17.02.1928
Efri deild: 25. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 572 í C-deild Alþingistíðinda. (1888)

99. mál, aðstoðarlæknissýslanir í Ísafjarðarhéraði og Akureyrarhéraði

Flm. (Ingvar Pálmason):

Frv. þetta er borið fram sem sparnaðarmál. Eins og tekið er fram í grg., þá hefir það verið svo, að í nokkur ár hefir enginn aðstoðarlæknir verið á Akureyri. Lagaheimild fyrir því stendur þó enn, og virðist ekki loku fyrir það skotið, að svo geti farið hvenær sem er, að maður verið skipaður í þetta embætti. Nú um skeið virðist ekki hafa verið þörf á þessu embætti, enda starfa þar nokkrir „praktiserandi“ læknar, og ástandið virðist sæmilegt, hvað lækna snertir.

Hvað snertir aðstoðarlæknissýslanina á Ísafirði, þá hefir verið og er enn maður í þeirri stöðu. Þetta embætti hefir af mörgum verið talið óþarft, og ef það væri afnumið, mundu sennilega „praktiserandi“ læknar setjast þar að, svo að læknarnir yrðu þar ekki færri fyrir því. Jeg álít, eins og fjárhagurinn er, og reynt hefir verið að spara og draga úr tilkostnaði við þjóðarbúskapinn á ýmsum sviðum, þá sje sparnaðarviðleitni þessa frv. alveg rjettmæt.

Jeg ætla svo ekki að ræða meira um þetta að sinni, en vil mælast til, að frv. fái að ganga til 2. umr. og fjhn.