03.04.1928
Efri deild: 64. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 543 í C-deild Alþingistíðinda. (1868)

81. mál, atvinnurekstrarlán

Jón Þorláksson:

Hv. 5. landsk. vildi halda því fram, að ekki væri hægt að nota ameríska lánið til þessa atvinnurekstrarlána, því það ætti að greiðast árlega, en þau mundu ekki greiðast á gjalddaga. En þessar upplýsingar hans eru ekki rjettar. Það er að vísu rjett, að reikningslán ber að greiða upp árlega. En þar sem föst viðskifti eru komin á milli banka, þá er það jafn algengt, og má næstum því heita föst venja, að þau sjeu endurnýjuð frá ári til árs. Og það, að alt ameríska reikningslánið var ekki endurnýjað, heldur aðeins helmingur þess, stafar af því, að Landsbankinn hjer óskaði ekki eftir því að fá endurnýjun á meiru. Það var því ekki vegna þess, að nokkuð væri því til hindrunar að fá það alt, heldur aðeins af því, að lántakandi óskaði ekki eftir meiru.

Hvað snertir greiðslu atvinnurekstrarlánanna, þá geri jeg ráð fyrir, að þau greiðist öll á gjalddaga, og við það miðast öll tilhögun þeirra. Það er nefnilega miðað við það, að þau sjeu greidd um leið og sala afurðanna fer fram. Og venjulega munar það ekki miklu, nær hún fer fram frá fyrstu hendi til annarar. Aftur á móti getur það vel dregist hjá heildsalanum að selja, því það er oft svo, að hann fer eftir því, hvenær erlendi markaðurinn er honum hentugastur. Aftur á móti bregst það varla, að salan frá fyrstu hendi til annarar fari fram á sama tíma árs, og við það er greiðslan miðuð í hvert sinn. Alt annað er það, hvort rjett sje, að bankastjórnin noti ameríska lánið til þessa. Bankastjórnin mun líta svo á, að það sje ekki rjett, því það eigi að vera nokkurskonar varasjóður, sem bankinn geti gripið til, ef í harðbakka slær, og sje því ekki rjett að skerða það með útlánum á venjulegum árum. Nú er sú upphæð, er bankinn hefir af þessu láni, 1 milj. dollarar. Og sökum þess, að við gerum ráð fyrir því, að heldur muni þurfa lítið til þeirra atvinnurekstrarlána fyrstu 2 árin, þá lítum við svo á, að það muni ekki skerða þennan varasjóð bankans tilfinnanlega, þó ameríska lánið verði notað í þessu skyni. Auk þess er ekkert því til fyrirstöðu að hafa lánið hærra, ef með þarf, svo bankinn geti haft eina miljón dollara upp á að hlaupa aukreitis, en samt haft nóg fje til þessara lána.

Það hefir hvergi komið fram í umsögn bankastjórnarinnar, að hún telji þetta óframkvæmanlegt, eins og háttv. þm. sagði. Um það hefir hún ekkert sagt. Bankastjórnin hefir aðeins fært til ástæður fyrir því, að hún telur rjett, að seðlabankinn fáist ekki við þessa starfsemi. En eins og nál. okkar 1. þm. G.-K. ber með sjer, þá erum við ósammála bankastjórninni um það. Við höldum því fram, að það sje rjett, að Landsbankinn annist þetta, því öll útvegun þess fjár, er þarf til þessara atvinnurekstrarlána, yrði miklu erfiðari, af aðrir en bankastjórnin ættu að vera í útvegum um það. Að þessi lög sjeu sett í trássi við Landsbankastjórnina er ekki hægt að segja, því í fyrsta lagi eru þetta aðeins heimildarlög, og hinsvegar er það bankaráðið, en ekki bankastjórarnir, sem er yfirstjórn bankans. Bankaráðið í heild hefir ekkert sagt um þetta, en einn bankaráðsmaðurinn er flm. þess. Jeg fyrir mitt leyti sje ekki ástæðu til þess að ætla, að ekki sje forsvaranlegt, að Landsbankinn hafi útvegun um þetta, ef fjeð, sem tekið er að láni, er nokkuð takmarkað og þess gætt vandlega, að tryggingar sjeu góðar, þegar lánað er út aftur. — það, sem jeg sagði um auðmýkt hv. 5 landsk., byggist á því, að hann er ósammála bankastjórninni, en ætlar samt að láta hennar skoðun ráða atkv. sínu við 3. umr., eftir að hafa farið eftir sinni eigin við 2. umr. Hjá mjer er ekki hægt að benda á neitt slíkt í minni þingsögu.

Ef þessu frv. verður vísað frá, þá er engin von til þess, að menn úti um land hefjist handa til þess að undirbúa slíkan fjelagsskap, því að þá gætu þeir átt á hættu, að það yrði ekki annað en árangurslaust erfiði, því engin vissa er fyrir því, að hæstv. stjórn starfaði þá nokkuð af þessu. Miklu meiri líkur væru til þess, að heppileg úrlausn fengist, ef það væri samþykt hjer í Ed. og svo látið ganga sinn venjulega gang gegnum þingið. Annars tók nú hæstv. dómsmrh. vel undir þetta mál, og gat þess í því sambandi, að hæstv. forsrh. væri að undirbúa fasteignabanka, og gæti þá vel komið til mála, að hann annaðist þessi lán, ef Landsbankinn yrði ekki látinn gera það. Þá vil jeg og benda á það, að þó þetta verði samþ. nú og Landsbankinn hafi þetta með höndum til að byrja með, meðan lítið fje þarf, þá er ekkert því til fyrirstöðu, að þessu verði breytt seinna og milligangan þá falin annari stofnun. Það er því engin ástæða til þess að fella frv. vegna þess.

Þá spurði hæstv. dómsmrh. hvort við hefðum hugsað okkur, að atvinnurekstrarlán yfirleitt yrðu bundin því skilyrði, að að baki stæði ætið 10–20 manna ábyrgð og að þau skyldu öll greidd fyrir jól. Það get jeg ekki hugsað mjer að gert verði, enda er ekki farið fram á slíkt. Því það er alls ekki gert að skilyrði, að öll lán skuli veitt með þessu formi, sem hjer er gert ráð fyrir, og því ekkert til fyrirstöðu, að þau verði veitt undir öðru formi. Hjer er aðeins verið að stinga upp á tilhögun, sem er þess eðlis, að þeir, sem útundan hafa orðið, geti orðið slíkra lána aðnjótandi. Hitt er aftur á móti mjög misráðið, ef löggjafinn fer að setja of þröngar skorður fyrir því, með hvaða tilhögun peningastofnanir megi veita lán. Það, sem mestu á að ráða í þessum efnum, er vitanlega það, að þau lán, sem veitt eru, sjeu vel trygð, svo örugt sje, að þau tapist ekki. Get jeg vel tekið undir það með hæstv. dómsmrh., að þess muni ekki altaf hafa verið svo vel gætt undanfarin ár sem æskilegt hefði verið. Og þó þetta sje máske afsakanlegra hvað snertir lán, er veitt voru fyrir 1920, þá er jeg ekki viss um, að ávalt hafi verið gætt nógu mikillar varkárni í þessum efnum eftir þann tíma. — Að lokum ætla jeg svo að láta í ljós þá von mína, að þó svo fari, að þetta frv. verði ekki útrætt, að þá leggi enginn þá merkingu í það, að meining þess sje að banna að veita lán með öðrum hætti en stungið er upp á í frv. Tilgangurinn með því er sá, að reyna að finna leið til þess, að þeir smáu atvinnurekendur, er búa í fjarlægð frá peningastofnunum í Reykjavík, hafi betri aðstöðu til þess að afla sjer lána.