03.04.1928
Efri deild: 64. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 547 í C-deild Alþingistíðinda. (1869)

81. mál, atvinnurekstrarlán

Frsm. 2. minni hl. (Jón Baldvinsson):

Hv. 3. landsk. vildi bera það á mig, að jeg hefði haft skoðanaskifti í þessu máli. Að svo sje ekki, þá nægir að skírskota til nál. míns á þskj. 590, þar sem jeg hefi tekið afstöðu til þessa máls. Jeg er sammála flm. frv. um það, að nauðsynlegt sje að ljetta af láns- og vöruskiftaversluninni og hafa lánsstofnanir út um hjeruðin, en jeg geng jafnframt út frá því, að forganga þessarar rekstrarlánastarfsemi fari fram í sambandi við Landsbankann. En þegar útlit er fyrir, að hann geti ekki haft þessi viðskifti með höndum, tel jeg fótunum kipt undan frv., og tel rjett að vísa því til stjórnarinnar. Og til sönnunar því, að hjer hafi engin skoðanaskifti átt sjer stað hjá mjer, vil jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa nokkur orð út nál: .... „Þó jeg ekki nú sjái fyrir víst, hvernig komið verði fyrir forgöngu og yfirstjórn rekstrarlánastarfsemi frv., þá mun jeg fylgja frv. til 3. umr., í trausti þess, að þá verði sjeð fær leið til framkvæmda í málinu.“

Þessu lýsti jeg yfir við 2. umr., og síðan hefir ekkert það komið fram, sem hendi til þess; að málið geti komist í framkvæmd. Stjórn Landsbankans hefir lýst því yfir, að hún vilji ekki, að þessi lánastarfsemi fari fram í sambandi við bankann. Menn væru því engu nær, þó að frv. yrði samþykt nú. (BK: Á bankastjórnin að ráða yfir þinginu?) Nei, mjer dettur ekki í hug að halda því fram. En jeg vil ekki láta samþykkja frv. þetta til þess að það verði aðeins pappírslög ein, því að svo verður, ef það verður samþ. eins og það liggur fyrir nú.

Annars má minna háttv. 3. landsk. á það, að afstaða hans gagnvart áliti Landsbankastjórnarinnar var á annan veg, þegar till. kom fram um það, að skylda Landsbankann til þess að liggja með ákveðinn hluta af ræktunarsjóðsbrjefunum. Þá lagði hann á móti því, af því að hann taldi slíkt ekki framkvæmanlegt, af því að bankastjórnin legði á móti því. Og það áleit þingið líka, þó að það hafi öll yfirráð yfir bankanum.

Þá sagði hv. 3. landsk., að auðmýkt mín lægi í því, að jeg hefði verið áður með málinu, en beygði mig nú fyrir áliti bankastjórnarinnar. Þetta er ekki rjett, því að eins og jeg hefi margtekið fram, liggur andstaða mín gegn frv. nú í því einu, að jeg sje ekki, að það beri neinn árangur, eins og nú standa sakir, þó að það verði samþykt. Þá sagði háttv. þm., að það, sem jeg hefði sagt um ameríska reikningslánið, hefði verið skakt. Lán það ætti að takast frá ári til árs, sem sagt borgast upp árlega, eins og gert er ráð fyrir með þessi rekstrarlán. Þetta er alveg rjett. En fari svo, að Landsbankinn fái ekki inn árlega alt það fje, sem hann lætur til rekstrarlánastarfseminnar, þá þarf hann annaðhvort að greiða ameríska reikningslánið upp með öðru fje, eða þá að framlengja nokkrum hluta þess, en það hefir aftur þá þýðingu, að vextirnir af útlánsfjenu hjer verða hærri. Þetta bjóst jeg við að hv. 3. landsk. mundi vita. Annars mun Landsbankinn ætla að hafa þetta ameríska lán sem nokkurskonar varasjóð, til þess að grípa til, þegar eitthvað óvenjulegt kemur fyrir, en ekki til þess að nota það til almennrar útlánastarfsemi sem þessarar. Þarf því, ef til kæmi, að taka nýtt lán í þessu skyni.

Þá sagði hv. þm., að í byrjun mundi lítið verða notað af þessum lánum. En það tel jeg hann ekkert geta fullyrt um. Jeg býst þvert á móti við, að strax verði töluverð eftirspurn eftir þeim. Þannig má t. d. búast við, að kaupfjelögin komi strax til greina. Það eru fjelög á takmörkuðu svæði, þar sem hver þekkir annan, og þó að þau hafi samábyrgð gagnvart S. Í. S., þá geta þau mjög fljótlega breytt fyrirkomulagi sínu gagnvart þessari lánsstofnun, og nú þegar hefir eitt kaupfjelagið skorað á þingið að samþykkja frv. þetta. Jeg geri því ráð fyrir, að þær 5 milj., sem ætlast er til, að teknar verði að láni í þessu skyni, muni þegar á fyrsta ári verða notaðar að fullu. Enda er það ekki svo mikið fje, þegar tekið er tillit til þess, að hver einstaklingur má fá alt að 4 þús. kr., og það á að skiftast milli 200 hreppa í landinu. Jeg verð því að telja mjög hæpið að byggja á því, að fje þetta verði ekki notað mikið til þess að byrja með.

Þá gerði hv. 3. landsk. ráð fyrir því, að bankaráð Landsbankans mundi alt vera með því, að hefja þessa rekstrarlánastarfsemi, og það rjeði meira en bankastjórnin. En jeg geri þvert á móti ráð fyrir því, að bankaráðið legði hvorki í þessa eða aðra útlánsstarfsemi, ef bankastjórnin teldi það varasamt fyrir hag bankans.

En það veit hv. 3. landsk., að ástæðan til þess, að Landsbankastjórnin legst á móti þessu, er sú, að hún telur sig, samkv. frv., enga hlutdeild geta haft um tryggingarnar fyrir lánunum. Mjer finst því sjálfsagt að taka tillit til þess, hvað hún segir um þessi mál, og það er alveg í samræmi við það, sem hv. 3. landsk. hefir haldið fram á undanförnum þingum að bæri að gera.

Þá er ókunnugt um afstöðu stjórnarinnar til málsins. Hæstv. dómsmrh. mintist ekkert á, hvort stjórnin mundi nota heimildina eða ekki, ef hún yrði samþykt. Og sá ráðherrann, sem málið heyrir undir, hefir ekkert láta til sín heyra.

Þá sagði hv. 3. landsk., að það væru engin vandkvæði á að fá reikningslán erlendis, og fá þau líka framlengd frá ári til árs. Þetta er rjett, en kjörin á slíkum lánum mundu fara eftir því, hvort notendur þeirra hjer heima gætu staðið í skilum með að greiða Landsbankanum og útibúum hans á rjettum tíma rekstrarlán sín. Væri ekki hægt að borga þau upp á rjettum gjalddaga, mundu vextirnir verða hærri, alveg eins og maður verður að borga hærri vexti af víxlum hjer við bankana, ef þeir eru framlengdir fram yfir sinn fyrsta gjalddaga.

Jeg þykist nú hafa sýnt fram á það, að jeg hefi hreina afstöðu til þessa máls, að jeg er velviljaður því, en vil ekki láta samþykkja það nú, af því að jeg sje það ekki til neins, og vil því heldur láta athuga það til næsta þings. Mætti þá svo fara, að það komi betur undirbúið en nú.