03.04.1928
Efri deild: 64. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 542 í C-deild Alþingistíðinda. (1867)

81. mál, atvinnurekstrarlán

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg hefi ekki sjeð ástæðu til að ræða um málið fyr, af því að öllum var fyrirsjáanlegt, að frv. þetta er svo ófullkomið að öllu formi, að það getur ekki náð fram að ganga í sinni núverandi mynd. En um efni þess er annað að segja. Að efni til stefnir frv. í rjetta átt, þótt búningurinn geri það gagnslaust eða minna en það. Því síður hefi eg sjeð ástæðu til að sinna því, þar sem formaður núverandi stjórnar hefir síðan í haust unnið að undirbúningi fullkomins landbúnaðarbanka.

Jeg ætla ekki að fara út í það, hvað mæli helst með og á móti þessu máli, því að það hefir verið gert af öðrum. En jeg vildi leyfa mjer að beina þeirri fyrirspurn til hv. 1. þm. G.-K. og hv. 3. landsk., hvort þeir búist við að verði hægt að hagnýta þá viðskiftareglu, sem þeir hafa ætlað þessari deild að nota, í hinum almennu viðskiftum bankanna, þ. e. að láta útvegsmenn og kaupmenn borga upp öll atvinnurekstrarlán fyrir jól, og ef einhver stendur ekki í skilum, þá að svifta hann um leið öllum frekari viðskiftamöguleikum. Þetta skiftir náttúrlega mjög miklu máli fyrir Landsbankann, sem bæði hefir mikil viðskifti við ýmsa atvinnurekendur, og einnig endurkaupir víxla af hinum bankanum, þannig, að menn segja, að mestur hluti af hans lánum sjeu atvinnurekstrarlán.

En það er nú mála sannast, að báðir bankarnir hafa orðið fyrir allmiklum töpum á atvinnurekstrarlánum sínum.

Ennfremur vildi jeg spyrja þessa hv. þm., hvort ekki væri rjett að 10–20 útgerðarmenn eða kaupmenn, með svona ábyrgð, stæðu á bak við öll bankaviðskifti þeirra stjetta?