13.02.1928
Efri deild: 21. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 500 í C-deild Alþingistíðinda. (1845)

81. mál, atvinnurekstrarlán

Flm. (Jón Þorláksson):

Tilgangur okkar flm. þessa frv. er sá, að hreyfa uppástungum í þá átt, að gera smærri framleiðendum, bæði til sjávar og sveita, mögulegt að fá rekstrarlán, svo að þeir geti notið sömu hlunninda og stærri atvinnurekendur af beinum peningaviðskiftum.

Jeg þarf ekki að lýsa þörfinni á því, að fá slíkt veltufje. Hún er öllum kunn. Þó að peningaviðskifti í landinu hafi stórum aukist, síðan Landsbankinn var stofnaður, 1885, þá fer því fjarri, að þau sjeu hjer tiltölulega eins mikil og í öðrum löndum, og sjerstaklega eiga smábændur miklu erfiðara með að nota sjer þau hjer en þar. Þetta hefir verið sjerstaklega tilfinnanlegt í því mikla peningaróti, sem átt hefir sjer stað undanfarin ár. Og því miður munu verslunarskuldir vera eins almennar nú hjer á landi og þær voru fyrir hálfum öðrum tug ára. A. m. k. hefir ekkert unnist á um það, að losa bændur við þær. Sú tilhögun, sem við stingum upp á, er bygð á þrem meginatriðum:

Í fyrsta lagi er það nauðsynlegt, til þess að sem flestum geti orðið stuðningur að lánsfjenu, að það komi frá peningstofnunum, sem til eru í hverju hjeraði. Það má teljast alveg ókleift fyrir, allan þorra manna, að sækja rekstrarlán burt úr hjeraði, sjerstaklega ef ekki ætti að vera nema ein lánsstofnun í öllu landinu. Við álítum því eðlilegast, að þau lán, sem hjer ræðir um, sjeu verkefni lánsstofnana, sem til eru eða til verða í hverju hjeraði. Ákvarðanir um veitingu rekstrarlánanna verður að byggja á kunnugleika milli lánveitanda og lántakanda.

Í öðru lagi viljum við láta stofna smáfjelög til þess að tryggja slík lán gagnvart lánveitanda. Það, sem nú veldur aðstöðumismun milli stærri og smærri atvinnurekenda, til þess að fá rekstrarlán, er fyrst og fremst það, að stærri atvinnurekendur hafa handbæra tryggingu fyrir láninu, en hana hafa einstakir smá-atvinnurekendur oftast ekki. Því er eðlileg leið fyrir þá að gera með sjer fjelagsskap, lánunum til tryggingar. Við höfum sett í frv. ákvæði til þess að gera slíkan fjelagsskap sem öruggastan út á við, svo að hann gæti verið örugg ábyrgð fyrir lánveitanda, en jafnframt leggjum við áherslu á, að hann verði einnig tryggur inn á við, svo að fjelagsmönnum stafi engin hætta af sameiginlegri ábyrgð. Þess verður að gæta stranglega, að halda hverjum slíkum fjelagsskap innan svo þröngra takmarka, að næg þekking sje fyrir hendi innanfjelags á hag hvers einstaks fjelagsmanns. Viljum við því yfirleitt taka upp þá reglu, að eitt fjelag sje í hverjum hreppi, því að innansveitar þekkja menn að öllum jafnaði hver annars ástæður, enda munu menn alment ekki telja mikla áhættu að taka á sig sameiginlega ábyrgð fyrir sveitunga sína, innan þeirra takmarka, sem bestu menn sveitarinnar telja forsvaranlegt. Þó viljum við ekki algerlega einskorða fjelögin við hreppa, því að skifting hreppa er ekki alstaðar allskostar hagkvæmm með tilliti til atvinnu manna. En til þess að víst sje um það, að eigi skorti kunnleika milli fjelagsmanna, viljum við ákveða hámark fjelagatölu í hverju fjelagi, ef það er ekki bundið við takmörk eins hrepps.

Þriðja atriðið er, hversu fjárins skuli aflað. Við höfum stungið upp á, að heimila stjórninni að ábyrgjast lán fyrir Landsbankann, eða sparisjóðsdeild hans. Þessi leið virðist vera eðlilegust, eins og peningamálum okkar er nú komið. Við höfum nú nýlega ákveðið að breyta Landsbankanum, eða hluta af honum, í seðlabanka. Með því er lagður grundvöllurinn að því, að sá hluti bankans geti orðið með sama sniði og seðlabankar annara þjóða. En í öðrum löndum eru viðskifti seðlabanka að mestu leyti við aðrar peningastofnanir. Og það er það eitt af eðlilegum viðfangsefnum seðlabankans að stuðla að því, að öðrum peningastofnunum geti vaxið svo fiskur um hrygg, að þær geti tekið að sjer nokkuð af þeim viðskiftum, sem á Landsbankanum hvíla nú.

Að forminu til er alt frv. heimildarlög. Við flm. álitum ekki rjett að setja lagaþvingun á neinn í þessu efni, hvorki landsstjórnina, Landsbankann eða aðra. Þörfin fyrir þessi lán er svo rík, að undir eins og heimild er fengin, hlýtur, að áliti okkar, þörfin að knýja til framkvæmda. Það er von okkar, að allir, sem okkur eru sammála um þörfina, muni hjálpa okkur að koma málinu í framkvæmd.

Að svo stöddu ætla eg ekki að fara fleiri orðum um málið. Jeg er þess reiðubúinn að gefa frekari skýringar, þegar við þessa umræðu, ef þess væri óskáð. Legg jeg til, að málinu verði, að umræðu lokinni, vísað til hv. fjhn.