14.04.1928
Neðri deild: 71. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 569 í C-deild Alþingistíðinda. (1884)

81. mál, atvinnurekstrarlán

Lárus Helgason:

Jeg mun ekki tefja umr. lengi. Hv. þm. N.-Ísf. sagði, að þetta þing mundi áreiðanlega ekki bera gæfu til að samþykkja jafngott mál og þetta. Jeg veit nú ekki vel, hvað hv. þm. átti við með þessum orðum sínum. Hann gerði enga grein fyrir því. En ef hann hefir átt við það, að þingið væri svo illa skipað mönnum, þá hittir það álit sjálfan hann, engu síður en aðra. En jeg held nú helst, að þetta hafi bara verið óhugsaður og órökstuddur sleggjudómur. — Þá kvað við nokkuð líkan tón, hjá hv. 1. þm. Reykv.hv. þm. sagði, að stjórnin og flokkar þeir, er hana styðja, liti þetta mál öfundaraugum. Sú getgáta er af alveg sama toga spunnin. Finst mjer harla óviðfeldið að vera með slíka órökstudda sleggjudóma. Jeg hefi að minsta kosti ekki orðið var við, að neinn líti flytjendur frv. þessa öfundaraugum vegna þess. Annars má það undarlegt heita, að ef svo væri, að þetta væri besta málið, sem borð hefir verið fram á þessu þingi, ef meiri hluti þingsins lætur úr hömlu síga, að afgreiða það. — Jeg fullyrði því, að þessi ummæli þessara tveggja hv. þm. eru algerlega óviðeigandi og hafa ekki við neitt að styðjast.

Þá er það málið sjálft. Jeg verð nú að segja það, að jeg er ekki eins hrifinn af því eins og þeir, sem telja það besta mál þingsins. Og jeg skal í fám orðum segja af hverju það er: Jeg hefi aldrei orðið var við það — og bý jeg þó í afskektu hjeraði — að þeir, sem eru svo efnum búnir og þeir skilamenn, að þeir geti borgað upp skuldir sínar um hver áramót, sjeu í neinum vandræðum með að fá peninga. Svo er það minsta kosti yfirleitt. Hitt tel jeg meira vit í og fyllri þörf, að efla banka, sem gæti veitt rekstrarlán, og til að auka bústofn, um lengri tíma, með sem lægstum vöxtum. Þetta frv. gæti því átt nokkurn rjett á sjer, með því að lagfæra það, án þess þó að ástæða sje til, að nokkur flokkur öfundist yfir því, að það er fram komið. En hitt tel jeg ekki skaða, þótt málið gangi eigi fram nú. Það gefur tíma til að athuga það betur. Meira ætla jeg svo ekki að segja. Mjer þótti aðeins rjett að mótmæla þessum tón, sem fram kom hjá þessum hv. þm. til stjórnarinnar og stuðningsflokka hennar, þar sem þeir hjeldu, að við mundum öfundast yfir þessari miklu gersemi.