eigi kaupið forgangsrjett fyrir öðrum kröfum. Þetta næst aðeins með lagaboði, og það er þetta, sem frv. fer fram á.

Tel jeg svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða um þetta meira, en óska þess, að frv. fái að ganga til 2. umr. og allshn.