14.04.1928
Neðri deild: 71. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 563 í C-deild Alþingistíðinda. (1880)

81. mál, atvinnurekstrarlán

Sveinn Ólafsson:

Jeg get að ýmsu leyti fallist á athugasemd hv. 1. þm. N.-M. út af þessu máli. Jeg skrifa að vísu ekki undir alt, sem hann sagði, en margt þótti mjer hann taka rjettilega fram. Þetta frv. er fram borið í góðum tilgangi, og ef betur hefði verið um það búið, hefði það mátt verða að góðu liði. En það er svo fljótfærnislega um það búið, að þess er ekki að vænta, að það yrði að notum, þó að lögfest yrði. Að sjálfsögðu er það hugmynd þeirra, er að frv. standa, að reyna að bæta úr lánsfjárþörf þeirra, sem erfitt eiga með að nota lánstraust almennings, en þessi bót er bundin skilyrði, sem hæpið er að uppfylt verði, sem sje því, að einhverjir, sem tiltrú hafa og álit, vilji ganga í ábyrgð fyrir þá. Fyrir slíka menn þarf hvort sem er altaf ábyrgð.

Jeg ætla ekki að fara nánar út í að lýsa því, hvernig framkvæmd þessa máls mundi verða, en jeg býst við, að erfitt mundi reynast að fá menn til að ganga í þennan fjelagsskap til þess að tryggja lán handa þeim, sem mesta þörf hafa á lánsfje. Ef tími hefði unnist til þess að koma þessu máli til nefndar, hefði eitthvað mátt úr því verða. En úr því sem komið er, virðist rjettast að lyfta undir málið á þann eina veg, sem hægt er, með því að vísa því til stjórnarinnar, til frekari athugunar til næsta þings, og legg jeg það til. Stjórninni tekst kanske að færa það í betri og aðgengilegri búning en það er nú í.

Jeg ætla ekki að fara að telja fram agnúa á frv. Einn tilnefndi hv. 1. þm. Reykv., en þeir eru vissulega fleiri.